— Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Þegar útgjöld til hernaðarmála eru hundraðföld sú heildarupphæð sem rennur til mannúðarmála um heim allan er ástæða til að spyrja hvert stefnir.

Þegar útgjöld til hernaðarmála eru hundraðföld sú heildarupphæð sem rennur til mannúðarmála um heim allan er ástæða til að spyrja hvert stefnir. Helstu fórnarlömb nútímaátaka eru óbreyttir borgarar, aðallega konur og börn, og það eru ósjaldan stjórnvöld í eigin landi sem bregðast skyldu sinni til að vernda þá, eða það sem er öllu verra: ráðast gegn eigin borgurum. Hrund Gunnsteinsdóttir ræddi við Dennis McNamara, yfirmann þeirrar deildar innan SÞ sem fer með málefni fólks á vergangi. McNamara var staddur hér á landi í vikunni til að ræða hlutverk íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegu þróunar- og hjálparstarfi.

Dennis McNamara hefur víðtæka reynslu af flóttamanna- og hjálparstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna og hefur gegnt lykilstöðum innan stofnunarinnar í ríkjum eins og Írak, Kósóvó, Austur-Tímor og Kambódíu. Hann talar nú máli 24 milljóna einstaklinga sem taldar eru vera á vergangi í eigin landi (e. internally displaced people, IDPs) víðsvegar um heim. Þessir einstaklingar hafa þurft að flýja heimili sín vegna vopnaðra átaka eða ofbeldis, en til samanburðar má geta þess að flóttamenn eru taldir vera um níu milljónir. Ég byrjaði á að spyrja McNamara hver væri meginmunurinn á flóttamönnum og fólki á vergangi í eigin landi?

"Skilgreiningin flóttamaður nær yfir fólk sem hefur flúið yfir alþjóðleg landamæri og réttindi þess eru tryggð í alþjóðlegum samningum, staða flóttamanna er viðurkennd af alþjóðasamfélaginu og sér stofnun innan Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) fer með málaflokk flóttamanna. Réttindi fólks á vergangi eru hins vegar ekki tryggð í alþjóðlegum samningum, staða þeirra er ekki viðurkennd né heldur er til sérstofnun sem fer með málefni þess. Einungis eru til leiðbeinandi grundvallarreglur um meðferð á fólki á vergangi, en þær eru hvorki bindandi né almennt samþykktar af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna."

Hann segir málefni fólks á vergangi vera "falið vandmál" þar sem það haldi ekki til í flóttamannabúðum, heldur reyni að láta fara sem minnst fyrir sér í fjalllendi, sveitaþorpum og jafnvel á ruslahaugum. Fólk á vergangi er yfirleitt að flýja eigin yfirvöld eða veit að þau munu ekki tryggja öryggi þess. Súdan er gott dæmi um þetta, að sögn McNamara. "Þar er ástandið hvað verst, en talið er að sex milljónir einstaklinga séu þar á vergangi. Í Kólumbíu eru 3 milljónir manna á vergangi og í Úganda um það bil tvær milljónir manna."

Þegar yfirvöld tryggja ekki öryggi borgara sinna, flyst ábyrgðin yfir á alþjóðasamfélagið, stofnun eins og SÞ. "En Sameinuðu þjóðirnar sinna ekki því hlutverki sem skyldi," segir McNamara. "Í Sómalíu búa margir þessara einstaklinga á ruslahaugum og um 60% þeirra eru börn og konur. Þau hafa ekki aðgang að menntun, heilsugæslu eða löggæslu og eru fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis."

Ástæður þess að SÞ sinna ekki hlutverki sínu sem skyldi, segir McNamara vera margvíslegar. "Í fyrsta lagi er það gríðarlegt framboð smávopna sem ýtir verulega undir vopnuð átök, sérstaklega í Afríku."

