Ferðalög innanlands snúast um svo miklu meira en að komast sem hraðast á milli A og B að sögn Bjarnheiðar Hallsdóttur og Tómasar Guðmundssonar sem hér eru ásamt syninum Jökli.
Ferðalög innanlands snúast um svo miklu meira en að komast sem hraðast á milli A og B að sögn Bjarnheiðar Hallsdóttur og Tómasar Guðmundssonar sem hér eru ásamt syninum Jökli. — Ljósmynd: Jim Smart
Fyrir tveimur árum voru Bjarnheiður Hallsdóttir og Tómas Guðmundsson á suðurleið þegar þau ákváðu að stöðva fjórhjóladrifna bílinn við Grábrók í Borgarfirði og fara í göngutúr.

Fyrir tveimur árum voru Bjarnheiður Hallsdóttir og Tómas Guðmundsson á suðurleið þegar þau ákváðu að stöðva fjórhjóladrifna bílinn við Grábrók í Borgarfirði og fara í göngutúr. Gangan varð upphafið að Ferðahandbók fjölskyldunnar sem er nýkomin út á vegum Eddu - útgáfu.

"Við vorum á ferðalagi, að koma norðan úr landi með þrjú börn með okkur. Við vorum ekkert betri en aðrir Íslendingar, alltaf að keyra á milli sjoppa," segir Bjarnheiður. "Byrjuðum að velta því fyrir okkur í Ártúnsbrekkunni hvort við yrðum fjóra og hálfan eða fimm tíma til Akureyrar," segir Tómas og þau ræða um þetta algenga viðhorf, að komast sem hraðast milli A og B án þess að líta í kringum sig.

Þau segjast ekki hafa verið neitt miklu skárri en aðrir, þótt þau þekki landið betur en margur vegna starfa sinna í ferðaþjónustu. "Svo urðum við fyrir hugljómun uppi á Grábrók. Við vorum búin að keyra í einum rykk og allir orðnir fúlir og pirraðir þegar við ákváðum að stoppa. Börnunum leist ekkert á hugmyndina til að byrja með en þegar við vorum komin upp á fjallið voru allir geysilega ánægðir," segir Bjarnheiður en á toppnum fóru þau að velta því fyrir sér hversu margir staðir sem þessi væru til um land allt. Staðir þar sem skemmtunin kostar ekkert nema einhverja fyrirhöfn.

"Þá datt okkur í hug að það væri sniðugt að gera bók fyrir íslenskar fjölskyldur um hvar gaman væri að stoppa með krakka," segir hún og bendir á að það veiti ekki af, því Íslendingar ferðist miklu meira um landið en þeir gerðu fyrir tíu eða fimmtán árum, til dæmis með stóraukinni tjaldvagna- og fellihýsaeign. Við frekara spjall kemur í ljós að fjölskyldan ferðast ekki með neitt í eftirdragi heldur kýs að gista í sumarhúsum, á hótelum eða gistiheimilum. Bjarnheiður er "ekki nein tjaldmanneskja" og segir að það þurfi ekki að vera dýrt að finna gistingu inni við. "Gistinótt í fellihýsi getur á endanum orðið nokkuð dýr," bendir hún á en þau mæla með því að gera boð á undan sér og bóka gistingu.

Gimsteinar í vegkantinum | "Hluti af skemmtilegu ferðalagi er að undirbúa það," segir Tómas. "Okkur finnst algjör synd að horfa á fólk keyra milli tjaldstæða á sem skemmstum tíma og vera svo bara þar. Fólk lætur alla dásemdina og dýrðina framhjá sér fara. Kannski veit fólk ekki hvers það fer á mis. Það leynast oft gimsteinar í vegkantinum." Þau hafa ferðast mikið síðustu tvö árin með það að markmiði að afla upplýsinga í bókina og hafa heimsótt alla staðina sem teknir eru fyrir í þessari 150 blaðsíðna bók. Og að sjálfsögðu eru strákarnir tveir með í för, Jökull 15 ára og Hallur sjö ára. Þriðja barnið er svo væntanlegt í ágúst og verður því gengið hægt um ferðalagadyrnar í sumar en farið aftur af stað í haust.

Bjarnheiður er búin að vinna við ferðaþjónustu í fjórtán ár, að mestu við að skipuleggja ferðir um landið fyrir erlenda ferðamenn. "Sem er góður grunnur í þetta," segir hún. "Erlendir ferðamenn eru svolítið eins og lítil börn, nálgast landið með opnum huga og alveg fordómalaust, þetta er allt svo nýtt og spennandi fyrir þeim, alveg eins og börnunum. Sjálf sá ég ekkert hvað þetta land hefur upp á að bjóða fyrr en ég var búin að búa erlendis í mörg ár," segir Bjarnheiður en hún vann einnig um skeið fyrir ríkið við stefnumótun í ferðaþjónustu.

