29. júní 2006 | Minningargreinar | 5639 orð | 1 mynd

ENGILBERT HANNESSON

Engilbert Hannesson fæddist á Bakka í Ölfusi 11. desember 1917. Hann lést á hjartadeild Landspítala við Hringbraut 20. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Hannes Guðmundsson, f. 23.11. 1885, d. 10.12. 1958, bóndi á Bakka, og Valgerður Magnúsdóttir, f. 2.9. 1887, d. 4.11. 1954, húsfreyja. Systkini Engilberts, Guðrún Lovísa, Magnús, Guðmundur og Valgeir, eru látin, en eftirlifandi er systir þeirra, Jóna María í Hveragerði, og fóstursystir, Ásta Valdimarsdóttir í Reykjavík.

Hinn 24. október 1942 kvæntist Engilbert Ragnheiði Jóhannsdóttur, f. 7.5. 1916 á Breiðabólstað á Síðu, d. 17.3. 1998. Hún var dóttir Jóhanns Sigurðssonar, fv. bónda á Núpum, og fyrri konu hans Ragnheiðar Helgadóttur, d. 1916. Fósturmóðir Ragnheiðar var Jóhanna Magnúsdóttir húsfreyja, seinni kona Jóhanns. Börn Engilberts og Ragnheiðar eru: 1) Jóhanna Ragnheiður, maki Páll Jóhannsson. Börn hennar eru: Engilbert Sigurðsson, maki Harpa Rúnarsdóttir, þeirra börn eru Dagný, Eyrún og Sindri; Sigurjón Sigurðsson, hans dóttir er Þóra; Rannveig Borg Sigurðardóttir. Börn Páls eru Sigurjón, Hildur og Jóhann. 2) Valgerður Hanna, maki Garðar Guðmundsson. Börn hennar eru: Ragnheiður Pétursdóttir Melsteð, maki Magnús Scheving, þeirra börn eru Sylvía Erla og Kristófer; Engilbert Garðarsson. 3) Guðmunda Svava, maki Gunnlaugur Karlsson. Börn Gunnlaugs eru Karl og Áslaug.

Engilbert fór til náms í Héraðsskólanum á Laugarvatni og þaðan í búfræðinám í Bændaskólanum á Hvanneyri. Að loknu námi vann Engilbert ýmis störf, hjá Búnaðarsambandi Dala og Snæfellsness, hjá Framræslu- og áveitufélagi Ölfushrepps og hjá heildsölufyrirtæki í Reykjavík. Vorið 1944 keypti Engilbert jörðina Bakka II í Ölfusi af föður sínum og stundaði þar búskap allan sinn starfsaldur.

Engilbert tók alla tíð virkan þátt í félagsmálum í sinni sveit og sýslu. Hann var einn af stofnendum Ungmennafélags Ölfusinga árið 1934 og sat í stjórn þess um skeið. Þá gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína. Hann var kosinn í hreppsnefnd Ölfushrepps, sat í skólanefnd Hveragerðis, var formaður gróðurverndarnefndar Árnessýslu, Búnaðarfélags Ölfushrepps, Ræktunarsambandsins og umboðsmaður Brunabótafélagsins í Ölfushreppi um árabil. Árið 1973 var Engilbert skipaður hreppstjóri í Ölfushreppi og gegndi því starfi til ársins 1988 þegar hann lét af störfum vegna aldurs. Engilbert var einn þeirra Hjallasóknarbænda sem áttu stóran þátt í að Hitaveita Þorlákshafnar varð að veruleika. Heita vatnið fyrir hitaveituna er sótt í land Engilberts á Bakka II.

Engilbert var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir félagsstörf 17. júní 1994.

Útför Engilberts verður gerð frá Hveragerðiskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Jarðsett verður í Kotstrandarkirkjugarði.

Afi Engilbert var í senn alvörugefinn og glettinn grallari sem sló stöðugt á létta strengi við okkur barnabörnin. Við dvöldumst öll á Bakka mörg sumur og tókum þátt í bústörfum um leið og kraftar leyfðu. Margar góðar minningar tengjast samvistum við dýr og fólk á Bakka, t.d. spjalli við hann og ömmu við mjaltir eða inni í eldhúsi þar sem hann drakk oftast kaffið af undirskálinni. Það var jafnan gestkvæmt á Bakka og veitt af rausn. Einnig er eftirminnilegt þegar koma þurfti heyjum í hús áður en rigndi. Þá var hann í essinu sínu og sönglaði og reykti Camel í Massanum. Hann fylgdist ávallt vel með námi, störfum og fjölskyldum barnabarna sinna og var bóngóður ef við þurftum á aðstoð hans að halda. Sama veit ég að á við um ýmsa aðra ættingja og sveitunga hans. Þó hélst honum ágætlega á fé, enda bruðl eitur í hans beinum.

Afi stóð alla tíð traustum fótum í íslensku bændasamfélagi 20. aldar. Umfram allt var hann Ölfusingur, Árnesingur og stoltur bóndi í tæp 60 ár, þar af hreppstjóri til 15 ára. Hann taldi sig hafa lítið að sækja til útlanda og fór aðeins einu sinni út fyrir landsteinana. Hann var ósérhlífinn félagsmálafrömuður í sinni sveit og sýslu og vildi veg þeirra sem mestan. Það varð honum mikið happ að kvænast ömmu Ragnheiði 1942, en hún tók alla tíð virkan þátt í bústörfum ekki síður en heimilisstörfum.