Og í nýlegu erindi leggur McNamara fram þær spurningar hvort "Vesturlönd [séu] reiðubúin að hætta sölu á smávopnum til Afríku þetta árið, sem dæmi? Ef ekki, af hverju ekki? Á tímum slagorða er tilvalið að leggja til að eftirfarandi verði kjörorðið í ár: Ekki fleiri vopn til Afríku árið 2006!?" Og hann spyr enn: "Af hverju látum við ekki reyna á það? Ef til vill væri hægt að láta á það reyna meðal átta valdamestu ríkja heims [G8] og Öryggisráðs SÞ?"

McNamara er nefnilega gagnrýninn á margt sem viðkemur störfum SÞ og það er hressandi að heyra svo reyndan, opinberan starfsmann, tala opinskátt um það sem má betur fara í alþjóðlegu þróunar- og hjálparstarfi. Þannig skapar hann trúverðugleika um störf stofnunarinnar, þótt það kunni að hljóma þversagnarkennt. McNamara segir skorta pólitískan vilja í Öryggisráði SÞ til að bregðast almennilega við þeirri neyð sem hefur skapast í Súdan, Kongó og Úganda. Sem ber okkur að næsta áhersluatriði hans, nefnilega hlutverki fjölmiðla.

"Fjölmiðlar fjalla afar takmarkað um aðstæður í þessum ríkjum. Heimsbyggðin er ekki með sjónir á Kongó, Sómalíu eða Suður-Súdan. En hún var með störu á Kósóvó á sínum tíma og lið friðargæsluliða var mun fjölmennara þar en t.d. í Kongó, þar sem talið er að 3 milljónir manna hafi látist frá því að átökin hófust. Við [OCHA; sú stofnun SÞ sem hann starfar fyrir] þurfum á fjölmiðlaumfjöllun að halda til að afla stuðnings ríkisstjórna víðsvegar um heim."

Stuðlum ekki að friði

Um áhyggjur blaðamanns af vaxandi áherslu á hernaðarstyrk í heiminum hafði McNamara þetta að segja: "Um átta milljörðum Bandaríkjadala er varið í hjálparstarf á vegum SÞ og annarra stofnana og frjálsra félagasamtaka í dag. Margfaldaðu þá upphæð með hundrað og þá færðu út heildarhernaðarútgjöld, sem eru 800 milljarðar Bandaríkjadala. Við [ríki heims] erum því raunverulega ekki að stuðla að friði, heldur fjárfesta í vopnuðum átökum."

Hann segir friðarsamninga í Angóla, Líberíu og Búrúndí hafa verið tiltölulega farsæla. Hins vegar séu "milljónir manna á leiðinni heim aftur, jafnvel í þessum töluðu orðum, en það er ekkert sem bíður þeirra, ekki löggæsla, húsnæði, heilsugæsla, hreint vatn, ekkert. Fólk á vergangi er fátækast allra fátækra. Við verðum að fjárfesta í stöðugleika í lífi þessa fólks, annars hefst hringrásin aftur og þessir einstaklingar verða flóttamenn, líkt og gerðist í Sómalíu, liðsmenn ýmissa herdeilda, líkt og í Líberíu eða glæpamenn eins og við höfum séð í Kambódíu og Afganistan."

Hlutur Íslands

McNamara segir Ísland búa yfir dýrmætri reynslu sem hægt sé að miðla til ríkja í suðri sem vilja koma sér upp úr örbirgð og óstöðugleika. "Hver hefði trúað því fyrir rúmum fimmtíu árum að Ísland yrði eitt af ríkustu löndum heims? Íslendingar búa yfir reynslu og gildum sem vert er að miðla, og efnahagslegum stöðugleika. En samt er framlag ykkar til þróunarmála undir 0,3% af vergri landsframleiðslu, en ætti að vera 0,7%.

Íslendingar njóta virðingar á alþjóðlegum vettvangi og þið hafið sýnt að þið búið yfir mikilvægum leiðtogahæfileikum. Ísland gæti til að mynda beitt sér í samstarfshópi Norðurlandanna hjá Alþjóðabankanum. Alþjóðabankinn þarf að gera betur þegar kemur að hjálparstarfi og við þurfum á stuðningi Íslands að halda. Íslendingar tala óháðri röddu á alþjóðlegum vettvangi sem er mjög mikilvægt að hafa í huga. Ég myndi vilja heyra sterkari rödd Íslendinga á sviði hjálparstarfa og mannúðarmála. Það fjármagn sem þið gefið í þróunarstarf er ekki alltaf aðalatriðið, en það er mikilvægt að beina fjármagninu þangað sem það hefur áhrif."

