Hlýri Þessi skál hefur Arndís gert úr hlýraroði.
Hlýri Þessi skál hefur Arndís gert úr hlýraroði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Vesturgötu 4 hefur verið stunduð verslun allar götur frá því húsið var byggt árið 1888. Þar með er verslunin Kirsuberjatréð í einu elsta verslunarhúsnæði borgarinnar og er reyndar önnur verslunin sem þar hefur verið rekin.

Á Vesturgötu 4 hefur verið stunduð verslun allar götur frá því húsið var byggt árið 1888. Þar með er verslunin Kirsuberjatréð í einu elsta verslunarhúsnæði borgarinnar og er reyndar önnur verslunin sem þar hefur verið rekin. Kristján Guðlaugsson leit inn og hitti Arndísi Jóhannsdóttur að máli.

Kirsuberjatréð er ekki bara verslun, heldur líka samkomustaður handverksfólks og listamanna, sem allir standa framarlega í íslenskri hönnun.

Kirsuberjatréð er í eigu sex listamanna og hönnuða, en að rekstri verslunarinnar standa alls ellefu manns.

"Fyrrverandi eigendur tóku saman sögu hússins og hafa haldið henni mjög vel til haga, en ég hef svo reynt eftir mætti að halda þeirri sögu áfram og á ekki von á neinu öðru en að það verði framhald á því," segir Arndís.

Unnið úr ýmsum efnum

Listafólkið sem að búðinni stendur, vinnur úr ýmsum efnum. Sjálf vinnur Arndís úr hlýra-, lax- og karfaroði og þar kennir ýmissa grasa.

"Það nýjasta eru slaufurnar fyrir jólin. Þær eru unnar úr laxa- og hlýraroði, en annars hef ég unnið bæði lyklakippur, buddur, armbönd, skálar og gleraugnahylki, svo eitthvað sé nefnt," segir Arndís.

Hinir listamennirnir vinna úr öðrum efnum, bæði textíl, tré, leir og gleri.

"Við erum til dæmis með mjög skemmtilegar spiladósir, sem Margrét Guðnadóttir hefur búið til, en þær spila ýmist Vísur Vatnsenda-Rósu, Krummavísur eða Það á að gefa börnum brauð," segir Arndís.

Clinton keypti skál

Valdís Harrysdóttir býr til hluti úr hreðkum, pappír og grænmeti og þegar Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var hér í heimsókn um árið keypti hann eina slíka handa Hillary konu sinni.

"Páll Garðarsson tálgar og sker út í tré og notar trefjar og ýmis önnur efni, Unnur Knudsen Hilmarsdóttir vinnur í textíl og hið sama gera Anna Þóra Karlsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir, Ragna Fróðadóttir og Ásta Guðmundsdóttir."

Þá býr Hulda B. Ágústsdóttir til skartgripi úr ýmsum efnum, Kristín Sigfríður Garðarsdóttir vinnur í leir og gler og hið sama gerir Ólöf Erla Bjarnadóttir.

Í upprunalegu standi

Húsið sem Kirsuberjatréð er í var eins og áður sagði byggt 1888 og þar var starfrækt ritfanga- og leðurvöruverslun um langan aldur.

"Við leigðum svo húsið 1993 og keyptum það 1997. Það er mikil sál í þessu húsi og það hentar okkar starfsemi mjög vel," segir Arndís.

Ennþá er notast við sama búðarborðið og hillurnar eru einnig upprunalegar.

"Meira að segja peningakassinn og símarnir eru upprunalegir, þó þeir hafi að sjálfsögðu ekki verið hér frá 1888," segir Arndís.

Sjálf er hún lærður söðlasmiður, en söðlaði um og gerðist listamaður 1984.