Afi fylgdist ávallt vel með málefnum líðandi stundar. Hann var gegnheill framsóknarmaður og studdi flokkinn sinn gegnum súrt og sætt fram í andlátið. Hann var í senn hlýr og harður í horn að taka, greindur vel og minnið afburða traust fram á allra síðustu ár. Hendur og handleggir báru áratuga erfiðisvinnu vitni. Ær og kýr voru hans dýr í búskapnum og í alvarlegum veikindum í desember 2003 og nú í júní 2006 var hann jafnan að smala þegar hann talaði upphátt milli svefns og vöku.

Hann hlaut einkar góða umönnun í langri legu á hjartadeild Landspítala 2003-2004 og átti eftir það tvö ágæt ár á hjúkrunarheimilinu Eir. Ljóst var þó hvert stefndi á síðustu mánuðum. Fram að veikindunum 2003 hafði hann sniðgengið lyf og lyflækna af fremsta megni og töflur vart komið inn fyrir hans varir. Samt hafði hann sótt mikla heilsubót í þrjár liðskiptiaðgerðir fyrr um ævina vegna slitgigtar. Það átti því við um afa eins og marga aðra, að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur þegar heilsan er annars vegar. Raunar náðu hann og hjartalæknir hans síðan einkar vel saman þegar afi þurfti á aðstoð hans að halda þrátt fyrir mikinn aldursmun.

Afi var mælskur vel og orðheppinn í daglegu tali. Einskis manns skömmum var raunar verra að sitja undir ef hann reiddist. Þá fór saman kröftug rödd, miklar dökkar augabrúnir og kjarnyrt íslenska. Með hans kynslóð er því miður að glatast hæfnin til að setja saman gagnorðar tækifærisræður þar sem margt leynist á milli línanna og listilega er skautað yfir farinn veg. Þann leik lék hann síðast í sextugsafmæli elstu dóttur sinnar 2005, þá 87 ára gamall, og var hylltur vel og lengi fyrir af afmælisgestum. Ræðan var handskrifuð sama dag og aðeins tvær smávægilegar útstrikanir gerðar fyrir flutninginn. Engin þörf á uppkasti. Gamli maðurinn studdist við hækju og vegg þar sem hann flutti ræðuna. Röddin var hás og ekki eins djúp og kröftug og áður fyrr. Innihaldið hins vegar ósvikið og magnað. Hans mesta hrós um nokkurn mann var raunar að hann væri "alveg magnaður", en þau orð sagði hann með nokkuð sérstakri áherslu. Sú lýsing á í mínum huga afar vel við um hann sjálfan.

Ég kveð afa minn og nafna með miklum söknuði við lok farsællar og langrar ævi og þakka honum samfylgdina.

Engilbert Sigurðsson.

Elsku afi, það er erfitt að hugsa til þess að þú sért horfinn frá okkur og að við hin munum ekki fá að sjá þig aftur. Minningarnar um einstakan mann hrannast upp og brotthvarf þitt markar líklega ein stærstu þáttaskil og tímamót í mínu lífi hingað til. Því alveg frá því ég man eftir mér varst þú alltaf stór partur af lífi mínu. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég byrjaði að heimsækja ykkur ömmu í sveitina með foreldrum mínum og þegar fram liðu stundir dvaldi ég hjá ykkur mörg sumur og flestar helgar á veturna, því hjá ömmu og afa á Bakka var gott að vera. Og ég var greinilega ekki sá eini sem var þeirrar skoðunar því gestkvæmt var á Bakka, enda þið amma höfðingjar heim að sækja og öllum var ávallt velkomið að þiggja myndarlega útilátið bakkelsi hjá ömmu. Það fór líka ekki fram hjá mér á meðan ég dvaldi hjá ykkur ömmu hvers vegna þið voruð svo vinamörg, því á meðan þú varst, með þínum dugnaði, hjálpsemi og óbilandi vilja til að ná settum mörkum, að láta gott af þér leiða fyrir aðra með allskyns nefndar- og félagsstörfum jafnframt því að stýra búinu með reisn, þá hélt amma utan um heimilið með miklum myndarbrag. Á Bakka hjá ykkur ömmu lærði ég fyrst að taka til hendinni, enda fyrirmyndirnar tvær ekki af verri endanum. Mín fyrstu spor á vinnumarkaðnum voru undir ykkar leiðsögn og á þeim tíma lærði ég svo ótal margt sem mun nýtast mér í framtíðinni eins og náungakærleik, tillitssemi, dugnað og þekkingu. Þessi tími minn á Bakka hjá ykkur er að baki en þær ótalmörgu góðu minningar sem ég á frá þessum tíma munu sem betur fer varðveitast meðan ég lifi og ylja mér um hjartaræturnar. Þrátt fyrir áfallið þegar þú misstir ömmu árið 1998 þá tókstu á því eins og hetjan sem þú varst, afi minn. Breytingarnar á lífi þínu við þessi tímamót voru gífurlegar því ofan á þann mikla missi sem þú hafðir orðið fyrir þá féllu þér í framhaldinu í skaut heimilisverk sem ekki er hægt að segja að hafi verið þín sterka hlið fram að því. Samt sem áður leystirðu þetta vandamál með miklum sóma eins og við var að búast. Eftir andlát ömmu urðum við fjölskyldan í Hálsaselinu þess heiðurs aðnjótandi að fá þig alltaf til okkar á jólunum og ég er hræddur um að næstu jól verði töluvert frábrugðin og tómleg án þín.

