5. maí 2006 | Innlendar fréttir | 164 orð | 1 mynd

Hafa tekið sér bólfestu á þaki Morgunblaðshússins

Eins og sjá má er Styrmir mjög áhugasamur um ljósmyndarann hinum megin glersins. Frú hans fylgist spennt með í öruggri fjarlægð.
Eins og sjá má er Styrmir mjög áhugasamur um ljósmyndarann hinum megin glersins. Frú hans fylgist spennt með í öruggri fjarlægð. — Morgunblaðið/Eyþór
KANNSKI hefur það verið útsýnið af þaki annarrar hæðar Morgunblaðshússins við Kringluna sem heillaði þetta tjaldspar, en svo mikið er víst að það hefur tekið sér bólfestu á flötinni umhverfis hana en undanfarnar þrjár vikur hefur parið dvalið fyrir utan...
KANNSKI hefur það verið útsýnið af þaki annarrar hæðar Morgunblaðshússins við Kringluna sem heillaði þetta tjaldspar, en svo mikið er víst að það hefur tekið sér bólfestu á flötinni umhverfis hana en undanfarnar þrjár vikur hefur parið dvalið fyrir utan skrifstofur blaðsins á þriðju hæð. Óformlegur blaðafulltrúi þeirra hjóna sagði í samtali við Morgunblaðið að karlinn goggaði oft í rúðuna þegar starfsmenn kæmu úr lyftu hússins á leið sinni til vinnu og væri mjög áhugasamur um starfsemina innanhúss. Fulltrúinn taldi einnig líklegt að tjaldsfrúin hefði verpt eggjum á flötina sem er í kringum hæðina, þar sem hún hefði ekki hreyft sig mikið frá einum staðnum, en vildi þó ekki staðfesta það að svo stöddu. Fulltrúinn sagði ennfremur að fuglaáhugamenn blaðsins hefðu tekið þessum nýju íbúum fagnandi: "Þó má segja að fuglarnir hafi sterkar taugar til eins starfsmannsins þar sem karlinn syngur fyrir utan skrifstofu hans reglulega. Lá því beinast við að nefna fuglinn eftir honum og þekkjast því hjónin nú sem Styrmir og frú."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.