[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarbókasafn Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Minjasafn Reykjavíkur bjóða upp á miðbæjargöngur með leiðsögn á fimmtudagskvöldum í sumar. Á annað hundrað manns og einn hundur voru í göngu undir leiðsögn Sigríðar B.

Borgarbókasafn Reykjavíkur, Listasafn Reykjavíkur, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Minjasafn Reykjavíkur bjóða upp á miðbæjargöngur með leiðsögn á fimmtudagskvöldum í sumar. Á annað hundrað manns og einn hundur voru í göngu undir leiðsögn Sigríðar B. Jónsdóttur, deildarstjóra byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur, þar sem nokkrar miðborgarbyggingar Einars Erlendssonar húsameistara voru skoðaðar. Steinþór Guðbjartsson var í hópnum og ræddi við Sigríði.

Einar Erlendsson tók sveinspróf í trésmíði og 1901 hélt hann svo til Kaupmannahafnar til frekara náms í byggingarfræðum. Þegar hann kom heim úr námi varð hann aðstoðarmaður Rögnvaldar Ólafssonar og síðar aðstoðarmaður Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins, auk þess sem hann rak eigin teiknistofu. Hann var byggingarfulltrúi Reykjavíkur 1917-1920 og húsameistari ríkisins 1950-1954. Ekki hefur borið mikið á Einari og verkum hans í almennri umræðu og segir Sigríður B. Jónsdóttir að hann hafi ekki verið mikið fyrir að trana sér fram. Hins vegar hafi hann verið mjög öflugur og samkvæmt teikningaskrá sem unnin hafi verið á húsadeild Árbæjarsafns hafi hann unnið að alls 1.078 teikningum frá 1905 til 1961. Merkustu verk hans hafi flest verið gerð fyrir 1930.

Mikilvægur hlekkur

Yfirskrift göngunnar á dögunum var Reykvísk steinsteypuklassík, miðborgarbyggingar Einars Erlendssonar húsameistara. Gengið var frá Grófarhúsinu um Hafnarstræti, Pósthússtræti, Austurstræti, Bankastræti, Ingólfsstræti, Þingholtsstræti, Fríkirkjuveg, Vonarstræti og endað við Herkastalann í Kirkjustræti 2. Við þessar götur eru áberandi hús sem Einar teiknaði og flest byggð 1920 til 1930.

"Steinsteypuklassíkin átt sinn blómatíma á þessum árum og Einar teiknaði um 140 hús á þessu tímabili," segir Sigríður. Hún bætir við að samfara aukinni verslun eftir aldamótin 1900 hafi risið mörg stór og reisuleg timburhús en mörg þeirra hafi brunnið í brunanum mikla í Reykjavík 1915. Um þetta leyti hafi steinsteypan verið að ryðja sér til rúms sem nýtt byggingarefni og hafi Einar Erlendsson átt stóran þátt í að mynda nýja ásýnd miðborgarinnar.

Sigríður bendir á að nýklassíkin hafi verið einn angi sögustílshefðarinnar í Evrópu á 19. öld. Hún hafi átt afturhvarf, einkum á Norðurlöndunum, um 1920, og þar sem íslenskir húsameistarar hafi til að byrja með nær eingöngu verið menntaðir á Norðurlöndum hafi hún haft áhrif á þá. "Stílfærð og einfölduð nýklassík var í raun nauðsynlegur undanfari modernismans og þess vegna er Einar Erlendsson mikilvægur hlekkur í íslenskri byggingalistasögu."

Klassískar flatsúlur einkenna mörg hús sem Einar teiknaði. Einnig teiknaði hann mörg hús í kastalastíl. "Hann kom ekki fram með persónulegan stíl enda var það ekki markmiðið heldur vann hann mikið í sögustílshefðinni," segir Sigríður. "Stærsta hlutverk hans var að kynna nýklassíkina fyrir Íslendingum og því hafði hann mikið uppeldislegt hlutverk í íslenskri byggingalistasögu."

Fálkahúsið Hafnarstræti 1-3

Fálkahúsið stóð áður á Bessastöðum og gegndi því hlutverki að geyma fálka sem veiddir voru fyrir konunginn. Það var endursmíðað í Reykjavík 1762 og stóð vestast á fjörukambinum þar sem nú er Hafnarstræti 1-3. Húsið var fyrst notað sem vörugeymsla og síðar sem verslunarhús. Hið eiginlega Fálkahús var rifið um 1864 og var þá byggt nýtt hús sem enn stendur.

