Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon ritar um Elliheimilið Grund: "Það er greinilegt að starfsmenn tímaritsins með ritstjórann í fararbroddi þekkja það af langri reynslu að ósannindi og fleipur selja."

Í ÖÐRU og vonandi síðasta tölublaði Ísafoldar er með óvenju siðlausum hætti veist að starfsemi Grundar og starfsfólki þess auk þess sem gys er gert að vistmönnum. Sem samborgari og læknir sætti ég mig alls ekki við svo annarleg skrif.

Blaðakona ritsins ræður sig til starfa á fölskum forsendum við aðhlynningu aldraðra, augljóslega með því eina markmiði að ófrægja stofnunina. Þekkingarleysi blaðakonunnar um viðkomandi málefni verður henni fjötur um fót, þar er ekkert til sparað að reyna að gera mikið úr engu. Svo virðist helst sem starfsframi hennar hjá tímaritinu gæti verið í húfi. Enda virðist sem vanþekkingarfrásögn hennar eigi að vera einhverskonar framhaldssaga.

Það er greinilegt að starfsmenn tímaritsins með ritstjórann í fararbroddi þekkja það af langri reynslu að ósannindi og fleipur selja. Menn kaupa tímaritið vegna þessa og annað skiptir minna máli. Og mikið er í húfi því flestir spá því að þetta tímarit fari sömu leið og náskyldur ættingi þess, þ.e. DV sem alltaf reyndi að selja ósannindi. Ritstjórinn starfaði á því blaði á árum áður og kann greinilega ekki að breyta verklagi sínu. Ankannalegt höfuðfat verður honum ekki sem huliðshjálmur.

Það liggur í augum uppi að á elliheimili geta komið upp alvarleg heilsufarsvandamál vegna aldurs vistmanna sem erfitt getur verið að leysa innan stofnunarinnar án einhverra tafa. Þar geta m.a. ráðið önnur heilsufarsvandamál sem skert hafa lífsgæði viðkomandi. Aðgengi að Landspítala - háskólasjúkrahúsi sem glímir við skort á sjúkrarými og manneklu hjálpar þar ekki til. Vanþekking blaðakonunnar og einstakur tepruskapur er úr takti við allt sem lýtur að umönnun aldraðra. Henni finnst t.d. óþægilegt að sjá þvag. Þótt innsæið skorti tekst henni þó ómeðvitað að sýna lesendum að Elliheimilið Grund hefur mjög góðar verklagsreglur og enginn fær að starfa þar nema hafa fengið til þess viðeigandi þjálfun. Auðvitað var leitt að blaðakonunni var sleppt lausri um tíma til að meiða eldra heimilisfólk andlega, hönskum prýddri. Rógur hennar og tímaritsins er í raun alls ekki svara verður.

Ég hef verið nágranni Elliheimilisins Grundar sl. 16 ár og fylgst með þeim miklu umbótum sem þar hafa átt sér stað innan dyra sem utan. Líklega hefur "Eppimannaheimili" Þórbergs verið í fremstu röð slíkra stofnana þegar hann ritaði söguna "Sálmurinn um blómið" er gefin var út 1954. Það er mitt álit að Grund hafi með ótrúlegum hætti staðist tímans tönn og sé enn fremst meðal jafningja, þótt víðar sé mjög vel gert.

Á liðnum árum hefur orðið mikil breyting á vistarverum Grundar. Sameiginlegt rými innandyra og aðstaða starfsfólks hefur verið stórbætt, svo ekki sé minnst á aðgengi dvalargesta að lyftum og tengigöngum milli húsa. Þá má ekki láta hjá líða að nefna stórkostlegt skjólsælt útivistarsvæði sem byggt var upp á liðnu ári milli gömlu Grundar og þeirrar nýju. Þar situr gjarnan fjöldinn allur af glöðu eldra fólki þegar veður leyfir. Fimm ára sonur minn skynjar góða líðan og útgeislun þessa fólks og þegar vel viðrar biður hann gjarnan um leyfi til að fara til "gamla fólksins" sem er í um 50 metra fjarlægð frá heimili okkar. Þarna situr hann og spjallar við gamla fólkið sem gefur af sér til hans og hann vonandi líka til þess. Sjálfsagt eru margir sem ekki geta tekið þátt í slíkum samverustundum utandyra en þeim er örugglega sinnt af góðu starfsfólki Grundar eins vel og kostur er miðað við mögulegar aðstæður.

Það er vissulega rétt, sem fram kemur í greininni, að laun vegna aðhlynningar veikra og aldraðra eru til skammar. Þar verður ekki sakast við ráðamenn Grundar. Auðvitað er illt til þess að vita að blaðakonan þurfti að vera á jafn lágum launum og raun bar vitni meðan hún sat við "gagnaöflun" til að ófrægja sína vinnuveitendur í stað þess að veita öldruðum aðhlynningu. Gott er til þess að vita að hún var á sama tíma á launum hjá öðrum aðila. Hjá Ísafold fellur slíkt líklega ekki undir siðleysi. Þar kallast slík söluskrif rannsóknarblaðamennska þar sem allt er leyfilegt.

Í stað þess að kalla fram faglegar umræður um málefnið vekur slík grein einungis tortryggni meðal borgaranna. Hugsanleg umræða eyðist í sjálfumgleði blaðakonunnar og þörf ritstjórans til að sanna sig fyrir þeim sem hann eiga. Selja blað, selja, selja, selja hvað sem það kostar. Hið mannlega kemur málinu ekkert við!

Greinar af þessu tagi skaða alla en ekki síst aldraða sem njóta öldrunar- og umönnunarþjónustu um allt land. Því vil ég hvetja fólk til að sniðganga blaðamennsku af þessu tagi.

Höfundur er krabbameinslæknir