Gunnhildur Óskarsdóttir
Gunnhildur Óskarsdóttir
* GUNNHILDUR Óskarsdóttir kennslufræðingur og lektor við Kennaraháskóla Íslands, varði doktorsritgerð sína í uppeldis og menntunarfræði, 21. nóvember s.l.

* GUNNHILDUR Óskarsdóttir kennslufræðingur og lektor við Kennaraháskóla Íslands, varði doktorsritgerð sína í uppeldis og menntunarfræði, 21. nóvember s.l. Ritgerðin ber titilinn "The development of childrens' ideas about the body: How these ideas change in a teaching environment - Hugmyndir barna um mannslíkamann. Hvernig kennsla hefur áhrif á þróun hugmyndanna".

Aðalleiðbeinendur í verkefninu voru dr. Jón Torfi Jónasson prófessor og dr. Michael Reiss prófessor.

Andmælendur eru dr. Gustav Helldén, prófessor við háskólann í Kristianstad í Svíþjóð, sérfræðingur í kennslufræði náttúrufræðigreina og dr. Robert Lock, dósent við Birminghamháskóla á Englandi, sérfræðingur í kennslufræði náttúrufræðigreina.

Rannsóknin fjallar um hvernig og við hvaða aðstæður hugmyndir barna um mannslíkamann breytast á tveimur fyrstu árum grunnskólans. Varpað er ljósi á hugmyndir barna um útlit, staðsetningu og hlutverk beina og líffæra mannslíkamans og hvaða áhrif kennslan, kennsluaðferðir, námsefni, námsgögn og samskiptin í kennslustofunni hafa á þróun hugmyndanna. Skoðaður er sérstaklega munurinn á hæglátum börnum í bekknum og hinum, sem gjarnan vilja hafa frumkvæði og tjá sig, með tilliti til breytinga á hugmyndum og áhrifum kennslunnar og samskiptanna. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar á sér rætur í kenningum hugsmíðahyggju um nám og kennslu með áherslu á hvers konar virkni og samskipti eru forsendur náms. Niðurstöður leiddu í ljós að við lok rannsóknarinnar þekktu börnin frekar útlit, staðsetningu og hlutverk hinna ýmsu líffæra en síður hvernig þau tengjast, vinna saman og mynda líffærakerfi. Meltingarfærin voru eina líffærakerfið sem börnin almennt þekktu. Jafnframt sýndi rannsóknin hve mikilvægt er að nota fjölþætta mælikvarða til að meta þekkingu barnanna. Ólíkar kennsluaðferðir höfðu mismunandi áhrif á börnin sem undirstrikar mikilvægi þess að nota fjölbreyttar aðferðir í blönduðum bekk til að allir fái eitthvað við sitt hæfi. Rannsóknin sýnir einnig hve virkni nemendahópsins er mikilvæg og jafnframt að sýnileg virkni einstaklingsins er ekki góður mælikvarði á námsárangur. Hljóðlátu börnin sem tóku ekki þátt í umræðum og tjáðu ekki hugmyndir sínar munnlega lærðu ekki minna en þau sem tóku þátt í umræðum og voru sýnilega virkari.

Í doktorsnefnd eru: dr. Jón Torfi Jónasson, prófessor við Háskóla Íslands, dr. Michael Reiss, prófessor við Institute of Education, Lundúnaháskóla og dr. M. Allyson Macdonald, prófessor við Kennaraháskóla Íslands.

Rannsóknin var styrkt af Rannsóknarnámssjóði Rannís og Rannsóknarsjóði Kennaraháskóla Íslands.

Gunnhildur Óskarsdóttir er fædd 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð jólin 1978. B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1982. M.Ed. prófi frá Háskólanum í Aberdeen, Skotlandi 1989.

Foreldrar Gunnhildar eru Unnur Agnarsdóttir , (látin ) og Óskar H. Gunnarsson

Maki, dr. Arnór Þ. Sigfússon , fuglafræðingur og börn Óskar Örn, Ragnhildur Erna og Snorri Már .