Meira um ábyrgð

Eins og fyrr segir, liggur ábyrgðin fyrir verndun öryggis fólks á vergangi fyrst og fremst hjá yfirvöldum í heimalandi. "Þegar það sinnir ekki skyldu sinni gagnvart eigin borgurum, liggur ábyrgðin hjá alþjóðasamfélaginu, SÞ. En reynslan sýnir að við erum ekki heldur að sinna skyldu okkar gagnvart þessu fólki. Hér hefur orðið árekstur milli laga og reglna um sjálfsstjórn ríkja annars vegar og alþjóðlegra mannréttinda hins vegar."

McNamara segir umræðu um ábyrgðarhlutverk SÞ oft einkennast af vanþekkingu og hann beindi máli sínu sérstaklega að friðar- og öryggismálum á vettvangi Öryggisráðs SÞ. "Í Öryggisráðinu er Kofi Annan [aðalritari SÞ] til dæmis einungis ritari þeirra ríkja sem eiga aðild að, eða fast sæti, í Öryggisráðinu. Í þessum skilningi hafa SÞ sem stofnun ekki pólitískt vald. Völdin og ábyrgðin eru fyrst og síðast hjá aðildarríkjunum. Við getum aflað stuðnings aðildarríkja, reynt að hafa áhrif á ákvarðanir, hrósað ríkjum fyrir vel unnin störf, eða vakið athygli á því sem miður fer, en það er allt og sumt. Styrkur Öryggisráðsins veltur á pólitískum vilja og stuðningi ríkja við grundvallarmarkmið SÞ. Staðreyndin er sú að mörg aðildarríki SÞ vilja ekki að stofnunin sé valdamikil í pólitískum skilningi. Eins og staðan er í dag geta SÞ sýnt pólitískt hugrekki, ekki pólitískt sjálfstæði."

McNamara tekur Súdan og Úganda sem dæmi, þar sem pólitískan vilja aðildarríkja SÞ til að fylgja eftir markmiðum stofnunarinnar, hafi skort. "Darfúr [í Suður-Súdan] er gott dæmi um tilfelli þar sem við höfum ekki sinnt skyldum okkar gagnvart fólki á vergangi. Reyndar kemur slæmt öryggisástand í landinu að mörgu leyti í veg fyrir að hjálp berist fólki, en ábyrgðin er líka hjá Öryggisráðinu, þar sem tiltekin ríki með fastasæti hafa ekki viljað samþykkja frekari afskipti af ástandinu í landinu. Í Norður-Úganda eru um tvær milljónir manna á vergangi og ástandið hefur verið að versna síðustu fimm árin. En af pólitískum ástæðum hefur Öryggisráðið ekki komið sér saman um ályktun um ástandið í norðurhlutanum. Það skortir einfaldlega pólitískt samkomulag meðal ríkja."

Nægir ekki að setja plástur á sárin

McNamara segir Jan Egeland, yfirmann OCHA, hafa ítrekað reynt að fá Öryggisráðið til að koma sér saman um að fordæma ástandið í Súdan og Úganda, "en það hefur borið takmarkaðan árangur.

Fulltrúar Öryggisráðsins heimsóttu yfirvöld í Úganda á síðasta ári og þrátt fyrir beiðni okkar, minntist sendinefndin ekki einu orði á fólk á vergangi við þarlend yfirvöld."

Að lokum sagðist McNamara binda vonir við að Norðurlöndin, þ.m.t. Ísland, beiti sér fyrir auknum pólitískum vilja til að vernda fólk á vergangi. "Einsog staðan er í dag áorkum við (OCHA) að setja plástur á sárin. En það er ekki nóg, það brennur á aðildarríkjum SÞ að sýna pólitískan vilja í verki og taka á mannúðarmálum út frá heildrænu sjónarmiði."