Listamennirnir sem sýna í Gróttu. Frá vinstri: Hrafnkell, Friðrik, Haraldur, Ásdís og Ragnar.
Listamennirnir sem sýna í Gróttu. Frá vinstri: Hrafnkell, Friðrik, Haraldur, Ásdís og Ragnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is GRÓTTA á Seltjarnarnesi aftengist höfuðborgarsvæðinu með reglulegu millibili þegar flæðir yfir grandann sem tengir hana við landið.
Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is
GRÓTTA á Seltjarnarnesi aftengist höfuðborgarsvæðinu með reglulegu millibili þegar flæðir yfir grandann sem tengir hana við landið. Á þessum tanga hafa fimm listamenn unnið undanfarin misseri, í flóði jafnt sem fjöru, að sýningu sem ber yfirskriftina Eiland og verður opnuð á morgun klukkan 15. Listamennirnir Hrafnkell Sigurðsson, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Friðrik Örn Hjaltested, Ragnar Kjartansson og Haraldur Jónsson leggja undir sig gervalla Gróttu en sýningin teygir sig yfir allan tangann, meðfram fjörunni, inn og upp í vitann og í fræðisetrið.

Í tilkynningu stendur að "Eiland er ekki land heldur hugmynd, listaverk, gjörningur. Hópur listamanna leggur undir sig Gróttu, stofnar nýlendur með list sinni og skipuleggur byggð eins og var í Gróttu fyrir Básendaflóðin 1788". Ennfremur stendur að Eiland "birtir okkur einangrun, limbo eða millibilsástand, merkingarþrungin augnablik, að tilheyra og slitna frá". Viðfangsefni listamannanna tengjast öll sambandi manneskju og hafs á einhvern hátt en flestar hugmyndirnar fæddust á sýningarstaðnum sjálfum.

Framtíðarskipbrot við vitann

Við göngustíginn sem liggur að fræðasetrinu blakta fjórir fánar í mismunandi litum og veita gestum formlegan inngang að Eilandi. Fánarnir eru verk Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur og tengjast þeir öðrum verkum hennar á sýningunni sem eru annars vegar vídeóverk og ljósmyndir í vitanum og hins vegar skúlptúr sem er að finna í kringum fræðasetrið og í fjörunni. Heildarverkið heitir "Skipbrot úr framtíðinni" en þar er blandað saman ævintýri, vísindaskáldskap og ógnarmætti náttúrunnar. Skúlptúrinn samanstendur af dularfullum hlutum sem liggja á víð og dreif eins og ummerki um skipbrot og hægt verður að skoða þessa hluti úr mikilli hæð í gegnum kíki. Vídeóverkið og ljósmyndirnar í vitanum sýna síðan mjög fantasíukennda mynd af því sem átti sér stað og olli skipbrotinu.

Ofar í vitanum hanga átta ljósmyndir af íslenskum vitum eftir Friðrik Örn Hjaltested, annars vegar af Gróttuvita og svo af öðrum vitum í nágrenni Reykjavíkur. Vitar landsins hafa átt allan hug listamannsins á undanförnum misserum og hefur hann farið í fjölmarga leiðangra meðfram endilöngum ströndum og annesjum Íslands og gist í fjölmörgum vitum. Friðrik stundar þessa leiðangra á veturna og myndar vitana nánast eingöngu í skjóli nætur en við það næst afar framandi og nánast óveraldleg sýn á viðfangsefnið. Afrakstur þessara leiðangra Friðriks verður sýndur í fyrsta skipti á Eilandi en þessi verk eru hluti af stærra verki eftir listamanninn sem er skrásetning íslenskra vita í heild sinni og ber yfirskriftina "Brennið þið vitar!" Ljósmyndirnar á sýningunni í Eilandi eru húðaðar þykkri glæru sem gefur myndunum sérstaka dýpt og áferð. Spurður um ástæðu viðfangsefnisins segist Friðrik ávallt hafa verið heillaður af könnunarleiðöngrum, turnum og sívölum tækniundrum frá því hann las Tinnabókin Myrkur í Mánafjöllum og Ævintýri Tom Swift .

Ofnæmi og hafið

Þáttur Haraldar Jónssonar í Eilandi samanstendur af þremur innsetningum sem tengjast saman á ólíkan hátt en í þeim skoðar hann samband manns og umhverfis eða öllu heldur bilið sem myndast á milli umhverfis og skynjunar líkamans.