Tómas kemur úr annarri átt en í sama geira. "Ég hef unnið fyrir sveitarfélög í ferðamálum, verið ferðamálafulltrúi, unnið hjá samgönguráðuneytinu við að hvetja Íslendinga til að ferðast um eigið land. Eins var ég hjá Flugleiðum um skeið."

Rauði þráðurinn í bókinni er hvað mögulegt sé að gera með börnunum á ferðalögum og er niðurstaðan að alls staðar sé hægt að finna eitthvað fyrir börnin. "Eins er hægt að vekja athygli barna á áhugaverðum stöðum," segja þau en ýmsir fróðleiksmolar eru í bókinni, "náttúruupplýsingar um pöddur, fugla og blóm á mannamáli".

Hugmyndabók | Bókin er sett upp á aðgengilegan hátt. "Það er leiðinlegt að segja það en fæstir nenna að lesa í gegnum tyrfinn texta um biskupa, kirkjudyr og Sturlungabardaga." Þeir sem lesa bókina komast hins vegar að því að flottasti róló á Íslandi er í Borgarnesi, svo eitthvað sé nefnt, en bent er á ýmsa slíka staði í bókinni.

"Þetta er hugmyndabók en ekki upplýsingahandbók," segir Tómas en þau segja að það sé nóg til af hefðbundum ferðahandbókum. "Markmiðið var ekki að gera tæmandi upplýsingarit um Ísland."

Lengri ferðalög þurfa ekki alltaf að vera betri. "Þetta er ekki endilega spurning um að fara hringinn, heldur er hægt að fara í styttri ferðir." Spurð um styttri ferðir út frá Reykjavík, þar sem fjölskyldan er búsett, stendur ekki á svörum. "Mér finnst mjög gaman að fara út á Reykjanes, mér finnst það mjög tilkomumikill og fallegur staður," segir Bjarnheiður. "Ég ætti erfitt með að gera upp á milli Vestmannaeyja og Snæfellsness," segir Tómas en reyndar sammælast þau um að það sé synd að fara út í Vestamannaeyjar fyrir minna en tvo eða þrjá daga. "Svo má ekki gleyma þessari dagsferð sem við erum að selja erlendum ferðamönnum í stórum stíl, Gullna hringnum. Krakkar hafa gaman af að fara á Þingvelli og sjá Gullfoss og ekki síst Geysi."

Hvað landshluta varðar standa Vestfirðir og Vestmannaeyjar upp úr hjá þeim báðum, "sem í raun eru fáfarnir ferðamannastaðir, sérstaklega meðal Íslendinga". Kálfshamarsvík er líka í uppáhaldi hjá Tómasi en hún er skammt utan Skagastrandar og Hvalvatnsfjörður, sem er eyðifjörður fyrir norðan, á skaganum milli Eyjafjarðar og Skjálfandaflóa.

"Það þarf bara að gefa sér tíma til að stoppa og upplifa allt sem þetta land hefur upp á að bjóða. Ef þú ert í réttu fötunum, réttu skónum og með rétta hugarfarið er hægt að gera allt. Það þýðir ekkert að bíða eftir góðu veðri. Það er eins með landslagið og veðrið; það breytist fljótt." | ingarun@mbl.is

Góð ráÐ

* Taktu með þér nesti og tylltu þér niður á sérvöldum stöðum í íslenskri náttúru þar sem komið hefur verið fyrir bekkjum og borðum eða bara í fallegri laut með teppi. Geymdu þjóðvegahamborgarann þar til rignir.

* Góðir skór og vatnsheldur skjólfatnaður eru lykilatriði á öllum ferðalögum.

* Talaðu við heimamenn á hverjum stað - þeir þekkja best til.

* Mundu eftir að taka vaðskó með í ferðalagið, skó sem börnin geta vaðið í og mega blotna í gegn. Þannig verða fjöruferðirnar skemmtilegri og lækjabuslið ánægjulegra.

* Taktu með þér kíki, myndavél, stækkunargler til að skoða pöddur, flugdreka, veiðistöng, bolta, skóflu og fötu - og allt annað sem þér dettur í hug.

Úr kaflanum "Gátlisti fyrir góða ferð" í Ferðahandbók fjölskyldunnar.

Eftir Ingu Rún Sigurðardóttur