Samstarfsslit Upp úr samstarfi D- og B-lista slitnaði síðastliðinn föstudag.
Samstarfsslit Upp úr samstarfi D- og B-lista slitnaði síðastliðinn föstudag. — Morgunblaðið/Sigurður Jónsson
SJÁLFSTÆÐISMENN í Árborg sendu frá sér bréf sl. laugardag, í 3.500 eintökum, sem var borið í hvert hús í sveitarfélaginu. Þá samþykkti fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Árborg yfirlýsingu.

SJÁLFSTÆÐISMENN í Árborg sendu frá sér bréf sl. laugardag, í 3.500 eintökum, sem var borið í hvert hús í sveitarfélaginu. Þá samþykkti fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Árborg yfirlýsingu. Þórunn Jóna Hauksdóttir, bæjarfulltrúi D-lista, segir að sjálfstæðismenn í Árborg vilji virða vilja kjósenda eins og hann birtist í kosningaúrslitum á liðnu vori. Bæjarstjórn Framsóknarflokks og Samfylkingar hafi ekki haldið meirihluta og tapað þremur bæjarfulltrúum.

"Okkur þykir umhugsunarefni fyrir VG að vera í þessum viðræðum. Með því eru þeir að framlengja líf þessarar gömlu bæjarstjórnar. Einnig þykir okkur umhugsunarefni að Samfylkingin skuli ekki vilja ferskt samstarf, í ljósi þess að gömlu bæjarstjórninni var sagt upp," sagði Þórunn Jóna.

Yfirskrift bréfs sjálfstæðismanna er: Af hverju sleit B-listinn samstarfinu? Þar segir m.a. að raunveruleg ástæða ákvörðunar framsóknarmanna sé ágreiningur um skipulagsmál, launamál bæjarfulltrúa og trúnaðarbrestur.

"Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á fagleg vinnubrögð í skipulagsmálum og að vinna með hag íbúa að leiðarljósi. Þeir höfnuðu hugmyndum framsóknarmanna um stórfelldar launahækkanir bæjarfulltrúa og hlunnindagreiðslur til handa formönnum nefnda. Sjálfstæðismenn héldu trúnað í meirihlutasamstarfinu allt til loka, þegar fulltrúar B-lista Framsóknarflokks gengu gegn fyrri samþykkt meirihlutans á byggingar- og skipulagsnefndarfundi í gær."

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Árborg hélt fjölmennan fund á laugardag og sendi frá sér ályktun. Þar kemur m.a. fram að fundur fulltrúaráðsins harmi ákvörðun B-lista framsóknarmanna í Árborg um að slíta meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. "Uppgefnar ástæður B-listans eru ótrúverðugar og aðdragandinn þeim til minnkunar," segir m.a. í ályktuninni. "Þá voru áform B-listans um stórfelldar launahækkanir bæjarfulltrúa óásættanleg. Með þessu hefur verið gengið gegn vilja kjósenda og góðri stjórnsýslu.

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna lýsir síðan yfir eindregnum stuðningi við bæjarstjórnarflokk D-listans í Árborg."

Í hnotskurn
» Framsóknarmenn slitu meirihlutasamstarfi við sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Árborgar föstudaginn 1. desember síðastliðinn.
» Strax á föstudagskvöld hófust viðræður um myndun nýs meirihluta milli fulltrúa Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
» Í síðustu sveitarstjórnarkosningum fékk B-listi tvo fulltrúa, D-listi fjóra fulltrúa, S-listi tvo fulltrúa, og V-listi einn fulltrúa.