Ofan á þessar ótal minningar frá Bakka á yngri árum er tvennt sem er mér sérstaklega ofarlega í huga, en það er ferðin okkar austur á Bakka í fyrra til taka gróðurhúsið í gegn og klukkutímarnir sem ég eyddi hjá þér á kosningakvöldinu í vor. Þessar tvær samverustundir lýsa svo vel hvernig þú varst, því þrátt fyrir að þú værir fluttur í bæinn var hugur þinn ávallt á Bakka og þú máttir ekki til þess vita að þar væri aðkoman önnur en áður og á kosningakvöldinu fylgdistu spenntur með og varst ekki tilbúinn að gefast upp þótt útlitið væri dökkt hjá þínum mönnum. Það er ekkert vafamál að um langt skeið hefur þú notið mikillar virðingar meðal afkomenda þinna sem og annarra. Enginn hefur notið jafn mikillar virðingar í mínum huga eins og þú, enda mun ég minnast þín sem mikilmennis sem gæfa væri að líkjast. Missir okkar sem eftir lifa er því mikill, en hægt er að hugga sig við það að þú ert nú kominn til ömmu sem mun taka vel á móti þér. Afi, ég vona að þú verðir minn vegvísir í framtíðinni. Takk fyrir allt, þér mun ég aldrei gleyma.

Þinn

Engilbert Garðarsson.

Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast afa og ömmu með því að dvelja hjá þeim í sveit á Bakka. Frá þessum stundum eigum við okkar dýrmætustu æskuminningar. Þar vorum við alltaf velkomnar og afi og amma létu okkur líða eins og þau hefðu ótakmarkaðan tíma fyrir okkur. Þrátt fyrir endalausan gestagang, félagsstörf afa og hin hefðbundnu bústörf fundum við aldrei fyrir stressi á Bakka. Þar ríkti mikil hlýja og þar upplifðum við mikið öryggi. Gestrisin og örlát voru afi og amma með eindæmum og máttu ekkert bágt sjá. Afi átti það til að koma óvænt með svona tíu manns og segja: "Edda mín áttu ekki eitthvað að borða?" Það fór enginn svangur frá Bakka, ilmandi matarlykt var alltaf í húsinu. Allir voru velkomnir.

Afi var ósérhlífinn og vinnuþjarkur mikill samanber þegar þurrkur var - hann sleppti því einfaldlega að sofa. Hann leitaðist við að kenna okkur vinnusemi og öguð vinnubrögð. Ávallt var okkur mikið traust sýnt eins og þegar okkur fannst að það þyrfti að mála fjósið að innan - við vorum átta og níu ára gamlar - treysti afi okkur fyrir því verki. Við frænkurnar vildum fá að keyra traktor í heyskapnum líkt og eldri bræður og frændur. Afi leyfði okkur það en hann var þó aldrei eins strangur og ákveðinn eins og í umgengni við hættuleg tæki. Um það giltu ófrávíkjanlegar reglur.

Afi var mikill fjölskyldumaður, fylgdist grannt með öllum sínum afkomendum og bar þeirra hag fyrir brjósti. Frá afa upplifðum við einlæga ást og mikinn stuðning.

Það var einstaklega gaman að ræða við afa, hann var hafsjór af fróðleik og fylgdist vel með öllu - allt þar til undir það síðasta. Hann kom mjög vel fyrir sig orði og var góður ræðumaður. Afi sýndi það og sannaði í sextugsafmæli dóttur sinnar, þar hélt hann ógleymanlega ræðu 87 ára gamall.

Afi hafði sterka kímnigáfu og var einn sá fyndnasti maður sem við höfum kynnst. Hann hafði einstakt lag á að sjá spaugilegar hliðar á hinum ýmsu málum.

Við erum mjög stoltar af afa okkar og við kveðjum hann ríkar af fallegum minningum sem munu lifa með okkur um ókomna tíð.

Ragnheiður og Rannveig.

Bakkabóndinn er látinn. Bóndinn sem fylgdist með öllum landsmálum og lét sig varða flest framfaramál í sveitarfélaginu sem og utan þess. Þannig var reyndar með þau bæði hjónin Eddu og Engilbert. Þau voru t.d. bæði virkir félagar í Ungmennafélagi Ölfusinga en það félag vann að ýmsum málum í héraðinu, s.s. eflingu íþrótta og plöntun trjáa. Í fjallshlíðinni á móti Bakka er trjáreitur þar sem ungmennafélagar plöntuðu á upphafsárunum og var reiturinn þeim hjónum afar hugfólginn.

Til Eddu og Engilberts var gott að koma, enda var mjög gestkvæmt hjá þeim. Edda var föðursystir okkar og reyndust þau hjónin okkur afar vel, við og eftir fráfall föður okkar árið 1985. Þau fylgdust með lífshlaupi okkar og barna okkar og voru ávallt greiðvikin og hjálpsöm. Það var ómetanlegt að eiga vináttu þeirra. Eftir lát Eddu bjó Engilbert einn á Bakka í nokkur ár og héldum við ætíð góðu sambandi. Engilbert var sannkallaður sveitarhöfðingi og það sópaði að honum þar sem hann fór.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.)

Við þökkum trygga vináttu um leið og við sendum dætrum hans og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Systkinin frá Laugaskarði,

Ester, Þorsteinn, Jóhanna og fjölskyldur.

