Afburðarnemandi Herdís Anna Jónasdóttir hlaut 500.000 kr. styrk.
Afburðarnemandi Herdís Anna Jónasdóttir hlaut 500.000 kr. styrk. — Morgunblaðið/Ásdís
HERDÍS Anna Jónasdóttir söngnemi hlýtur verðlaun úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen, sem veitt verða í dag í tónlistarsal Listaháskólans við Sölvhólsgötu. Verðlaunaupphæðin nemur 500.000 kr.

HERDÍS Anna Jónasdóttir söngnemi hlýtur verðlaun úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen, sem veitt verða í dag í tónlistarsal Listaháskólans við Sölvhólsgötu. Verðlaunaupphæðin nemur 500.000 kr. og hyggst Herdís Anna nýta sér verðlaunin til framhaldsnáms við Hans Eisler tónlistarháskólann í Berlín.

Þeir einir koma til greina sem verðlaunahafar sem hafa útskrifast og eru á leið til framhaldsnáms. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

"Ég held að þetta sé mjög virtur skóli. Ég fer inn á fjórða ár í diploma-námi sem er alls sex ár. Í fyrstu ætla ég eingöngu að einbeita mér að náminu en síðan verð ég eitthvað að reyna að koma mér á framfæri," segir Herdís Anna.

Mist Þorkelsdóttir, deildarforseti tónlistardeildar Listaháskólans, segir að sjóðurinn hafi verið stofnaður í janúar 2005, en þá var jafnframt í fyrsta sinn úthlutað úr honum.

Halldór Hansen var barnalæknir og mikill tónlistarunnandi. Hann hafði ferðaðist mikið til útlanda og sótt tónleika og þar kynntist hann mörgum af stærstu tónlistarmönnum heims. Hann var ástríðufullur safnari tónlistar og tónlistartengds efnis. Styrktarsjóðurinn varð til þegar Halldór arfleiddi Listaháskólann að plötusafni sínu sem er um 7.500 eintök. Einnig fylgdu með geisladiskar, bækur og nótur. Að sögn Mistar var þetta stofngrunnur að tónlistarbókasafni Listaháskólans en einungis var til vísir að slíku safni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ennfremur kvað Halldór svo á að stofnaður yrði sjóður til þess að halda utan um safnið, skrá það og gera það aðgengilegt og jafnframt til þess að keypt yrði meira efni inn á bókasafnið. Safnið er í vörslu Listaháskólans en opið öllum. Það var líka ósk Halldórs að einn efnilegur nemandi fengi styrk á hverju ári til framhaldsnáms.

Bóka- og plötukostinum hefur að hluta til verið komið fyrir í húsakynnum tónlistardeildar Listaháskólans á Sölvhólsgötu. Síðastliðið haust lauk skráningu á hljómplötunum en allt efni sem keypt hefur verið inn samkvæmt stofnskrá styrktarsjóðsins er óskráð ennþá. Mist segir að plötukosturinn sé skráður inn í Gegni og er því aðgengilegur öllum landsmönnum. "Listaháskólinn er í mikilli húsnæðiseklu og við höfum reynt eftir bestu getu að koma þessu fyrir. Það efni sem við búum yfir er meira en við höfum pláss fyrir," segir Mist.