Eina myndin Þetta málverk er eina myndin sem til er af Robert Malthus. Hann neitaði að láta mála sig fyrr en árið 1833 en þá hafði skarð í vör hans verið lagað með lýtaaðgerð. Eftir það þótti hann hinn myndarlegasti maður.
Eina myndin Þetta málverk er eina myndin sem til er af Robert Malthus. Hann neitaði að láta mála sig fyrr en árið 1833 en þá hafði skarð í vör hans verið lagað með lýtaaðgerð. Eftir það þótti hann hinn myndarlegasti maður.
Robert Malthus hefur verið einn umdeildasti fræðimaður sögunnar en hann setti árið 1798 fram svarta framtíðarsýn um mannfjöldaþróun í heiminum. Guðmundur Sverrir Þór fræddist um manninn.

Sagan dæmir menn og oft vill hún dæma menn á rangan og ósanngjarnan hátt. Einn þeirra sem ekki hafa fengið að njóta sannmælis þeirra sem á eftir honum lifðu er breski hagfræðingurinn Thomas Robert Malthus. Það skal tekið fram strax í upphafi að sú hefð hefur myndast meðal íslenskra fræðimanna að nota fyrsta nafnið og kalla hann Thomas Malthus en hann vildi láta kalla sig Robert eða Bob og verður því talað um Robert Malthus héðan í frá.

Þótt Malthus þessi hafi verið mikilhæfur hagfræðingur og ef til vill einn sá áhrifamesti í sögu greinarinnar hefur hans yfirleitt verið minnst fyrir kenningu sína um mannfjöldaþróun. Þar setti hann fram afar svarta framtíðarsýn og hefur kenning hans verið vægast sagt umdeild. Því má þó ef til vill halda fram að kenning hans hafi verið samin með ákafa æskunnar að leiðarljósi en því má ekki gleyma að þeir eru til enn í dag sem aðhyllast þessa kenningu, og benda meðal annars á mörg lönd Afríku sem sönnun hennar.

Framtíðarsýn Malthusar var á þessum tíma afar svört eins og áður segir og segir sagan að þessi kenning hafi verið ein helsta ástæða þess að hagfræðin hafi síðar fengið nafnbótina hin döpru vísindi (e. the dismal science).

Hafði áhrif á Keynes

Í upphafi er því haldið fram að Malthus hafi verið einn áhrifamesti hagfræðingur sögunnar og skulu hér færð fyrir því rök. Í fyrsta lagi var hann einn þeirra fyrstu sem gerðu fræðigreinina að ævistarfi eftir að Adam Smith lagði línurnar í sínu merkilega riti Auðlegð þjóðanna ásíðari hluta 18. aldar. Í öðru lagi höfðu fáir jafnmikil áhrif á þann mann sem hefur oft verið nefndur áhrifamesti hagfræðingur 20. aldarinnar, og jafnvel sögunnar, þ.e. Englendinginn John Maynard Keynes.

"Ef Malthus, í stað Ricardo, hefði verið sá stofn sem hagfræði 19. aldarinnar óx út frá væri heimurinn mun vísari og ríkari í dag," skrifaði Keynes um fyrirmynd sína í bókinni Essays in Biography frá 1933. Sennilega er ekki hægt að fá meira lof frá þeim hagfræðingi sem gjörbylti þankagangi hagfræðinnar á 4. áratug síðustu aldar.

Áhrifa Malthusar gætir fyrst og fremst í kenningum um framboð og eftirspurn, því sama og Smith rannsakaði hvað mest, en hann var fyrstur til þess að skilgreina offramboð, þ.e. ef framboð á flestum eða öllum gæðum - vörum og þjónustu - er of mikið myndast almennt offramboð (e. general glut).

Þegar Malthus setti kenningar sínar um offramboð fram, í höfuðriti sínu The Principals of Political Economy árið 1820, byggðu vísindin að þessu leyti mest á lögmáli Frakkans Jean-Baptiste Say sem hélt því fram að ef framboð væri nóg þá myndi eftirspurn alltaf skapast. Því gæti offramboð aldrei ríkt til lengri tíma litið. Ef það myndaðist tímabundið myndi verðlag breytast og framboð og eftirspurn ná jafnvægi á ný.

Malthus hins vegar sá göt í þessari röksemdafærslu og benti á þau. Hugmyndir hans hlutu þó ekki brautargengi fyrr en rúmri öld síðar þegar Keynes kom þeim á framfæri. Það voru hins vegar menn á borð við David Ricardo og John Stuart Mill sem höfðu mest áhrif á fræðigreinina á 19. öld. Nú er eðlilegt að spyrja sig hvers vegna svo var en ástæðan mun ekki hafa verið svo mjög flókin.

Malthus fæddist holgóma en á þeim tíma var ekki hægt að laga slíka kvilla og því átti hann oft erfitt með tal. Þegar tekið er tillit til þess að bæði Ricardo og Mill þóttu framúrskarandi ræðumenn er ef til vill ekki svo erfitt að gera sér í hugarlund að þeir hafi átt auðveldara með að koma hugmyndum sínum á framfæri.