Bryde kaupmaður keypti húsið 1885 og hóf umbætur og breytingar. Hann lét byggja við það 1907 og fékk húsið þá lögun sem það hefur nú. Einar Erlendsson gerði teikningar að breytingunum en Sigurður Ólafsson frá Butru í Fljótshlíð sá um útskurð fálkanna og víkingaskipið. Þetta var eitt af fyrstu verkum Einars.

Hafnarstræti 5

Húsið í Hafnarstræti 5 var byggt fyrir Mjólkurfélag Reykjavíkur 1929. Þetta er þrílyft steinsteypuhús með stórum gafli á vesturhlið og sneiddu horni. Húsið er lítið breytt en skipt hefur verið um glugga á efri hæðum og upprunalegar litlar rúður í efri pósti hafa verið fjarlægðar.

Edinborgarhúsið Hafnarstræti 10-12

Þrílyft verslunarhús úr steinsteypu, svonefnt Edinborgarhús, var byggt á lóðinni 1923 eftir teikningum Einars Erlendssonar. "Það var glæsilegt verslunarhús með mjög reglubundna framhlið í klassískum stíl, skreytt flatsúlum með jónískum súluhöfðum," segir í Kvosinni, byggingarsögu miðbæjar Reykjavíkur eftir Hjörleif Stefánsson og Guðnýju Gerði Gunnarsdóttur.

Verslunarhús hafa lengst af verið á lóðinni frá 1791, en Landsbankinn keypti húsið 1964 og hefur því verið mikið breytt síðan, skraut á framhlið fjarlægt og gluggum breytt. Einni hæð hefur verið bætt við og eru miðjan og þakkanturinn því ekki lengur sýnileg einkenni en greina má fjórar flatsúlur fyrir miðju.

Rammagerðin Hafnarstræti 19

Helgi Magnússon kaupmaður lét byggja steinsteypuhús í Hafnarstræti 19 1925 eftir teikningum Einars Erlendssonar. Sigríður bendir á að húsið sé mjög líkt öðrum verslunar- og skrifstofuhúsum sem Einar teiknaði í nýklassískum stíl, þ.e. með gaflþríhyrningi fyrir miðju og flatsúlum á framhlið.

Austurstræti 14

Árið 1928 lét Jón Þorláksson verkfræðingur reisa fjögurra hæða verslunarhús eftir teikningum Einars Erlendssonar á hornlóðinni í Austurstræti 14 þar sem fyrrverandi hús hafði brunnið í brunanum 1915. "Klassísk einkenni hússins má helst merkja í þakumbúnaði, gaflþríhyrningi og snigilkröppum," segir Sigríður og bendir á að ekki hafi verið gerðar verulegar breytingar á húsinu hið ytra.

Bankastræti 5b

Sigríður vekur athygli á því að Einar hafi teiknað flest húsin við Bankastræti, þ.e. nr. 2, 4, 5, 5b, 7 og 7a.

Húsið nr. 5b var byggt 1928. Sigríður bendir á að það sé klassískt að því leyti að það sé samhverft og með snigilkröppum undir þakskeggi. Hins vegar hafi húsinu verið mikið breytt og innréttingar hafi upphaflega verið í klassískum stíl en þær séu ekki lengur til staðar.

Bankastræti 7a

Jón Björnsson kaupmaður lét byggja húsið 1926 og rak þar samnefnda verslun. Síðar var þar verslunin Málarinn og hefur húsið gjarnan verið kallað Hús málarans. Undanfarin ár hefur veitingarekstur verið í húsinu og þar er nú Kaffi Sólon.

Sigríður segir að í heildina sé yfirbragðið klassískt en einnig gæti nokkurra barokkeinkenna.

Gamla bíó Ingólfsstræti 2a

Einar Erlendsson teiknaði "lifandimynda leikhús", eins og hann nefndi það, og var það byggt 1926. Þar er nú Íslenska óperan en áður Gamla bíó. "Húsið er nánast í hreinum klassískum stíl með klassískum hofþakshalla og kórþinskum súlum," segir Sigríður. "Í lofti eru spjaldrósir líkt og í Bankastræti 7a."

Guðspekihúsið Ingólfsstræti 22

Einar teiknaði þetta hús fyrir Guðspekifélagið og var það byggt 1910. Sigríður bendir á að á mæni hússins hafi verið myndaðar stíliseraðar kastalaraufar, sem væri ákveðin vísun í ný-gotneskan stíl, en raufarnar sjást ekki lengur. "Gotneskum stíl var ætlað að upphefja hið háleita, en oddbogar sem einkenna stílinn teygja sig til himins. Hugsanlega hefur Einar tekið tillit til þessa þegar hann hannaði húsið."

