The Telepathetics vöktu athygli skoska tónlistarmógúlsins Alan Mcgees sem bauð þeim í kjölfarið að spila í London. Frá vinstri: Óttar B. Birgisson, Eyþór R. Eiríksson, Andreas Boysen og Hlynur Hallgrímsson.
The Telepathetics vöktu athygli skoska tónlistarmógúlsins Alan Mcgees sem bauð þeim í kjölfarið að spila í London. Frá vinstri: Óttar B. Birgisson, Eyþór R. Eiríksson, Andreas Boysen og Hlynur Hallgrímsson.
Eftir Hjálmar S. Brynjólfsson hsb@mbl.is THE TELEPATHETICS skaut óvænt upp á stjörnuhimininn fyrir ári þegar Alan McGee bauð þeim að spila með sér í London.
Eftir Hjálmar S. Brynjólfsson hsb@mbl.is
THE TELEPATHETICS skaut óvænt upp á stjörnuhimininn fyrir ári þegar Alan McGee bauð þeim að spila með sér í London. Hljómsveitin kynntist honum þegar hann var að dj-ast á Gauki á Stöng og upp úr því tókust með þeim kynni. Í kjölfarið fór hljómsveitin út og spilaði á Notting Hill Art Club, en Alan hefur til dæmis uppgötvað Oasis, The Libertines og Primal Scream.

"Það gekk rosalega vel og var mjög mikið ævintýri," rifjar Eyþór Rúnar Eiríksson upp. Hann er söngvari og gítarleikari í The Telepathetics sem var að gefa út plötuna Ambulance .

Auk Eyþórs skipa Andreas Boysen (trommur), Hlynur Hallgrímsson (söngur/bassi) og Óttar Guðbjörn Birgisson (gítar) hljómsveitina. The Telepathetics hafa spilað saman frá árinu 2000. "Meðlimir hafa komið og farið í gegnum tíðina, en við upprunalegu meðlimirnir erum enn í hljómsveitinni," segir Eyþór.

Upprunalega hét hljómsveitin Gizmó og tók þátt í Músíktilraunum árið 2002 undir því nafni. Eftir það hætti söngvari Gizmó, en úr rústum hljómsveitarinnar var The Telepathetics stofnuð, og hefur nú spilað saman í fjögur ár.

Kjarninn hefur því haldist sterkur um langan tíma, eða í það minnsta sex ár, sem kannski má rekja til tónlistarsmekks meðlimanna. "Við höfum mjög svipaðan tónlistarsmekk. Það er reyndar sumt sem kannski einn fílar en annar algerlega ekki, en það verður líka til þess að það skapast eitthvað nýtt hjá hljómsveitinni. Ég myndi segja að í uppáhaldi hjá okkur væru t.d. Radiohead og Jeff Buckley," segir Eyþór.

Tóku plötuna upp fjórum sinnum á tveimur árum

"Tilfinningin er góð, en spes," segir Eyþór aðspurður hvernig er að sjá fyrstu skífuna líta dagsins ljós. "Það er erfitt að lýsa henni. Það fylgir auðvitað mikill léttir, en líka spennufall."

Að sögn Eyþórs gekk mjög vel að taka upp plötuna. Þeir tóku hana reyndar upp alls fjórum sinnum á tveimur árum. Fyrst gerðu þeir demó, og svo tvær útgáfur sem þeir voru ekki nógu hrifnir af. En eftir að þeir tóku plötuna upp "læf" í Sundlauginni, upptökuheimili Sigur Rósar, fengu þeir útkomu sem þeir voru mjög ánægðir með. Þá sá Birgir Jón Birgisson um upptökustjórn/hljóðblöndun og lætur Eyþór vel af samstarfinu við hann, en Birgir hefur unnið með Sigur Rós að gerð síðustu platna hljómsveitarinnar. Einnig kom eldri bróðir Andreasar, Pétur Þór Benediktsson, mikið við sögu á plötunni og útsetti strengi og brass, en hann hefur unnið með mönnum á borð við Mugison og Nick Cave.

The Telepathetics gefa Ambulance sjálfir út og stofnuðu einkahlutafélag til að sjá um þá hlið mála. Diskurinn er því algert einkaframtak fyrir utan það að 12 tónar sjá um dreifingu. Að sögn Eyþórs verður diskurinn væntanlega settur í nýja plötuverslun 12 tóna í Fiolstræde í Kaupmannahöfn, en segir það annars bara vera "á pælingastiginu" að dreifa plötunni erlendis. "Við byrjum á Íslandi og sjáum til með framhaldið."

Nýja platan inniheldur 10 lög, og hafa tvö þeirra sérstaklega vakið athygli og fengið góða spilun á útvarpsstöðum: "Castle" og "Last song". Seinna lagið hefur komið mjög vel út á tónleikum og bráðlega verður myndband við lagið sýnt, en upptökum á því er lokið. Bragi Þór Antoníusson vann myndbandið. Last song er að sögn Eyþórs "crowdpleaser". Fólk klappar og syngur með, sérstaklega um helgar. Það eru margir farnir að þekkja lagið og maður getur ekki annað en brosað þegar fólk fer að syngja með."

Á döfinni hjá The Telepathetics er síðan að spila á Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði nk. föstudag, 28. júlí. Einnig verða útgáfutónleikar um miðjan ágúst.

www.telepathetics.com www.myspace.com/telepathetics