Það er undarlegt að ég hélt einhvern veginn að félagi minn, afi og góður vinur myndi aldrei falla frá. Hann var einhvern veginn svo sterkur persónuleiki, svo greindur og skemmtilegur járnkarl.

Saga hans væri efni í heila bók sem væri mjög athyglisverð. Að vera ungur drengur og vera á sumrin hjá afa og ömmu á Bakka í Ölfusi voru forréttindi sem eru mér ógleymanleg. Minningarnar eru margar. Þau voru bæði á kafi í félagsmálum ásamt búskapnum og var gestagangur mikill, það var vinsælt að koma að Bakka.

Sögurnar af afa mínum eru óteljandi. Það eru ófáir menn sem ég hef hitt sem þekktu Berta á Bakka. Sama hvort það voru húsfreyjur, ráðherrar eða þingmenn.

Ég get alveg ímyndað mér að það hafi verið stór biti að kyngja fyrir þennan járnkarl að viðurkenna að hann þyrfti fyrir nokkrum árum að skipta um búsetu og flytja á hjúkrunarheimili í Reykjavík. Á Eir fékk hann góða umönnun en hann var eflaust ekki auðveldasti vistmaðurinn en alveg örugglega einn sá skemmtilegasti því orðheppnari mann var erfitt að finna.

Síðustu samræður okkar afa voru miðvikudaginn 14. júní sl. Þá var hann orðinn mjög slappur og sagði þá: "Ég skil ekki hvað ég er að hanga hér þegar ég á þessa fínu litlu lóð fyrir utan Hveragerði þar sem ég get lagst til hvílu," og átti við grafreitinn sem hann átti við hliðina á ömmu. Hann var ekkert að skafa utan af því, gerði það aldrei.

Hin síðari ár var hann hættur að keyra mikið og fór ég þá stundum með hann í heimsóknir, helst þá austur. "Sælla er að gefa en þiggja" var ofarlega í huga hans, kom aldrei tómhentur, það var ekki hans stíll.

Minningin hans afa míns mun lifa með mér um ókomna tíð. Ég á ekki til orð yfir þann söknuð sem ég ber í brjósti yfir því að geta ekki lengur notið samvista við hann.

Ég ætla að lokum að segja eins og segir í einum ágætum texta að ef þú endurfæðist, elsku afi, komdu þá aftur sem þú sjálfur. Snillingar eins og þú eru vandfundnir.

Þinn vinur, félagi og dóttursonur

Sigurjón Sigurðsson.

Engilbert Hannesson lést eftir tveggja og hálfs árs dvöl á Hjúkrunarheimilinu Eir. Lífskraftur og hugur héldust til loka, en líkamskraftar þverruðu síðustu mánuðina.

Allt frá æskuárum voru félagsmál Engilbert hugleikin. Árið 1934 var Ungmennafélag Ölfusinga stofnað og starfaði hann mikið að málefnum þess, einkum þó í sambandi við sundlaugarbygginguna að Laugaskarði við Hveragerði og átti sæti í stjórn félagsins um tíma og einnig í sundlaugarnefnd.

Að loknu búfræðinámi frá Hvanneyri réðst hann til Búnaðarsambands Dala og Snæfellsness og starfaði þar til hausts við mælingar og skurðgröft ásamt vinnuflokki. Næsta vor réðst hann sem verkstjóri hjá Framræslu- og áveitufélagi Ölfusinga og starfaði þar til hausts, eða þar til frost stöðvaði framkvæmdir.

Fór hann því næst til Reykjavíkur og vann þar hjá heildsölufyrirtæki til vors 1944, en þá fluttist hann að Bakka II sem hann keypti af föður sínum.

Ekki hafði Engilbert búið lengi í Ölfusi þegar farið var að fela honum trúnaðarstörf.

Hann var kosinn í hreppsnefnd Ölfushrepps 1946 og sat í henni tvö kjörtímabil, en baðst undan endurkjöri vegna anna við búskap, hann var þess í stað kosinn í sýslunefnd.

Í henni var hann til ársins 1974.

Jafnframt sýslunefndinni var hann kosinn í skólanefnd Ölfusskólahverfis og sat í henni í fjögur kjörtímabil. Áður en hann kom í sýslunefnd hafði hún kosið Engilbert í Gróðurverndarnefnd Árnessýslu og sat í henni í 24 ár, þar af 20 ár sem formaður.

Á þessum árum sat hann einnig í stjórn Búnaðarfélags Ölfushrepps og var þar í stjórn í 30 ár og allan tímann sem formaður. Jafnframt setu í stjórn búnaðarfélagsins var hann einnig í stjórn Ræktunarsambands Ölfusinga og lengi framkvæmdastjóri þess.

Þá var hann lengi virðingarmaður fyrir Brunabótafélag Íslands í Ölfushreppi.

Umboðsmaður þess í dreifbýli sveitarfélagsins frá 1973 og þangað til umboðum í sýslunni var fækkað 1989.

Hreppstjóri var hann skipaður 1973 og gegndi því starfi eins og aldursregla leyfði.

Alllengi var hann forðagæslumaður í vesturhluta sveitarinnar. Á sama tíma einnig í stjórn Nautgriparæktarfélags Ölfushrepps.

Hann var lengi fulltrúi Ölfusinga á aðalfundum Búnaðarsambands Suðurlands. Ennfremur lengi deildarstjóri í Ölfusdeild Mjólkurbús Flóamanna og fulltrúi á aðalfundum þess. Í framhaldi af þeim fundum var hann einn af níu fulltrúum Sunnlendinga í fulltrúaráði Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Frá 1981 átti hann sæti í varastjórn MBF og sat þar fundi.

