Harður árekstur Bílarnir voru mjög illa farnir eftir áreksturinn en talið er að ökumaður annars bílsins hafi verið að fara fram úr þegar slysið varð.
Harður árekstur Bílarnir voru mjög illa farnir eftir áreksturinn en talið er að ökumaður annars bílsins hafi verið að fara fram úr þegar slysið varð. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TVENNT lést í hörðum árekstri tveggja fólksbíla á Suðurlandsvegi um miðjan dag á laugardag, fimm ára stúlka og karlmaður um þrítugt. Þrír til viðbótar slösuðust, þar af einn alvarlega. Slysið varð um kl. 14.

TVENNT lést í hörðum árekstri tveggja fólksbíla á Suðurlandsvegi um miðjan dag á laugardag, fimm ára stúlka og karlmaður um þrítugt. Þrír til viðbótar slösuðust, þar af einn alvarlega.

Slysið varð um kl. 14.30 á Suðurlandsvegi við Sandskeið, við afleggjarann að Bláfjöllum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík voru bílarnir að koma úr gagnstæðum áttum er þeir rákust á, og er talið að ökumaður annars bílsins hafi verið að taka fram úr vöruflutningabifreið.

Þrennt var í öðrum bílnum, karlmaður um fertugt ásamt tveimur börnum sínum, fimm ára stúlku og átta ára dreng. Stúlkan lést í slysinu, og drengurinn slasaðist alvarlega. Hann liggur á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, og að sögn læknis er hann mjög alvarlega slasaður, en líðan hans eftir atvikum. Faðir drengsins er minna slasaður en hann hlaut m.a. beinbrot í slysinu.

Í hinum bílnum, sem talið er að hafi verið að aka fram úr þegar slysið varð, voru tveir karlmenn, ökumaður á tvítugsaldri og farþegi á þrítugsaldri. Farþeginn lést í slysinu og ökumaðurinn slasaðist nokkuð. Ekki er unnt að greina frá nöfnum hinna látnu að svo stöddu.

Faðir stúlkunnar sem lést býr í Þorlákshöfn, og vegna slyssins var aðventustund í Þorlákskirkju og hátíðahöldum við ráðhúsið, sem vera áttu í gær, frestað. Þess í stað var haldin bænastund í kirkjunni.

Í hnotskurn
» Alls hafa nú 27 látist í umferðinni á árinu en á öllu árinu í fyrra létust 19 í 16 umferðarslysum.
» Eitt versta slysaárið á undanförnum áratugum var árið 2000 þegar 33 létust í umferðarslysum. Árið 1977 létust 37, og hafa aldrei látist fleiri í umferðinni á einu ári hér á landi.
» Á landinu öllu hafa 206 banaslys orðið í umferðinni frá árinu 1997 til dagsins í dag, skv. uppfærðum upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu. Á Suðurlandsvegi, milli Reykjavíkur og Selfoss, hafa 54 látist í umferðarslysum frá árinu 1973.