Esjuberg Þingholtsstræti 29a

Sigríður segir að árið 1916 hafi Einar Erlendsson unnið með Einari Jónssyni myndhöggvara að því að teikna Hnitbjörg, Listasafn Einars og heimili. Sama ár var reist íbúðarhús í Þingholtsstræti 29a eftir teikningu Einars Erlendssonar. Seinni eigandi gaf því nafnið Esjuberg og Borgarbókasafn Reykjavíkur var þar lengi til húsa.

"Húsið er í nýbarokkstíl með sveigðum stigum og bogadregnum línum," segir Sigríður. "Einnig má greina klassísk endurreisnaráhrif í flatsúlum og miðjusetningu og minnir framhliðin jafnvel á framhliðar ítalskra endurreisnarkirkna á 16. öld."

Viðbygging Fríkirkjunnar

Fríkirkja var vígð 1903 og Rögnvaldur Ólafsson gerði drög að stækkun hennar strax á næsta ári. Hún var lengd og vígð að nýju 1905 og 1928 var enn ráðist í að stækka kirkjuna. Einar Erlendsson gerði teikningar að stækkuninni en kór aftan við kirkjuna var byggður úr steinsteypu og miðbiki kirkjuskipsins var lyft. Sigríður segir að stækkunin hafi verið óvenjuleg og ekki beint í stíl við kirkjuna og 1940 hafi aftur verið bætt við hana þegar byggt hafi verið sitt hvorum megin við forkirkjuna. "Viðbygging Einars er í raun með stílfærðu og nútímalegu gotnesku sniði," segir Sigríður. "Það getur vel verið að Einar hafi ekki viljað eða talið að hann gæti ekki bætt við verk Rögnvaldar en ákveðið þess í stað að gera viðbygginguna einstaka og leggja frekar upp úr tengslum hennar við nærliggjandi byggingar."

Fríkirkjuvegur 11

Húsið á Fríkirkjuvegi 11 var reist fyrir Thor Jensen 1907-1908. Sigríður segir það byggt í nýklassískum stíl en bárujárnsklæðningin verði að teljast íslenskt einkenni. Húsið sé þó módern að ýmsu leyti og það hafi verið friðað 1978.

Í æviminningum sínum segir Thor Jensen að hann hafi leitað fyrirmynda að húsinu í bókum og síðan fengið Einar Erlendsson til að sjá um útfærsluna. "Þetta er gott dæmi um úrtínslustefnu í framkvæmd en sú stefna setti mark sitt á evrópska byggingarlistasögu á seinni hluta 19. aldar," segir Sigríður. "Súlur og snigilkrappar eru einkennandi fyrir húsið," bætir hún við.

Herkastalinn Kirkjustræti 2

Herkastalinn, gisti- og samkomuhús Hjálpræðishersins, var reistur 1916 og var fyrsta steinsteypta húsið sem reist var eftir teikningum Einars Erlendssonar. Um 1930 var húsið hækkað samkvæmt teikningum Einars. "Við hækkunina urðu hlutföll önnur og ný-rómanskur þungur stíll varð ekki eins einkennandi," segir Sigríður. "Hér er fyrirmyndin ekki klassísk fornöld heldur evrópskir miðaldakastalar og er líkt eftir grófri hleðslu. Húsið er sniðið að götumyndinni og sneitt að hornum," heldur hún áfram og bætir við að einar hafi nýtt sér þennan kastalastíl víðar og á stílfærðari hátt. Í því sambandi nefnir hún viðbygginguna við Fríkirkjuna, Guðspekihúsið, Galtafell á Laufásvegi 46 og húsin á Laufásvegi 49 og 51, svonefndar Sturluhallir.

Varðveisla mikilvæg

Sigríður áréttar að varðveisla húsa eftir teikningum Einars sé mikilvæg, sérstaklega þar sem um sé að ræða mikilvægan hlekk í byggingalistasögunni. Í mörgum þeirra hafi reyndar hin klassísku einkenni verið fjarlægð en mikilvægt sé að halda í þennan þátt í sögunni. Hún bendir á að ekki megi gleyma friðun innréttinga og nefnir innréttingarnar í Gamla bíói í því sambandi. Samt eigi ekki að friða þær sem einhvern minnisvarða heldur sem hluta heildarinnar. "Mikil umferð er um margar þessar byggingar og það er jákvætt," segir Sigríður. "Reykjavík er mósaíkborg með mörgum ólíkum byggingum á mörgum stöðum í borginni og mikilvægt er að halda í það einkenni, þar með taldar þessar byggingar með sínum klassísku einkennum."

steinthor@mbl.is