Upp úr 1970 fór Ölfushreppur alvarlega að leita fyrir sér um möguleika á borun eftir heitu vatni fyrir Þorlákshöfn og nágrenni. Orkustofnun hafði þá byrjað viðnámsmælingar í Ölfusi.

Mest beindist athyglin að Litlalandi, sex km ofan við Þorlákshöfn. Fljótlega eignaðist sveitarfélagið öll vatnsréttindi í landi jarðarinnar og um svipað leyti kom borinn Jötunn til landsins og réðust mál þannig, að á Litlalandi var boruð fyrsta holan hérlendis með Jötni og var það tilraunahola (yfir 2.000 metra djúp) sem reyndar misheppnaðist. Var því ráðið frá því að næst yrði boruð önnur hola þar.

Jarðhitadeild Orkustofnunar gat bent á nýja möguleika í jarðhitaleit. Á svæðinu frá Hrauni að Núpum gat vel komið til greina að bora. Þetta vissu bændur og sýndu áhuga á máli þessu.

Ákvað hreppsnefnd Ölfushrepps að gefa bændum kost á frumsamningi um borun.

Var sá frumsamningur búinn til og á einni kvöldstund höfðu allir bændur á þessu svæði skrifað undir. Næsta skref var að Orkustofnun segði til um hvar skyldi bora og var bent á ákveðinn stað. Því næst var að gera nánari samning við viðkomandi bónda byggðan á frumsamningi. Ekki náðist að gera hann.

Orkustofnun benti á annan stað, eigi langt frá þeim fyrri, en í landi Bakka II. Hreppsnefndin bauð Engilbert samning byggðan á frumsamningi. Samþykkti hann það athugasemdalaust. Var síðan borað í landi Bakka með glæsilegum árangri.

Lífsförunautur Engilberts var Ragnheiður Jóhannsdóttir. Eitt af aðalsmerkjum þeirra hjóna var gestrisni og er þáttur eiginkonunnar eigi undanskilinn. Þar gilti einu hvort "háa eða lága" bar að garði, heimilið var jafnt öllum opið með höfðinglegri gestrisni.

Þá tóku þau hjón oft til lengri eða skemmri tíma börn eða unglinga sem vantaði skjól og umhyggju í tilveru sinni.

Engilbert og Ragnheiður eignuðust þrjár dætur.

Lífsviðurværi heimilisins var blandað bú. Eiginkonan gekk til bústarfa til jafns við eiginmanninn og búnaðist þeim vel.

Ragnheiður lést árið 1998.

Sveitarhöfðingi hefur kvatt.

Engilbert var ætíð sannur samvinnu- og félagsmálamaður. Hann var áheyrilegur fundarmaður, sem setti fram mál sitt á skýran og sanngjarnan hátt allt til loka.

Engilbert var sæmdur riddarakrossi fyrir félagsmálastörf árið 1994.

Þeirri viðurkenningu hampaði hann hvorki í orði né sjón.

Við Edda þökkum sæmdarhjónunum Engilbert og Ragnheiði sérlega góð kynni.

Samúðarkveðjur.

Svanur Kristjánsson.

Engilbert á Bakka í Ölfusi er genginn á vit feðra sinna. Með honum er genginn eftirminnilegur samferðamaður sem setti svipmót á samtíð sína. Ég minnist þess hversu mér þótti Engilbert áhugaverður maður, þegar ég fór sem strákur úr næstu sveit að veita honum athygli á mannamótum.

Sem ungur maður mótaðist Engilbert og óx upp í þeim hugsjónaeldi sem einkenndi svo marga bændur og Íslendinga um og fyrir miðja síðustu öld. Þeir sáu ný tækifæri í menntun alþýðunnar og samtakamætti fjöldans í gegnum samvinnu og nýja vélaöld sem þá fór í hönd. Ungur skipaðist hann í sveit þeirra manna sem vildu rjúfa kyrrstöðu og aldagamla búskaparhætti. Hann valdist til forystustarfa í sinni sveit, sat í hreppsnefnd og var hreppstjóri lengi. Hann sat í sýslunefnd og lagði alls staðar gott til málanna. Hann var hrókur alls fagnaðar og vinmargur hvar sem hann kom að málum; var mikill félagshyggju- og samvinnumaður, sem stóð fast að hinum miklu félagshreyfingum Sunnlendinga, Kaupfélaginu og Mjólkurbúinu. Ef til átaka kom á fundum var hann fastur fyrir og lét til sín taka.

Hann var vel máli farinn og talaði kjarnyrta íslensku og sópaði oft að honum í rökræðu, vel undirbúinn og kunni vel að léttleiki og glettni hjálpar oft málstaðnum. Það sópaði því oft að karli í ræðustól og honum fylgdi gustur geðs og gríðar þokki.

