Samstarfsaðilar "Við búum yfir reynslunni meðan læknarnir hafa þekkinguna," segir Hanne Vested Hansen.
Samstarfsaðilar "Við búum yfir reynslunni meðan læknarnir hafa þekkinguna," segir Hanne Vested Hansen. — Morgunblaðið/Ásdís
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur ben@mbl.is Hanne Vedsted Hansen var 16 ára þegar það leið í fyrsta sinn yfir hana vegna tíðaverkja. Rúmlega tuttugu árum síðar fékk hún að vita að hún þjáðist af legslímuflakki.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

ben@mbl.is

Hanne Vedsted Hansen var 16 ára þegar það leið í fyrsta sinn yfir hana vegna tíðaverkja. Rúmlega tuttugu árum síðar fékk hún að vita að hún þjáðist af legslímuflakki.

Eins og nafnið bendir til orsakast legslímuflakk (endometriosis) af því að slímhúðin sem þekur legholið að innan "fer á flakk" og litlir frumuklasar úr henni taka sér bólfestu annars staðar, oftast í grindarholinu. Við blæðingar pressast svolítið tíðablóð upp gegnum eggjaleiðarana og inn í kviðarholið auk þess sem blæðir úr þessari afbrigðilegu legslímhúð inn í vefina. Það getur valdið bólgum og samvöxtum með tilheyrandi sársauka fyrir konuna. "Það er gífurlega mikilvægt að vekja athygli á sjúkdómnum," segir Hanne sem er formaður samtaka danskra legslímuflakkssjúklinga. Nýlega var hún stödd hér á landi til að vera viðstödd stofnun sambærilegra samtaka á Íslandi. "Því fleiri sem þekkja orðið "endometriosis" - því betur erum við sett. Þetta gildir ekki bara um konur heldur líka um læknana sem meðhöndla þær. Þegar kona kemur í sína fyrstu læknisheimsókn og segir að hún geti ekki tekið þátt í leikfimitímum eða haldist hreinlega ekki uppi vegna sárra tíðaverkja á það að hringja bjöllum í höfði læknisins. Hún á ekki að þurfa að þjást í langan tíma, jafnvel árum saman, áður en hún fær greiningu."

Hún segir sjúklingasamtök gegna mikilvægu hlutverki í þessum efnum því þau geti stuðlað að vitund almennings og lækna um sjúkdóminn auk þess að miðla upplýsingum um mögulega meðferð til kvenna sem glíma við hann. Þá megi ekki vanmeta þann stuðning sem konur í svipaðri stöðu geta veitt hver annarri. "Oft hitta konur í fyrsta sinn hjá sjúklingasamtökunum einhvern sem þekkir reynslu þeirra persónulega. Ég hef upplifað að konur fari að gráta í miðju samtali við mig og þær hafa sagt að ég sé fyrsta manneskjan sem skilji hvað þær hafi gengið í gegnum."

Oft taldar móðursjúkar

Talið er að um 3.000 konur á barneignaaldri séu með legslímuflakk á Íslandi á hverjum tíma en Hanne telur þær tölur varlega áætlaðar því 4-6% allra kvenna og stúlkna séu með sjúkdóminn, þótt hann sé misvirkur. "Margar fá þær skýringar hjá læknum sínum að þær þurfi einfaldlega að venjast því að fá tíðaverki, þeir gangi yfir og þetta gerist nú bara einu sinni í mánuði. Best sé að þær fari heim og taki tvær magnyl. Þær upplifa oft að vera taldar móðursjúkar og erfitt getur reynst að fá greiningu sem er mjög bagalegt því legslímuflakk getur haft víðtæk áhrif á konur í þeirra daglegu störfum. Fjölmargar þeirra fá mikla og sára verki meðan á blæðingum stendur en smám saman geta líka bæst við verkir í kringum egglos og loks verkir á tímabilinu frá egglosi til blæðinga. Og þegar konu líður illa í 14 til 18 daga í hverjum tíðahring verður hún ofboðslega lúin. Þá þarf virkilega að taka tillit til hennar. Þess vegna er svo mikilvægt að legslímuflakk sé viðurkennt sem raunverulegur sjúkdómur." Hún bætir við að takmörk séu á því hvað geti talist eðlilegir tíðaverkir. Um leið og þeir séu farnir að hefta konur eða stjórna lífi þeirra á einhvern hátt sé full ástæða til að athuga málið nánar.

Hanne hefur eigin reynslu að vísa til í þessum efnum. Í rúm 20 ár gekk hún lækna á milli sem höfðu lítið annað að bjóða henni en verkjalyf. "Svo bættist ófrjósemin við. Mér auðnaðist ekki að eignast börn. Einu sinni varð ég þunguð en það var utanlegsfóstur," segir hún en undirstrikar þó að ekki megi setja samasemmerki milli legslímuflakks og ófrjósemi. "Sagt er að 30 til 40% kvenna sem fá meðferð vegna ófrjósemi þjáist af legslímuflakki en hins vegar eiga 60% kvenna sem þjást af legslímuflakki ekki í vandræðum með að eignast börn."

Skúffur fullar aukaverkana

Loks þegar Hanne var 37 ára greindist hún með legslímuflakk og síðan hefur hún farið í átta skurðaðgerðir. "Þegar kemur að meðhöndlun sjúkdómsins er um tvær skúffur að velja. Í annarri liggja hnífur og skæri og vísa til aðgerðar. Í hinni eru tvenns konar lyf, þ.e. hormónalyf eða verkjalyf. Og í hvert skipti sem þessar skúffur eru dregnar út eru þær fullar af aukaverkunum," útskýrir hún. Aðgerðir hafi fjarveru frá vinnu í för með sér og oft dugi ein aðgerð ekki til þótt sjaldgæft sé að konur þurfi að takast á við jafn margar og hún hefur gert. Aukaverkanir hormóna- og verkjalyfja séu vel þekktar og ákaflega mismunandi sé hversu vel konur þoli þau. "Lykilatriðið er að því fyrr sem sjúkdómurinn greinist - því betri eru horfurnar."

Hún bætir við að mikilvægt sé að meðhöndlun sjúkdómsins fari fram á fáum stöðum svo að læknar öðlist nauðsynlega færni til að eiga við vandamálið, ekki síst þegar kemur að aðgerðum. "Því oftar sem læknar framkvæma þær, því betri verða þeir. Þetta er sérstaklega mikilvægt í litlu landi eins og Íslandi en Danmörk er eina landið í heimi þar sem heilbrigðisyfirvöld hafa séð ástæðu til að setja reglur um þessi efni."

Í dag tekur sex til sjö ár að meðaltali að greina legslímuflakk í Danmörku að sögn Hanne. "Fyrir tíu árum var meðalgreiningartíminn níu ár en það er ekki nokkur vafi á að sjúklingasamtökin, sem voru stofnuð 1997, hafa átt þátt í að stytta hann. Dönsku samtökin hafa borið gæfu til að öðlast virðingu þeirra sem meðhöndla sjúkdóminn og það hefur orðið til þess að í dag lítur heilbrigðisstarfsfólk á okkur sem samstarfsaðila. Við tökum þátt í ákvarðanatöku á ýmsum stigum enda búum við yfir reynslunni á meðan læknarnir hafa þekkinguna. Og þegar þetta tvennt er brætt saman getur útkoman fært fjöll."