Félagar í Hugarafli hafa undirbúið ráðstefnuna Bylting í bata, sem hefst í dag. Frá vinstri: Birgir Páll Hjartarson, Berglind Nanna Ólínudóttir, Björg Torfadóttir, Jón Ari Arason, Herdís Benediktsdóttir, Garðar Jónasson, Nanna Þórisdóttir og Elín Ebba Ásmundsdóttir. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Judi Chamberlin frá Bandaríkjnum.
Félagar í Hugarafli hafa undirbúið ráðstefnuna Bylting í bata, sem hefst í dag. Frá vinstri: Birgir Páll Hjartarson, Berglind Nanna Ólínudóttir, Björg Torfadóttir, Jón Ari Arason, Herdís Benediktsdóttir, Garðar Jónasson, Nanna Þórisdóttir og Elín Ebba Ásmundsdóttir. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Judi Chamberlin frá Bandaríkjnum. — Morgunblaðið/Ásdís
HUGARAFL efnir í dag og á morgun til ráðstefnu á Hótel Sögu um geðheilbrigðismál. Yfirskrift ráðstefnunnar er Bylting í bata og meginefni hennar er valdefling og bati. Ráðstefnunni lýkur með opnum borgarafundi síðdegis á morgun, föstudag. Birgir P.

HUGARAFL efnir í dag og á morgun til ráðstefnu á Hótel Sögu um geðheilbrigðismál. Yfirskrift ráðstefnunnar er Bylting í bata og meginefni hennar er valdefling og bati. Ráðstefnunni lýkur með opnum borgarafundi síðdegis á morgun, föstudag.

Birgir P. Hjartarson frá Hugarafli sagði þetta vera fyrstu stóru ráðstefnuna sem samtökin hafa haldið frá því þau voru stofnuð fyrir rúmlega þremur árum. Tilgangurinn með ráðstefnunni er m.a. að leitast við að breyta afstöðu fólks til geðsjúkra. Einnig að notendur heilbrigðisþjónustunnar eignist rödd og hafi eitthvað að segja um þá meðferð sem þeir njóta.

"Þetta hefur verið svolítið einstefnulegt, hingað til," sagði Birgir. "Fólk fer til geðlæknis og bara hlustar. Það fjölgar sífellt öryrkjum vegna geðsjúkdóma og eins hækkar lyfjakostnaður stöðugt. Þrátt fyrir alla peningana sem settir eru í þetta fjölgar geðsjúkum. Við þurfum nýjar aðferðir og ný úrræði. Hugarafl vinnur að þeim. Notendur heilbrigðiskerfisins, eins og við köllum okkur, vilja hafa eitthvað að segja um meðferðina. Við viljum hafa hlutverki að gegna og höldum t.d. mestmegnis sjálf þessa ráðstefnu."

Hugarafl er samstarfshópur fagaðila, t.d. iðjuþjálfa og sálfræðings, og notenda heilbrigðisþjónustunnar sem vinna innan samtakanna á jafningjagrundvelli. Birgir segir að Hugarafl hafi gefið út fræðsluefni, haldið fyrirlestra og kynningar á stofnunum bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga. Mörg önnur verkefni eru í undirbúningi.

Yfirskrift ráðstefnunnar, Bylting í bata, vísar til þess markmiðs Hugarafls að breyta bataferlinu og skilgreiningunni á því, eyða fordómum og landamærum sem dregin hafa verið á milli sjúkdóma. "Geðræn einkenni koma við sögu í nær öllum sjúkdómum," sagði Birgir. "Þú getur fengið hjartaáfall, heilablóðfall eða annan sjúkdóm og þetta kallar allt á ákveðið kreppuástand. Ég þekki engan sem hefur fengið hjartaáfall að hann lendi ekki í einhverju þunglyndi á eftir. Geðsjúkdómar koma öllum við."

Fordómar eru víða

Fordómar gagnvart geðsjúkdómum eru enn víða til staðar, jafnt meðal almennings og meðal sjúklinga, að sögn Birgis. "Maður fordæmir sjálfan sig fyrir að vera með geðsjúkdóm, því þjóðfélagið stimplar mann sem öðruvísi. Þar byrjar vandamálið. Í kerfi okkar leggjum við mikla áherslu á að styrkja sjálfsmyndina og sjálfstraustið og byggja einstaklinginn upp svo hann geti betur tekist á við daglegt líf sitt. Sjúklingur er margt fleira en sjúklingur og hann þarf að gera sér grein fyrir því. Maður getur verið vinur, faðir, móðir og svo margt annað þótt maður sé veikur. Það getur verið erfitt að vinna sig út úr því að vera "bara" sjúklingur í eigin huga."

Birgir sagði notendur heilbrigðisþjónustu oft skorta þekkingu á úrræðum sem standa til boða. Þeir þurfi að vera virkir þátttakendur í bataferlinu. Það sé ekki nóg að taka bara lyfin sín og bíða eftir bata.

Guðmóðir nýrra viðhorfa

Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Judi Chamberlin frá Bandaríkjunum og mun hún m.a. fjalla um skilning á valdeflingu (empowerment) og bata. Judi er sjálf notandi og hefur lengi barist fyrir réttindum notenda geðheilbrigðiskerfisins. Hún er höfundur bóka, greina og bæklinga um geðheilbrigði, sjálfshjálp, bataferli og réttindi notenda heilbrigðisþjónustu. Judi er ráðgjafi við endurhæfingarmiðstöð geðsjúkra við Háskólann í Boston, auk þess sem hún vinnur hjá National Empowerment Center (www.power2u.org).

Birgir sagði að Judi vera "guðmóður" þeirrar aðferðafræði sem Hugarafl vinnur eftir og er kennd við valdeflingu. "Kerfið var búið til í Bandaríkjunum á sínum tíma og margir komu að rannsóknunum sem það byggir á, en hún er guðmóðirin," sagði Birgir. "Þar voru tekin saman fimmtán atriði sem byggjast m.a. á því að notandi þjónustunnar, sjúklingurinn, komi inn í ákvarðanatöku, hafi aðgang að upplýsingum, eigi valkosti, fái stuðning til að efla sjálfan sig og fái að vera einstaklingur í staðinn fyrir að vera "bara" sjúklingur. Sá hinn sami þarf líka að viðurkenna stöðu sína og vilja leggja sig fram. Við í Hugarafli sjáum að þetta kerfi virkar vel."

www.hugarafl.is