Sem bóndi var Engilbert ötull og þau hjón samhent um öll framfaramál búsins að Bakka. Ég minnist þess þegar hin mikla orka, jarðhitinn, var virkjaður á jörð hans, þá sýndi hann best sitt hugarfar til sveitunga sinna og vaxandi byggðar í Þorlákshöfn. Þá var gerður milli hans og sveitarfélagsins tímamótasamningur um nýtingu jarðhitans fyrir íbúa Þorlákshafnar ekki síst og sá samningur varð mörgum öðrum fyrirmynd við svipaðar aðstæður. Félagshyggja var þeim hjónum í blóð borin og þau vildu að samfélagið í Ölfusinu nyti góðs af þessari nýju auðlind jarðarinnar. Það er engin spurning að jarðhitinn á Bakka breytti miklu fyrir íbúa Þorlákshafnar og Ölfusið í heild. Hann horfði síðan til nýrra tækifæra á bújörð sinni, svo sem fiskeldis sem þar festi rætur og þar hefur Orkuveita Reykjavíkur nú hafið risarækjueldi.

Engilbert var glaðvær maður og stefnufastur í lífinu, trölltryggur vinum sínum og það var hverjum manni eftirminnilegt að sækja hann heim á höfuðbólið og njóta gestrisni þeirra hjóna. Þar skorti aldrei umræðuefni um landsins gagn og gæði. Ungu fólki var hann hlýr og talaði við alla sem jafningja, kynslóðabil var ekki til í hans orðabók. Ég átti hann að sem samherja og vin. Hann lá aldrei á skoðun sinni eða afstöðu, var umhugað um framfarir alls landsins og að allir þegnar þjóðfélagsins byggju við gott og batnandi hlutskipti.

Hin síðari ár dvaldi Engilbert á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi. Þar eignaðist hann góða vini, en hugurinn var heima í Ölfusinu. Fyrir nokkru heimsótti ég hann og fór vel á með okkur. Við ræddum um þjóðfélagið, flokkinn okkar og sveitina kæru. Hann skenkti lífsins vatni í glös og við ræddum rök tilverunnar og áttum glaða stund saman eins og svo oft áður en um leið okkar síðustu samverustund.

Nú er sól hnigin til viðar og höfðinginn heldur á ný heim til að hvílast í þeirri mold sem hann unni svo heitt. Í svipinn finnst manni eins og skuggi falli af fjallinu hans yfir sveitina, slíkur er söknuður við fráfall samferðamanns. En það er birta yfir lífi og starfi Engilberts og svo margt sem hann skilur eftir í minningunni, sem mun gleðja okkur vini hans.

Ungur má en gamall skal, segir lögmálið, því er hann kvaddur með virðingu og þökk. Fjölskyldu hans og ástvinum sendi ég samúðarkveðjur.

Guðni Ágústsson.

Í dag kveðjum við höfðingjann Engilbert Hannesson.

Engilbert var sannur sveitarhöfðingi, ávallt hress, drífandi og fullur lífsgleði. Stutt saga varpar vel ljósi á hve skjótráður og fylginn sér Berti var.

Fyrir hartnær þrjátíu árum er undirritaður var nýtekinn við starfi sveitarstjóra, kom upp sú staða að skynsamlegt þætti að Ræktunarfélagið í Ölfusi og hreppurinn legðu saman krafta sína og stæðu sameiginlega að kaupum á vélgröfu. Það kom í hlut okkar Berta að ganga í málið. Við skelltum okkur í bæinn og stormuðum upp í Véladeild SÍS, en þegar til átti að taka var vélin ekki klár og Berti sagði að vélarlausir færum við ekki heim. Nú var úr vöndu að ráða, en við höfðum haft spurnir af því að nýr aðili væri farinn að flytja inn gröfur og því var brunað þangað. Vélin var til og við gátum fengið hana afhenta strax, ef við borguðum ákveðna fjárhæð.

Á þessum árum voru bankaviðskipti með öðrum hætti en í dag og þar sem við vorum ekki með nægjanlegt handbært fé á okkur, þurfti að leita nýrra leiða, því vélarlausir færum við ekki heim. En í þá daga sem í dag vissum við að tryggingafyrirtækin ættu yfirleitt fé á lausu, svo við stormuðum á fund forstjóra hjá ákveðnu tryggingafélagi og bárum upp erindi okkar. Málið fékk jákvæða afgreiðslu og stuttu síðar vorum við komnir með tékkann í hendurnar. En okkur fannst af og frá að framvísa tékkanum frá þessu ágæta tryggingafyrirtæki, svo honum var skipt í reiðufé og mér er enn minnistæður sá svipur, er kom á framkvæmdastjóra vélasölunnar, er við opnuðum töskuna og við blasti full taska af peningaseðlum. Og heim fórum við með eina fyrstu Case-gröfu landsins.

Berti var einn af þeim er gekk fram fyrir skjöldu er leit að heitu vatni fyrir Þorlákshöfn, stóð yfir. Og svo fór að borað var í hans landi og mikið vatn fékkst upp. Öll sú saga og samvinna við heiðurshjónin á Bakka, þau Ragnheiði og Engilbert, var einkar ánægjuleg og verður seint þakkað þeirra framlag og viðhorf til málsins.

Að sækja þau hjón heim var eins og að sækja sanna sveitarhöfðingja heim, mikill rausnarskapur og höfðingsbragur yfir þeim hjónum.

Ég sé Berta enn fyrir mér, djarfan í bragði, sveifla hendinni og drífa í hlutunum, því vélarlausir förum við ekki heim.

Blessuð sé minning heiðurshjónanna á Bakka.

Þorsteinn Garðarsson.

Fáein orð til að minnast, þakka og kveðja langtíma góðvin, nágranna og búhöld í Ölfusinu.

Hann var sannur, áreiðanlegur og traustur í öllu eins og hann var sjálfur þéttur og traustur að vallarsýn, fastur fyrir og ákveðinn í skoðunum, jafnframt þó opinn til umræðna, fjöllesinn og fróður - allt skyldi rétt fyrir honum.

