Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir
Það var fátt um pólitísk tíðindi í ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í fyrradag. Þó var ein setning í ræðunni, sem vekur sérstaka athygli.

Það var fátt um pólitísk tíðindi í ræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í fyrradag. Þó var ein setning í ræðunni, sem vekur sérstaka athygli. Hún var svohljóðandi:

Vandi Samfylkingarinnar liggur í því að kjósendur þora ekki að treysta þingflokknum - ekki ennþá, ekki hingað til."

Þetta er sérkennileg yfirlýsing frá formanni Samfylkingarinnar. Af hverju kveður hún upp úr með það svo afdráttarlaust, að kjósendur þori ekki að treysta þingflokki hennar?

Það er ekkert hik í þessari yfirlýsingu. Engar vangaveltur. Þetta er mjög afdráttarlaus yfirlýsing og afar erfið fyrir þingflokkinn og formann hans, Össur Skarphéðinsson, sem féll í formannskosningu í fyrra.

Er Ingibjörg að vísa til Össurar? Hann er talsmaður þingflokksins. Hann er andlit þingflokksins. Er þetta enn ein vísbending um, að djúp átök standi yfir á milli formanns flokksins og formanns þingflokksins?

Svo er auðvitað hugsanlegt að þessi afdráttarlausa yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar byggist á því, að hún hafi látið framkvæma leynilega skoðanakönnun fyrir sig eða flokkinn og út úr henni hafi komið að vandi Samfylkingarinnar sé að kjósendur treysti ekki þingflokknum.

Hafi formaður Samfylkingarinnar slíka skoðanakönnun til að byggja á þessa hiklausu og afdráttarlausu yfirlýsingu ber henni að opinbera hana. Boðar Ingibjörg Sólrún ekki lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð í stjórnmálum?