29. september 2006 | Innlendar fréttir | 137 orð

Hljóðberi, málþráður eða sími?

ORÐIÐ sími varð ekki strax fyrir valinu þegar menn reyndu að finna nafn á þetta fyrirbæri.
ORÐIÐ sími varð ekki strax fyrir valinu þegar menn reyndu að finna nafn á þetta fyrirbæri. Í bókinni Saga Símans í 100 ár segir að ýmist hafi verið notuð orðin hljóðþráður, hljóðberi, málmþráður, fréttaþráður, málþráður eða talþráður þegar hugmyndir um símalagningu til landsins voru fyrst orðaðar.

Kemur fram í bókinni að orðið sími eigi uppruna sinn í fornu norrænu máli, hvorugkynsorðið "síma" merkti þráður eða band og orðið "sima" finnst einnig í fornensku í sömu merkingu. Í orðabók séra Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili sem út kom árið 1896 koma fyrir orðin talsími og ritsími sem þýðing á orðunum "telefon" og "telegraf" og eru þau nýyrði eignuð Pálma Pálssyni cand.mag. Orðið festist fljótt í sessi og allt frá því að síminn kom árið 1906 er vart hægt að segja að annað orð hafi verið notað yfir þetta fjarskiptatæki.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.