Í fjörunni við Gróttu hefur Haraldur komið fyrir hljóðverkinu "Útburður" sem er eins konar hljóðsetning á stunum, dæsum, væli og ópum íslensku þjóðarsálarinnar en þessi sálaróp eru sprottin af ákveðnu samviskubiti sem fylgt hefur þjóðinni alla tíð. Og í skjalasafni vitans á Gróttu heyrist í ungum dreng fara í gegnum allan tilfinningaskalann, þ.e. hann les upp öll möguleg orð, sem tákna einhvers konar tilfinningu, í stafrófsröð. Þetta er hljóðverkið Herbergi og vísar titillinn í afmarkað rúm tilfinninganna.

Þriðja innsetning Haraldar er í kjallara fræðasetursins og heitir Ofnæmisteikningar. Það felur í sér ýmiss konar leiki með orðið "ofnæmi", á bæði jákvæðan og neikvæðan máta, ýmist sem fráhrindandi virkni eða aðlaðandi. Verkið samanstendur af fjölmörgum innrömmuðum teikningum sem hafa á sér mislitaðar glærur og bregst hver teikning ólíkt við litunum, ekki ósvipað og líkaminn við ofnæmispróf. Glærurnar eru gjarnan tvær til þrjár á hverri teikningu og ná skil þeirra mishátt upp á myndina og minna á vissan hátt á mismunandi stöðu sjávarmáls. Myndirnar eru í beinni samræðu við rannsóknarstofu fræðasetursins sem er í sama rými.

Á hæðinni fyrir ofan rannsóknarstofuna gefur að líta um þrjú hundruð tilbrigði af hafinu á jafnmörgum teikningum á pappír eftir Ragnar Kjartansson sem þekja veggina. Í teikningunum segist hann hafa erft línu afa síns, Ragnars Kjartanssonar, sem gerði mikið af vatnslitamyndum af hafinu og fjölmarga skúlptúra í minningu um drukknaða sjómenn. Verkið felur í sér ótal vísanir bæði í íslenska þjóðmenningu og listasögu og segir Ragnar að hann sé að vissu leyti að gera teikningu af teikningu enda jafnklassískt viðfangsefni vandfundið. Að sama skapi er hafið ótæmandi yrkisefni en í því er dauði, rómantík, myrkur, kuldi, eilífð og allir líkamsvessar mannsins svo fátt eitt sé nefnt.

"Síðan er hafið líka mjög erótískt fyrirbæri," segir Ragnar og máli sínu til stuðnings bendir hann á vísuna "Hafið bláa hafið" sem hann segir að sé besta klámvísa sem samin hefur verið á Íslandi.

Huglíkamar

Fyrir ofan hafið hans Ragnars eru verbúðirnar hans Hrafnkels Sigurðssonar. Þar hanga sex ljósmyndir af blautum og skítugum sjóstökkum, birtingarmyndir ímyndaðra líkama sjómanna, og hráleiki rýmisins ýtir undir verbúðarstemninguna. Ljósmyndirnar eru hálfafstrakt en áhorfandinn greinir ekki undir eins líkamana heldur rennur myndefnið út í alrautt óhlutbundið verk. Líkamarnir eru því ekki beint sýnilegir en þeir eru samt mjög nálægir og taka á sig mynd í huga áhorfandans "Ég er að reyna að framkalla nærveru þessara sjómanna sem hafa verið hérna. Manni verður hugsað til þessara manna sem endurfæðast á vissan hátt í gegnum þessi verk," segir Hrafnkell. Lega loftsins minnir einnig á bát á hvolfi og rímar því einkar vel við hafið á neðri hæðinni. Sjóstakkarnir átta henta líka vel í einn áttæring, bát sem róið er með átta árum, en Hrafnkell bendir á að níundi maður hafi yfirleitt verið með á áttæringi. Kannski hann bætist við.

Þrautseigja sjómannanna í verbúðunum kallast á við annars konar þrautseigju sem er að finna í öðru verki Hrafnkels á sýningu Eiland. Það er á túninu fyrir framan húsið og er óður til allra litríku ævintýranna í íslenska sumrinu. Útihátíð er lokið og tjöldin liggja yfirgefin á víð og dreif, nema eitt. Innan úr þessu tjaldi heyrist kliður og muldur karlmanna. Gleðinni skal haldið áfram.

"Það er ákveðin eyðilegging og dauði sem vofir yfir útihátíð sem er búin. En dauðinn verður ekki algjör því að hjartað slær ennþá í þessu eina tjaldi," segir Hrafnkell.

Sýningin Eiland verður sem fyrr segir opnuð á morgun klukkan 15 og stendur fram yfir menningarnótt 20. ágúst. Sýningartímar verða eftir flóðatöflu sem hægt verður að fylgjast með á vefsíðunni www.eiland.is. Boðið verður upp á ýmiss konar atburði utan sýningarinnar sjálfrar og má þar nefna kvöldtónleika, ljóðalestur og sitt hvað fleira.