Hume og Rousseau

Robert Malthus fæddist í Surrey í Englandi á því herrans ári 1766. Faðir hans, Daniel, þótti maður vís þótt ekki væri hann menntaður; sagan segir að hann hafi verið víðförull maður og lífsreyndur. "Hann ferðaðist mikið um Evrópu og heimsótti alla hluta þessarar eyjar [Bretlands]," segir Keynes um hann. Meðal vina hans og reglulegra gesta voru heimspekingarnir David Hume og Jean-Jacques Rousseau.

Öllum heimildum ber saman um að hinn ungi Robert hafi verið alinn upp í andlega frjóu umhverfi og þar sem faðir hans var ekki maður eignalaus var drengurinn sendur til einkakennara og síðar í Jesus College í Cambridge, einn þekktasta háskóla veraldar. Þar kom hann sér afar vel, bæði sem námsmaður og persónuleiki, en Malthus hinn ungi þótti afar skapgóður maður og rólyndur. Árið 1791 útskrifaðist hann með meistaragráðu í stærðfræði en eins og flestir þeir sem sóttu háskóla á þeim tíma lærði hann einnig latínu og grísku (og fékk verðlaun fyrir frammistöðu sína í þeim fögum).

Tveimur árum síðan fékk hann fastráðningu við skólann og árið 1797 tók hann við starfi klerks í litlu sveitabrauði í þorpinu Albury, ekki langt frá heimili foreldra sinna. Sagt er að þeir feðgar hafi löngum setið og rætt saman um heimsins gagn og nauðsynjar og það var einmitt upp úr slíkum samræðum sem mannfjöldakenningin spratt.

Snilligáfa æskunnar

Það var árið 1798 sem hann gaf út lítið kver sem nefnt var An Essay on the Principles of Population . Reyndar var höfundar ekki getið í kverinu en Malthus stóð við sína kenningu allt til dauðadags og gaf ritið út alls sex sinnum og gekkst hann við afkvæmi sínu strax við aðra útgáfu.

Ekki gefst hér tóm til þess að rekja kenninguna í smáatriðum en í stórum dráttum gengur hún út á að fólksfjöldi aukist með veldisvexti (1, 2, 4, 8, 16 ...) en matarbirgðir heimsins aukist með venjulegum vexti (1, 2, 3, 4, 5...). Eins og gefur að skilja fæli þetta í sér að mannfjöldaaukning fengi aldrei staðist til lengri tíma þar sem mannfjöldinn myndi aukast mun meira en matarforðinn. Þannig myndu hungursneyð og sjúkdómar leiða til þess að mannfjöldinn drægist saman á ný. Einnig nefndi Malthus stríð og náttúruhamfarir sem þætti er gætu orðið til þess að hamla fólksfjölgun.

Eins og áður segir eru skrif þessi vægast sagt umdeild enn þann dag í dag og ekki skal lagt mat á réttmæti þeirra miðað við þær aðstæður sem nú eru í heiminum. Það verður þó að taka tillit til þess að þegar Malthus skrifaði þetta var iðnbyltingin ekki komin mjög langt á veg og hann var að einhverju leyti að lýsa þeim veruleika sem blasti við fólki um aldamótin 1800.

"Þetta verk Malthusar er til marks um snilligáfu æskunnar. Höfundurinn gerði sér fyllilega grein fyrir því hvaða þýðingu hugmyndir hans höfðu og hann taldi sig hafa fundið lausnina á eymd mannkynsins," segir Keynes um verk fyrirmyndar sinnar og tekur upp fyrir hann hanskann að venju.

Malthus var fylgjandi því að menn giftu sig og eignuðust börn seint, enda væri það ein aðferð til þess að draga úr fólksfjölgun. Andstætt mörgum sem iðka ekki það sem þeir predika fylgdi hann eigin ráðum og gifti sig árið 1804, þá 38 ára, en hann eignaðist þrjú börn með eiginkonu sinni.

Árið 1805 var hann skipaður prófessor í pólitískri hagfræði (sem í dag heitir þjóðhagfræði) við háskóla Austur-Indía félagsins í Haileybury í Hertfordskíri. Þetta var fyrsta prófessorsembættið í hagfræði í Englandi og hefur Malthus án efa haft mikil áhrif á marga nemendur sína sem kölluðu læriföður sinn jafnan "Pop" eða "Population" Malthus. Þar er vísað í kenningu hans um mannfjöldaþróun. Ekki fer þó neinum sögum af því hvort einhver nemenda hans hafi náð að feta í fótspor hans.

Malthus gegndi þessu starfi allt til dauðadags árið 1834. Hann ferðaðist mikið á ævikvöldinu og bætti við kenningu sína um mannfjöldaþróun en eins og áður sagði stóð hann við hana fram í rauðan dauðann.

sverrirth@mbl.is