Guðnu Th. Jóhannesson
Guðnu Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson fjallar um þorskastríðin og minningu þeirra.: "Að baki þessari sýn á þorskastríðin liggur sú hugsun að þeim sé lokið en svo virðist ekki vera í heimi stjórnmálanna. Þar standa þorskastríðin enn og svo mun verða áfram."
SÍÐUSTU daga hafa nokkrir núverandi og fyrrverandi stjórnmálamenn deilt í fjölmiðlum út af kálfi um lok síðasta þorskastríðsins sem fylgdi Morgunblaðinu í maílok. Tilefnið var að 1. júní voru 30 ár liðin síðan Íslendingar og Bretar sömdu í Osló um lyktir þeirra átaka. Guðmundur H. Garðarsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, átti frumkvæði að gerð kálfsins og ýmis stórfyrirtæki studdu útgáfu hans.

Í kálfinum var rætt við ýmsa sem komu við sögu í þessu síðasta þorskastríði og viðtöl voru við fulltrúa þeirra fyrirtækja sem studdu gerð kálfsins. Viðtölin voru vel unnin og fagmannlega var að verki staðið. Hins vegar hefur verið fundið að því að þáttar Lúðvíks Jósepssonar hafi lítið sem ekkert verið getið og hlutur sjálfstæðismanna í sögu landhelgismálsins gerður allt of mikill. Hér er "Sögufölsunarfélag" Sjálfstæðisflokksins enn að verki, sagði Jón Baldvin Hannibalsson í fjörlegri og skemmtilegri skammargrein. Til varnar þeim, sem stóðu að gerð kálfsins, má þó rifja upp að Lúðvík var í stjórnarandstöðu þegar síðasta þorskastríðið var háð og taldi hið ágæta samkomulag við Breta 1. júní 1976, sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks stóð að, vera uppgjöf og aumingjaskap. En hitt er líka rétt að lokasigurinn í landhelgismálinu verður vart skilinn án þess að fyrri átök séu höfð í huga og þar var Lúðvík svo sannarlega í eldlínunni. Hans hlutur var "mikill og merkilegur", skrifaði Staksteinahöfundur Morgunblaðsins til dæmis fyrir skemmstu.

Sjálfur skrifaði ég með glöðu geði stutt yfirlit um sögu landhelgismálsins í kálfinn umdeilda; annars vegar vegna þess að þar gafst frábært tækifæri til að skrifa fyrir tugþúsundir lesenda og hins vegar vegna þess að mér finnst það nálgast starfsskyldu sagnfræðinga að svara kalli um stutt skrif fyrir almenning á sérsviði sínu. Ég hef líka leyft mér að vona að þrjátíu ár séu það langur tími að unnt sé að skrifa og hugsa um þorskastríðin eins og þau séu liðin tíð; að menn viðurkenni að við Íslendingar stóðum ekki alltaf saman allir sem einn, að stjórnmálamennirnir sem réðu stefnunni höfðu ekki alltaf þjóðarhag einan að leiðarljósi, að við vorum stundum of þrjóskir og fljótfærir, að við (mis)notuðum gjarnan hernaðarmikilvægi landsins, að rétturinn var ekki alltaf allur okkar megin og síðast en ekki síst að saga þorskastríðanna snúist ekki um sigurvegara og það hvaða stjórnmálaflokkur eða leiðtogi hafi staðið sig best.

Að baki þessari sýn á þorskastríðin liggur sú hugsun að þeim sé lokið en svo virðist ekki vera í heimi stjórnmálanna. Þar standa þorskastríðin enn og svo mun verða áfram. Þeim, sem vilja virkilega rétta hlut Lúðvíks Jósepssonar í afmælissögu þorskastríðanna í stað þess að sitja við orðin tóm, er því bent á að þeir geta tekið Guðmund H. Garðarsson og dugnað hans til fyrirmyndar. Hinn 1. september 2007 verða 35 ár liðin síðan fiskveiðilögsagan var færð út í 50 mílur og 1. september 2008 verður hálf öld liðin síðan hún var færð út í 12 mílur. Í bæði skiptin var Lúðvík sjávarútvegsráðherra og færi vel á kálfi fyrir hvort skipti.

Höfundur er sagnfræðingur.