Kynni okkar urðu þó nánari á því sviði að systir hans, Jóna, sem í dag kveður bróður sinn, söng mörg ár undir stjórn okkar hjónanna í Kirkjukór Hveragerðis- og Kotstrandarsókna. Ekkert sameinar fólk á slíkan hátt sem söngurinn, og með honum kynntist ég allri fjölskyldunni náið, kostum hennar og manngöfgi.

Tíður gestur var ég á heimili þeirra Eddu, jafnan við rausnarmóttökur. Og sætti ég lagi að sækja þau heim um mjaltatímann til þess að fá mér spenvolga nýmjólk, þennan ljúfa drykk, sem ég ólst upp við. Þetta þótti búhöldinum einstakt erindi, góð viðurkenning við heimaframleiðsluna og gerðum við okkur oft gaman af.

Síðustu árin var hann svo nágranni minn hér í Grafarvoginum, og gafst þá tækifæri til að hittast.

Í samræðum okkar hneigði hann talið oft að óþarfasóun verðmæta, bar hag lands og þjóðar jafnan fyrir brjósti og var þannig sannur Íslendingur.

En nú er hann farinn og ég blessa minningu hans.

Kæra Jóna og stórfjölskyldan öll. Við Sólveig sendum ykkur hlýjar samúðar- og vinarkveðju. Guð blessi ykkur.

Jón Hjörleifur Jónsson.

Einna atkvæðamesti höfðingi Ölfusinga á síðastliðinni öld, Engilbert Hannesson, er fallinn í valinn nærri níutíu ára eftir starfsama ævi að mikilvægum félagsmálum fyrir sveit sína og aukna fjölbreytni í atvinnuháttum í sveitinni.

Ölfusið er sennilega sú sveit á Suðurlandi sem bjargarskortur hefur varla orðið, þó að harðindi, grasbrestur og fjárfellir gerðu víða næstum ólíft mönnum og skepnum. Það var þetta einstaka starengi, Ölfusforirnar í skjóli fyrir norðan áhlaupum og ábornar af flóðum úr Ölfusá, sem skapað hafa þetta næstum óbrigðula starengi, sem varla hefur átt sinn líka annars staðar á landinu.

Þessi mikla gróska og sérstaka starengi kölluðu á duglegt fólk til að setjast að við þessi árvissu slægjulönd og tiltölulega örugga heyskaparmöguleika, og því hafa allt frá landnámsöld miklir höfðingjar og valdsmenn flust í Ölfus og orðið þar margir öflugir sveitarhöfðingjar.

Þannig var Skafti Þóroddsson á Hjalla lögsögumaður lengur en nokkur annar Íslendingur, eða í 26 ár á elleftu öldinni og á Sturlungaöldinni bjuggu um skeið í Ölfusinu þeir Tumi Sighvatsson í Arnarbæli og Gissur Þorvaldsson á Reykjum og einnig Snorri Sturluson svo nokkrir stórhöfðingjar séu nefndir.

Þegar ég hóf störf sem ráðunautur á Suðurlandi í ársbyrjun 1946 var mér falið af stjórn Nautgriparæktarsambands Flóa og Ölfuss, að ferðast um Ölfusið og athuga hvort ekki væri hægt að fá almennari þátttöku í skýrsluhaldinu þar en tekist hafði fram að því. Ég leitaði fyrst aðstoðar hjá hinum merka stórbónda Guðjóni A. Sigurðssyni í Gufudal, en hann taldi ráðlegast að leita aðstoðar hjá ungum búfræðingi sem hefði lokið prófi í búfræði á Hvanneyri vorið áður, Engilbert Hannessyni á Bakka, en hann hefði hafið þar búskap eftir föður sinn Hannes Guðmundsson og væri með efnilegustu ungum bændum í sveitinni og kvæntur Ragnheiði Jóhannsdóttur frá Núpum.

Ég fór að ráðum Guðjóns og fór út að Bakka og kom þar þegar ungu hjónin voru að ljúka fjósaverkunum, og eftir að ég hafði kynnt mig og erindi mitt til Engilberts, sem var eftirfarandi, að hann aðstoðaði mig við að fá sem flesta þeirra bænda, sem héldu ekki mjólkurskýrslur um kýr sínar, til að hefja það um næstu áramót í þeim tilgangi að fá meiri mjólk fyrir sama tilkostnað, eða aukinn arð af mjólkurframleiðslunni að frádregnum tilkostnaði.

Ég fann það fljótt, að ég hafði fengið góðan liðsmann mér til hjálpar, þar sem Engilbert var, þar sem hann hafði brennandi áhuga á þessu málefni, og svo var hann mjög áhuga- og traustvekjandi og ljúfur í viðmóti og hið mesta prúðmenni.

Við eyddum nokkrum dögum í þessar húsvitjanir í Ölfusi og alls staðar sáum við eitthvað sem mátti bæta til þess að auka arð búanna og við hrifumst oft með þegar við fundum að við værum þarna orðnir þátttakendur í þeirri nýsköpun, sem leitast var við að koma af stað í sveitum landsins á þessum árum.

Ég var fyrstu 25 árin af starfstíma mínum nautgriparæktarráðunautur á Suðurlandi, en þá breyttist minn verkahringur nokkuð, en alla tíð meðan ég var ráðunautur hafði ég nokkur afskipti af nautgriparæktinni.

