Myndlistarmennirnir Sigurður Guðmundsson og Kristján Guðmundsson í sýningarsal Skaftfells.
Myndlistarmennirnir Sigurður Guðmundsson og Kristján Guðmundsson í sýningarsal Skaftfells.
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is SUMARSÝNING menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði verður opnuð í dag en þá munu bræðurnir Sigurður og Kristján Guðmundssynir sýna þar ný og gömul verk.
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is

SUMARSÝNING menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði verður opnuð í dag en þá munu bræðurnir Sigurður og Kristján Guðmundssynir sýna þar ný og gömul verk. Báðir hafa þeir markað djúp spor í íslenska listasögu en þeir voru meðal forsprakka SÚM-hreyfingarinnar sem bylti listalífinu í landinu við upphaf áttunda áratugarins og á myndlist þeirra sterkar rætur í konsept-listinni sem mótaðist á þessum tíma. Þó er óhætt að segja að þeir séu töluvert ólíkir í listsköpun. Þeir hafa einu sinni áður sýnt saman tveir einir en nýverið voru þeir með sýningu á Næsta bar við Ingólfsstræti í Reykjavík.

Pólitísk verk

Hluti Sigurðar á sumarsýningu Skaftfells er pólitísks eðlis og sótti hann í smiðju sína sérstaklega eftir þeim formerkjum. Þarna getur að líta pastelteikningar á íslensk plaköt fyrir Amnesty-samtökin sem Sigurður gerði fyrir um fimmtán árum en að hans sögn eru þessi verk "afskaplega óvinsæl".

"Það er svona ákveðið pólitískt og heimspekilegt viðhorf á bak við þessi verk," útskýrir Sigurður og kemst hjá því að tjá sig nánar um það. Þá sýnir hann emailleraðar plötur í þremur einingum sem bera þrjár mismunandi áletranir; "aumingja Ameríka", "aumingja Írak", og "aumingja Ísland". Einnig verður þarna sýnd kvikmyndin Ég er Arabi sem Sigurður gerði í samvinnu við kvikmyndagerðarmanninn Ara Alexander. Um er að ræða ádeilumynd sem gagnrýnir Íraksstríðið og fyrst og fremst aðild Íslands að stríðinu.

Sá hluti sýningarinnar sem heyrir undir Kristján er af töluvert öðrum toga en verk Sigurðar. Eitt verkið heitir "Jarðtenging" en þar er Kristján búinn að jarðtengja stóra járnplötu í miðstöðvarkerfi hússins. Auk þess hefur hann teiknað Land Rover jeppa í fullri stærð úr rafmagnssnúru sem endar í lampa. Nokkrar stórar teikningar eftir Kristján eru á sýningunni, eins konar málverk, og einnig má þarna sjá nokkra skúlptúra eftir hann sem liggja á gólfi salarins.

Ólíkar áherslur

Á plakati sýningarinnar, sem grafíski hönnuðurinn og myndlistamaðurinn Guðmundur Oddur Magnússon hannaði, er búið að skeyta saman andlitum bræðranna í eitt. Myndin ku hafa verið gerð á þennan hátt í tengslum við þá hugmynd að listsköpun bræðranna stjórnist sín af hvoru heilahvelinu. Þá er það hægra heilahvelið sem stýrir "rökfræðilegri" list Kristjáns og það vinstra sem ber ábyrgð á rómantíkinni í verkum Sigurðs. Að vissu leyti lýsir þessi hugmynd ólíkum áherslum bræðranna þó að hún sé sjálfsagt mikil einföldun. Sigurður kveðst þó geta skrifað undir þessa útskýringu. "Ætli það ekki," segir hann og hlær.

Sigurður fer sérstaklega fögrum orðum um menningarstarfsemina á Seyðisfirði sem hefur verið í miklum blóma í gegnum tíðina.

"Það er mjög mikill menningarlegur bragur yfir bænum," segir Sigurður. Þeir bræður hafa nokkrum sinnum sýnt í Seyðisfirði og auk þess stendur útilistaverk eftir Kristján í bænum sem að Vigdís Finnbogadóttir afjhúpaði við hátíðlega athöfn um árið. Verkið er staðsett fyrir framan skóla staðarins og sýnir útlínur Seyðisfjarðar, gerðar úr áli og reistar upp á rönd.