HLUTI af eyra manns var bitinn af í áflogum í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu stöðvaði maður annan mann í Pósthússtræti til að spyrja til vegar.

HLUTI af eyra manns var bitinn af í áflogum í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu stöðvaði maður annan mann í Pósthússtræti til að spyrja til vegar. Þau samskipti enduðu í slagsmálum þar sem hluti af eyra þess sem spyrja vildi til vegar var bitinn af.

Að sögn lögreglu tókst manninum að finna stykkið sem bitið var af og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar þar sem búturinn var saumaður aftur á. Árásarmaðurinn er enn ófundinn.

Fimm aðrar líkamsárásir voru tilkynntar í Reykjavík eftir nóttina, allar minniháttar. Talsverður mannfjöldi var í miðborginni fram eftir nóttu og annasamt hjá lögreglu.

Í gærmorgun um kl. 7 varð svo umferðarslys á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Fjórir voru fluttir á slysadeild en meiðsl talin minniháttar.