Ég gerði athugun á því, að þessum 25 árum loknum, hvaða breytingar hefðu orðið á kúastofninum á þessu tímabili og mér varð hverft við þegar í ljós kom að við lok þessa tímabils mjólkaði meðalkýrin sem næst tvöfalt á við það sem þær mjólkuðu í upphafi tímabilsins.

Á góðri stund minntist ég einhvern tíma á það við Engilbert hvílíkur árangur hefði orðið af starfi okkar við upphaf þessa tímabils. "Heyrðu nú," mælti þá Engilbert. "Mér fannst þetta verkefni vera bara skemmtiferð og einhver skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið við í búskapnum." Já, þessar miklu framfarir voru árangur markvissra vinnubragða samstiga bændastéttar og ráðunauta sem á þessum árum voru að breyta búskaparlaginu með nýrri tækni og nýjum vinnubrögðum og sú þróun er óstöðvandi og síst of hröð, því enn eru laun sveitafólksins of smátt skorin og verða að batna sem fyrst.

Samstarf okkar Engilberts er nú orðið langt og ekki tök á því að telja það upp hér í smáatriðum. En smátt og smátt færðust fleiri og fleiri forystustörf á herðar Engilberts í búnaðarfélagsskapnum og félagsmálum sveitarinnar. Ég man eftir því á sýslufundunum, sem við Engilbert sátum saman, hvað Engilbert barðist alltaf ótæpilega fyrir hinu og öðru framlagi til Þorlákshafnar og fannst mér hann vera sverð þessa nýja þéttbýlis og skjöldur og veit ég að Engilberts verður lengi minnst sem eins besta vinar Þorlákshafnar og hann skildi betur en margir aðrir hið mikla hlutverk sem bíður Þorlákshafnar sem aðalhafnar Suðurlands.

Engilbert Hannesson var mörgum mjög góðum gáfum gæddur og nú þegar hann hverfur okkur sjónum um stund verður hans mjög saknað af hans mörgu samstarfsmönnum og stóru fjölskyldu.

Ég hef átt mjög langt og náið samstarf við Engilbert í að minnsta kosti 60 ár og fullyrði að hann hefur öll þessi ár verið einn af mínum bestu vinum, glaður og skemmtilegur samstarfsmaður og eftirminnilegur sveitarhöfðingi hér í Ölfusi og verður lengi minnst sem slíks.

Ég votta vinum og vandamönnum einlæga samúð við fráfall þessa góða og skemmtilega drengs.

Hjalti Gestsson.

Silungsveiði í Varmánni, andaveiði á skurðum eða gæsaveiði á túnunum á Bakka sem þakkað var fyrir með því að aðstoða við heyskap.

Líklega hefur upphafið verið einhvern veginn svona. Upphafið að margra ára vinskap okkar við heiðursbóndann og mannvininn Engilbert Hannesson á Bakka. Við munum ekki alveg hvernig það byrjaði, enda skiptir það ekki máli. Þétt handabönd, rembingskossar og skemmtilegar spjallstundir hafa verið margar síðan; á mannamótum, eftir messur að Hjalla, við eldhúsborðið hjá okkur á Reykjabrautinni en þó oftast í stofunni á Bakka. Spjall um allt milli himins og jarðar en gjarnan um landsmálin, málefni sveitarfélagsins okkar, pólitík, en síðast en ekki síst um fólk.

Engilbert hafði skoðanir á flestum hlutum, rökstuddi þær af festu og var hvergi hvikað. Hann hafði líka endalausan áhuga á fólki, þekkti ótal marga og þótti ekki verra þegar uppgötvuðust vináttu- eða ættartengsl sem hann ekki hafði vitað um áður.

Alla slíka hluti mundi hann vel. Einnig margar skemmtilegar sögur af Búnaðarþingum, úr smalamennskum, af stjórnmálafundum eða öðrum þeim mannamótum sem hann var kallaður til í gegnum tíðina enda félagsmálamaður af bestu gerð.

Það var Engilbert þungbært þegar hans góða kona, Ragnheiður Jóhannsdóttir, veiktist og lést árið 1998. Hún var hans stoð og stytta í búskapnum, bakhjarl í félagsmálastörfum hans og húsmóðir af Guðs náð á heimili þeirra á Bakka. Heimilið á Bakka var Engilbert griðastaður, Edda og dæturnar voru honum lífið sjálft. Af stolti og kærleika talaði hann ávallt um þessar fjórar konur og reyndar um afkomendur sína alla, sem hafa reynst honum sérlega vel, einkum á seinni árum þegar heilsunni hrakaði.

Að leiðarlokum viljum við þakka einlæga vináttu við okkur. Hlýjar kveðjur á tímamótum, kaffibolla, koníaksdreitil eða sérrítár (sem aldrei var skorið við nögl!), samverustundir sem gerðu okkur ríkari. Við þökkum líka einstök elskulegheit við börnin okkar frá fyrstu tíð, umhyggju sem við vorum svo heppin að njóta þótt við værum algjörlega vandalaus og ekki einu sinni framsóknarmenn eða innfæddir Ölfusingar! En þannig var Engilbert Hannesson. Gerði ekki mannamun og veitti vel af manngæsku og hjartahlýju.

Systrunum frá Bakka og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar samúðarkveðjur og kveðjum aldinn höfðingja með virðingu og þökk.

Sigþrúður og Sigurður Örn,

Þorlákshöfn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.