London. AFP. | Tveir slökkviliðsmenn fórust þegar þeir börðust við að slökkva eld í flugeldaverksmiðju nálægt bænum Ringmer í Sussex í suðausturhluta Englands í gær. 12 manns til viðbótar voru fluttir á sjúkrahús af völdum brunasára og reykeitrunar.

London. AFP. | Tveir slökkviliðsmenn fórust þegar þeir börðust við að slökkva eld í flugeldaverksmiðju nálægt bænum Ringmer í Sussex í suðausturhluta Englands í gær. 12 manns til viðbótar voru fluttir á sjúkrahús af völdum brunasára og reykeitrunar. Sprengingar heyrðust enn á staðnum í gærkvöldi og höfðu íbúar í nálægum húsum verið fluttir á brott.

Breska ríkisútvarpið, BBC , hafði síðdegis í gær eftir John Winter, bróður eiganda flugeldaverksmiðjunnar, að slökkviliðsmenn hefðu gefist upp við að reyna að slökkva eldinn og ætluðu að láta hann brenna út. Hús í nágrenni verksmiðjunnar hefði eyðilagst og skemmdir orðið á öðrum byggingum vegna glers og flísa sem þeyttust á þær í sprengingum.

Verksmiðjan nefnist Festival Fireworks, hún er fjölskyldufyrirtæki og hafa þar unnið um 50 manns. Fyrirtækið framleiddi m.a. flugeldana sem notaðir voru til að fagna nýrri öld í Lundúnum.