12. október 2006 | Tónlist | 752 orð | 1 mynd

TÓNLIST - Íslenskur geisladiskur

Gítarplata sem breytir heiminum

Dark Harvest - Dark Harvest stjörnugjöf: 4

Geisladiskur Dark Harvest, sem ber heitið Dark Harvest. 10 lög, heildartími 47.42 mínútur. Dark Harvest eru: Guðlaugur Falk, gítar, hljómborð; Kristján B. Heiðarsson, trommur og Magnús H. Pálsson, bassi. Lög eru eftir G.
Geisladiskur Dark Harvest, sem ber heitið Dark Harvest. 10 lög, heildartími 47.42 mínútur. Dark Harvest eru: Guðlaugur Falk, gítar, hljómborð; Kristján B. Heiðarsson, trommur og Magnús H. Pálsson, bassi. Lög eru eftir G. Falk, en um útsetningar sá Dark Harvest. Tekið upp í I.V. Studio 2005 - 2006, af Óskari Inga Gíslasyni. Upptökum stjórnaði Guðlaugur A. Falk. Hljóðblandað af Peter "Ziggy" Siegfredsen. Uppsetning plötuumslags: Valli Dordingull, Teikningar á umslagi: Arnór Hermannsson og Jón Óskar Friðriksson. Smekkleysa gefur út 2006.

NÝJA plata Dark Harvest er gítarplata, það er það fyrsta sem er alveg á hreinu. Gulli Falk hefur lengi verið að semja og gefa út tónlist, bæði sólóplötur og með hljómsveitinni Exist. Það sem hann gefur út er alltaf fullt af lífsgleði og krafti og hann er sá tónlistamaður sem hefur hvað mesta útgeislun á sviði, af þeim fjöldamörgu sem maður hefur verið svo heppinn að fá að njóta á tónleikum. Hann er leikinn á hljóðfærið sitt og naskur á að hitta á flott gítarstef sem ganga vel upp.

Nýja platan er með öllu ósungin og því er það ennþá mikilvægara að lögin séu það góð og heilsteypt að þau haldi athyglinni ein og sér. Í fyrsta skipti sem ég renndi disknum velti ég því aðeins fyrir mér hvort það hefði verið betra að hafa einhver lög með rödd í, en svo féll ég fljótlega alfarið frá þeirri hugmynd. Platan stendur nefnilega algerlega eins og hún er, og söngur myndi bara stela athygli frá þeim fókuspunktum sem nú þegar eru á henni. Það er í raun frekar snjallt að taka út allan söng í tónlist sem þessari, því ef enginn er textinn til að hlusta eftir ná skilningarvitin að einbeita sér enn betur að sjálfri tónlistinni.

Með Gulla í Dark Harvest eru tveir miklir meistarar, bassaleikarinn Maddi sem einnig er í Forgarði Helvítis og trommarinn Kristján, sem líka er í Changer. Að báðum þessum sveitum ólöstuðum verð ég að segja að það er í Dark Harvest sem þeir fá að blómstra og njóta sín til fullnustu. Báðir eru þeir mjög liprir hljóðfæraleikarar og fá heilmikið pláss á plötunni til eigin framkvæmda og flæðis. Það heyrist strax á fyrstu mínútum plötunnar hvað allir þrír meðlimir Dark Harvest eru að njóta þess vel að spila þessi lög, og held ég að aldrei hafi Guðlaugur Falk verið í eins góðum félagsskap.

Dark Harvest er hugarfóstur Gulla Falk, enda eru öll lögin eftir hann. Hann stjórnar líka upptökum og maður skynjar undir eins að hér er ekki kastað til hendinni. Það er auðheyrilega búið að liggja yfir sumum útsetningunum, en sérstaklega eru gítarútsetningar flóknar og margslungnar. Lögin eru af ýmsum toga, og heyra má áhrif frá hljómsveitum eins og Van Halen, (t.d. í laginu "Sunny Valentino") og Led Zeppelin (t.d. í lögunum "Sambalavista" og "Madman" ). Að sjálfsögðu eru lögin misgrípandi, en það er einna helst í þeim lengstu sem örlar á smá einhæfni og óþarfa endurtekningu. Lagið "Fast Train" er til að mynda alls ekki slæmt, en það nálgast sjö mínútur að lengd og hugsanlega hefði það verið einbeittara aðeins styttra. Fyrsta lagið, "Beyond the stars", er rúmar sjö mínútur, en þar er hljómurinn gerður dulúðlegri með hljómborðsnotkun og því kemur lengdin minna að sök.

Eitt af mínum uppáhaldslögum á plötunni er lagið "East meets west", og það er jafnframt eina lagið sem ég hef heyrt áður á plötu, en það kom út á "Falk" árið 2000. Gulli gerði hárrétt í að taka það upp aftur með Dark Harvest, því ný útgáfa þessa lags er hreint út sagt stórkostleg, og skilur hina fyrri útgáfu eftir slyppa og snauða.

Þessi plata er einkar vel til þess fallin að keyra bíl á þjóðvegi, og ég er ekki frá því að hugurinn hafi tekið á flug hjá mér þegar norðanrokið breyttist í heitan Kalíforníuvind, og mér fannst eins og ég væri leðurklædd á leið á tónleika, með permanent í hárinu. Áður en ég vissi af, var ég farin að keyra allt of hratt. Vonandi eru hraðasektir ekki afturvirkar, en ef ég fæ sekt skrifast hún náttúrulega alfarið á Dark Harvest. Það efast enginn um að það sé þungt rokk sem á huga þessara pilta allra, en þó ekki svo þungt að leikgleðin gleymist. Það er hárfín lína sem skilur á milli þess að leika vel og leika sér, og ef menn hugsa bara um að gera eitthvað vel og vanda sig of mikið, verður stemmningunni ábótavant og tónlistin tapar á því. Hér eru upptökur, hljómur og spilamennska vönduð, en það er samt ofsalega gaman að vera til.

Ragnheiður Eiríksdóttir

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.