Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson skrifar um þróun landhelgismála: "Sem sagt, hefðu Hreggviður Jónsson og hinar þjóðhetjurnar 49 ekki gengið fram fyrir skjöldu hefði nákvæmlega ekkert gerst í landhelgismálum Íslendinga."
ÞEIR sem hafa áhuga á nýliðinni tíð geta sem betur fer gjarnan leitað til fólks sem kom við sögu. Ómetanlegt er að geta spurt um ýmsa atburði og fengið að heyra skoðanir og minningar þeirra sem voru í eldlínunni. Söguhetjurnar taka manni nær alltaf vel, segja frá eftir bestu samvisku en viðurkenna auðvitað fúslega að þar með sé ekki sagan öll sögð. Minnið geti verið brigðult og menn hafi tengst atburðum það náið að erfitt sé að leggja hlutlægt mat á þá.

En svo er líka til fólk eins og Hreggviður Jónsson, fyrrverandi þingmaður Borgaraflokksins, Frjálslynda hægriflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hann fór mikinn í grein um landhelgismál Íslendinga hér í blaðinu 29. júní sl. og vildi halda því til haga að hefði hann sjálfur ekki tekið til sinna ráða ásamt hópi manna værum við Íslendingar á vonarvöl. Í stuttu máli sagði Hreggviður Jónsson að ef það yrði ekki gert að þungamiðju í sögu þorskastríðanna á áttunda áratug síðustu aldar að í júlí 1973 skoruðu hann og 49 aðrir Íslendingar á Alþingi og ríkisstjórn að lýsa yfir vilja til 200 mílna fiskveiðilögsögu yrði sú saga "algjört bull".

Tilefni skrifa Hreggviðs Jónssonar er yfirlit mitt um sögu landhelgismálsins og þorskastríðanna sem birtist í sérblaði með Morgunblaðinu í lok maímánaðar. Um það yfirlit segir Hreggviður m.a.: "Ekki er einu orði minnst á tilurð 200 mílnanna og framgang þeirra." Þetta er auðvitað algjört bull. Í umfjöllun minni stóð m.a. að sumarið 1974 hefði þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna verið haldin í Caracas, höfuðborg Venesúela. "Greinilegt var að 200 mílna efnahagslögsaga átti sífellt meira fylgi að fagna," sagði þar áfram.

Við þetta má bæta hér í örstuttu máli að hugmyndir um 200 mílna lögsögu ríkja má t.d. rekja til ráðamanna í Norður- og Suður-Ameríku laust eftir síðari heimsstyrjöld. Snemma á áttunda áratug síðustu aldar var svo orðið ljóst að fjölmörg ríki myndu senn taka sér slíka lögsögu. En Hreggviður Jónsson vill sniðganga með öllu þessa mikilvægu þróun mála á alþjóðavettvangi. Hann vill líta sér nær og segir: "Hópur manna, Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkurinn skópu 200 mílurnar og gerðu yfirráð Íslands yfir 200 mílunum að veruleika." Hann klykkir svo út með þessari kostulegu röksemdafærslu: "Værum við enn með 50 mílurnar, ef við 50 menn hefðum ekki bundist samtökum um 200 mílna áskorunina? Svar, já."

Sem sagt, hefðu Hreggviður Jónsson og hinar þjóðhetjurnar 49 ekki gengið fram fyrir skjöldu hefði nákvæmlega ekkert gerst í landhelgismálum Íslendinga. Ekki einu sinni Sjálfstæðisflokkurinn hans sjálfs hefði tekið við sér, hvað þá aðrir flokkar. Við værum hér án 200 mílna, einir þjóða á Norður-Atlantshafi og þótt víðar væri leitað. Ekkert hefði gerst, enginn hefði tekið af skarið þessi rúmlega þrjátíu ár sem eru liðin síðan Hreggviður Jónsson og vinir hans breyttu gangi Íslandssögunnar.

Þessi söguskoðun er auðvitað arfavitlaus og sjálfshólið vandræðalegt. Þeir sjálfstæðismenn sem stóðu í fararbroddi í landhelgisbaráttunni á áttunda áratugnum, menn eins og Jóhann Hafstein, Geir Hallgrímsson, Gunnar Thoroddsen, Matthías Bjarnason og Guðmundur H. Garðarsson, vissu vel að þróun mála á alþjóðavettvangi myndi hafa afgerandi áhrif á aðgerðir hér heima. Það var önnur aðalástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn gerði útfærslu í 200 mílur að helsta baráttumáli sínu fyrir Alþingiskosningarnar 1974; hin var sú að menn voru reynslunni ríkari eftir kosningarnar þremur árum fyrr þegar sjálfstæðismenn liðu fyrir það hefðbundna sjónarmið sitt að vera andvígir einhliða aðgerðum í landhelgismálinu.

Hreggviður Jónsson var svo dómharður í grein sinni að hann verður að taka því að honum sé svarað í sömu mynt. Hann getur spurt eins oft og hann vill í Morgunblaðinu hvort hér við land væri bara 50 mílna lögsaga ef þeir félagarnir 50 hefðu ekki skrifað undir skjal og hann getur svarað eins oft og hann vill, rogginn og raupsamur, að sú sé nú raunin. Aðrir sem muna eða hafa kynnt sér söguna í heild sinni brosa í kampinn yfir þessum mannalátum.

Höfundur er sagnfræðingur.