PERSÓNUVERND hefur sent bréf til Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja varðandi öflun kennitalna í tengslum við gjaldeyriskaup.
PERSÓNUVERND hefur sent bréf til Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja varðandi öflun kennitalna í tengslum við gjaldeyriskaup. Þar kemur fram að í áliti stjórnar Persónuverndar um öflun kennitalna segi að fjármálastofnunum sé í vissum tilvikum skylt að spyrja um kennitölur, þ.e. þegar fjárhæð fer fram úr 15 þúsund evrum, ástæða er til að ætla að viðskipti fari fram í þágu þriðja manns eða ástæða er til að ætla að viðskiptin tengist tiltekinni refsiverðri háttsemi. Þar af leiðandi væri fjármálafyrirtækjum ekki heimilt að krefja viðskiptavini alltaf um kennitölur við gjaldeyriskaup.

Með vísan til leiðbeiningahlutverks Persónuverndar benti hún fjármálastofnunum á að þær gætu sett sér starfsreglur um hvenær krefja má viðskiptavini um kennitölur við kaup á gjaldeyri. Jafnframt var ákveðið á fundi stjórnar Persónuverndar að kanna það næsta haust hvernig fjármálastofnanir hafi brugðist við niðurstöðunni en þá kann að vera tekið mið af hugsanlegum breytingum á íslensku lagaumhverfi í tengslum við nýja tilskipun um aðgerðir gegn peningaþvætti, sem kann m.a. að miða skyldu til öflunar kennitalna við aðra fjárhæð en nú er gert.