Einhver mesti skerfur til íslenskrar menningarsögu fyrr og síðar er biblíuútgáfan 1584, sem jafnan er kennd við Guðbrand Þorláksson. Sigurður Ægisson greinir frá tilurð hennar í þessum pistli.

Árið 1570 varð ungur maður, 28 eða 29 ára að aldri, biskup á Hólum, og jafnframt annar í röðinni til að gegna því embætti nyrðra eftir siðbreytingu. Þetta var Guðbrandur Þorláksson. Fór hann utan og hlaut vígslu 8. apríl árið 1571, í dómkirkjunni í Kaupmannahöfn, Frúarkirkju.

Þegar Guðbrandur hafði vígst til Breiðabólstaðar í Vesturhópi, árið 1567, var sonur forvera hans, Jóns Matthíassonar "hins sænska", orðinn eigandi prentsmiðjunnar, sem þar var og Jón Arason hafði flutt til landsins í kringum 1530. Sá hét einnig Jón og hafði viðurnefnið prentari. Ekki er vitað hvað þeim fór á milli, en víst er, að eftir að hinn fyrst nefndi er orðinn biskup líður ekki á löngu áður en prentsmiðjan og Jón prentari eru komin til Hóla og undirbúningur hafinn að bókaútgáfu.

Alls er kunnugt um 100 bækur eða svo, er prentaðar voru á Hólum eða Núpufelli í biskupstíð hans, og þar af hafa 79 varðveist. Hann sjálfur er talinn höfundur 11 bókanna, sá þar að auki um útgáfu 9 og þýddi 32.

Af öllum hinum ólöstuðum greinir menn þó síst á um, að einhver mesti skerfur til íslenskrar menningarsögu fyrr og síðar, og um leið gersemi íslenskrar bókagerðar, hafi verið sú prentun heilagrar ritningar, sem birtist í fyrsta skipti öll í íslenskri þýðingu 6. júní árið 1584, og er nú löngum kennd við útgefanda sinn og nefnd Guðbrandsbiblía. Urðu Íslendingar þar með hinir 20. í röðinni, til að gefa út Biblíuna á móðurmáli sínu.

Guðbrandur notaði, að svo miklu leyti sem hægt var og til náðist, eldri þýðingar í hina miklu smíð. Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, sem út hafði komið árið 1540, tók hann upp nálega óbreytt. Og hvað Gamla testamentið snertir voru notaðar þýðingar Gissurar Einarssonar á Orðskviðunum og Síraksbók, og e.t.v. Samúelsbókunum. Þá hefur Guðbrandur notað þýðingar Odds Gottskálkssonar á Davíðssálmum og líklega Spámannabókunum og Makkabeabókunum. Ekki mun með öllu ljóst hvor þýddi Jobsbók, Gissur eða Oddur. Þessar bækur notaði Guðbrandur, auk þýðinga annarra manna og sinna eigin. Þá hefur hann reynt að samræma þýðingarnar og færa til betri vegar þar sem hægt var, því vitað er að hann var málvöndunarmaður.

En ekki var það eitt nægilegt að hafa prenthæfan texta, heldur þurfti að auka útbúnað prentverksins, sem mun hafa verið í rýrara lagi. Naut Guðbrandur þar aðstoðar vinar síns og fyrrum kennara, sem var Páll Madsen Sjálandsbiskup. Ennfremur aflaði Guðbrandur myndamóta frá útlöndum, en hnútar og annað skraut, munu vera eftir hann og aðra.

Að því er sagnir herma eiga 7 menn að hafa unnið við prentun Biblíunnar í alls tvö ár. Er það afrek út af fyrir sig, miðað við afköst þess tíma í prentsmiðju, alla jafna. Af þeim eru aðeins tveir nafngreindir; annar er Jón Jónsson prentari, áðurnefndur, og hinn Guðmundur Erlendsson, sem um svipað leyti verður prestur í Felli í Sléttuhlíð. Hafa einhverjir hinna eflaust verið skólapiltar, því vitað er að Guðbrandur setti þá drengi að einhverju leyti til starfa í prenthús.

Um Biblíuna er það annað að segja, að hún var öll prentuð í svörtum lit, nema hluti titilsíðu, sem var rauður. Upplagið var 500 eintök, sem telja verður mjög stórt, ef litið er á allar aðstæður. Erlendur bókbindari, Jurin að nafni, var fenginn til þess að sjá um bókbandið, og batt helming upplagsins; 120 eintök voru send til bands í Kaupmannahöfn, en afgangurinn svo falinn íslenskum manni, Jóni Arngrímssyni, sem lært hafði bókband af hinum erlenda. Var bandið allt hið vandaðasta, eins og raunar bókin öll, slegið utan með spennum og doppum. Brotið var stórt, svokallað fólíó, og blaðsíður um 1.250. Ef pappír hefði ekki verið kominn til sögunnar, hefði þurft 311 kálfskinn í hvert eintak. Þá heyrði til nýjunga í íslenskri bókagerð, að Biblían var skreytt myndum, hátt í 30 talsins.

Guðbrandsbiblía mun ekki hafa farið að koma úr bandi fyrr en árið 1585. Hún var dýr, hvert eintak kostaði 8-12 ríkisdali, sem var feiknaverð á þeim tíma og svaraði til tveggja eða þriggja kýrverða. Sé það umreiknað til nútímans, erum við að tala um eina og hálfa milljón og upp í rúmar tvær. Jafnvel enn meira, að sumra áliti.

Biskup gaf fátækum kirkjum í Hólastifti 20 eintök og hugðist gera eins við fátækar kirkjur í Skálholtsstifti, þótt nú sé ekki vitað hvort af hefur orðið. Nýja testamentið, sem hann lét prenta eitt og sér árið 1609, var einkum hugsað til þeirra, sem ekki höfðu efni á að kaupa Biblíuna sjálfa.

Á árunum 1824-1825 lét Hið íslenska Biblíufélag gera könnun á biblíueign landsmanna og birtust niðurstöður hennar árið 1826. Samkvæmt þeim voru til 160 Guðbrandsbiblíur, ýmist í opinberri eign eða einkaeign. Hver þessi tala er núna er ekki vitað, en einhverjir hafa giskað á 30-40 bækur, og af þeim eru örfáar taldar í einkaeigu.

Guðbrandsbiblía er ein af örfáum fyrri alda útgáfum, sem endurprentuð hefur verið í óbreyttri mynd, og það í tvígang. Fyrst var hún ljósprentuð og útgefin af Litho-prenti á árunum 1956-1957, í 500 eintökum, og síðan ljósprentuð og gefin út öðru sinni af bókaforlaginu Lögbergi, árið 1984, í 400 eintökum.

sigurdur.aegisson@kirkjan.is