[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í ársbyrjun 2004 hófu ÍAV uppbyggingu á nýjum þjónustuhúsum við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ) í Hveragerði. Um er að ræða raðhúsalengjur með fjórum eða fimm íbúðum í hverju raðhúsi.

Í ársbyrjun 2004 hófu ÍAV uppbyggingu á nýjum þjónustuhúsum við Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ) í Hveragerði. Um er að ræða raðhúsalengjur með fjórum eða fimm íbúðum í hverju raðhúsi. Íbúar húsanna hafa aðgang að margvíslegri þjónustu HNLFÍ. Húsin eru bæði smekkleg og vel hönnuð.

Einstök náttúra

Staðsetning þjónustuhúsanna við Lækjarbrún í Hveragerði býður upp á einstaka náttúru og veitir íbúum jafnframt aðgang að margvíslegri þjónustu Heilsustofnunar NLFÍ. Húsin eru byggð af Íslenskum aðalverktökum (ÍAV) og hönnuð af Hróbjarti Hróbjartssyni, arkitekt hjá VA-arkitektum. Fjölhönnun sáu um verkfræðihönnun, Rafteikning um raflagnahönnun og Landslag um lóðahönnun. Hönnunin tekur sérstakt mið af þörfum fólks sem orðið er 50 ára en hentar samt öllum aldurshópum. Þau eru staðsett steinsnar frá Heilsustofnun NLFÍ.

Allt á einni hæð

Húsin eru raðhús á einni hæð. Í eldhúsi nær horngluggi niður að gólfi sem setur skemmtilegan svip á húsin auk þess að hleypa mikilli birtu inn í þau. Útveggir eru klæddir litaðri álklæðningu. Gluggar eru álklæddir timburgluggar. Húsin þarfnast því mjög lítils viðhalds, sem óneitanlega er mikill kostur.

Að sögn ÍAV geta kaupendur valið milli fjögurra viðartegunda í hurðum og innréttingum. Í eldhúsi er keramikborð, blástursofn og gufugleypir með kolasíu. Heimilistæki eru frá AEG með burstaðri stáláferð.

"Innréttingar eru mjög vandaðar frá HTH með ljúflokunarbúnaði, en ÍAV mun að sjálfsögðu taka vel í óskir kaupanda ef hann vill hanna íbúðina eftir eigin höfði. Slíkar óskir þurfa þó að koma fram í tíma," segir Eyjólfur Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs ÍAV.

Glæsileg fullbúin hús

Að sögn Eyjólfs verða íbúðirnar afhentar fullbúnar með parketi á gólfum en flísum á anddyris- og þvottahúsgólfum, auk baðherbergja. Gólfhiti er í húsunum. Gegnt er út í garð bæði frá eldhúsi og stofu.

Inngangar raðhúsalengjanna snúa andspænis inngöngum húsanna á móti. Lögð var áhersla á með þessum hætti að mynda grenndareiningar, þannig að allir inngangar í húsin beggja vegna við gangstíginn snúi að stígnum. Með þessu geta íbúar frekar hist á leið í og úr húsunum og geta þá kastað kveðju hver á annan. Eins kemur þetta í veg fyrir að fólk einangrist í þjónustuhúsunum. Við raðhúsin eru skjólveggir sem tryggja ákveðið næði hverrar íbúðar auk þess að skýla fyrir veðri og vindum.

Vel frágengnar lóðir

Lóðin verður frágengin samkvæmt teikningu lóðarhönnuðar með snjóbræðslulögnum undir hluta hellulagðra göngustíga. Bílastæði verða malbikuð og afmörkuð með kantsteinum og merkt máluðum línum. Stígar og verandir verða hellulagðar og er mikið lagt upp úr lóðinni til dæmis með aukinni hellulögn, þar sem íbúar geta gengið á milli húsa og að Heilsustofnuninni á hellulögðum stígum. Lóð verður þökulögð og limgerði plantað við verandir.

Eyjólfur segir að þrjár stærðir séu í boði: 3ja herbergja íbúðir sem eru 111 fermetra, 3ja herbergja íbúðir sem eru 100 fermetra og 2ja herbergja, sem eru 86 fermetra.

Kaupendur fá aðgang að viðamikilli þjónustu HNFLÍ

Við kaup á þjónustuhúsum við Lækjarbrún gerast kaupendur aðilar að samningi við HNLFÍ þar sem þeir fá aðgang að viðamikilli þjónustu HNLFÍ gegn greiðslu mánaðarlegs grunngjalds. Sé dæmi tekið um hvað er innifalið í þessu samningi, þá er í hverju húsi öryggishnappur tengdur hjúkrunarvakt NFLÍ allan sólarhringinn með sérstöku öryggiskerfi. Einnig er í öllum húsum brunaviðvörunarkerfi þar sem reykskynjarar eru tengdir brunastöð HNLFÍ.

Mikil náttúrufegurð

Næturvarsla verður á svæðinu og farnar eftirlitsferðir um svæðið allan sólarhringinn. Séð er um slátt og umhirðu lóða, auk þess sem íbúar fá viðtöl við næringar- og íþróttafræðinga og aðgang að líkamsræktarsal. Kaupendur fá ákveðinn fjölda heilsubaða/leirbaða og partanudd árlega og aðgang að ýmsu innra starfi Heilsustofnunarinnar.

Mikið er lagt upp úr að hús og lóð verði frágengið með þeim hætti að íbúum líði vel í nálægð við náttúru og heilsurækt, þar sem möguleiki er að fá margvíslega þjónustu, sbr. þjónustusamning við HNLFÍ.

"Einn af stóru kostum íbúðanna er náttúrufegurðin í Hveragerði. Mikil friðsæld einkennir Lækjarbrúnina og eins nálægðin við hvers kyns þjónustu og heilsurækt. Fallegar gönguleiðir, golfvöllur, hesthús og margvísleg afþreying eru á svæðinu. Í Hveragerði geta menn notið kyrrðar smábæjarins og eru samt ekki nema stutta ökuferð frá ys og þys höfuðborgarsvæðisins. En náttúrufegurðin og kyrrðin gerir staðsetningu húsanna að sannkölluðum sælureit," segir Eyjólfur.

Húsin eru til sölu bæði hjá söludeild ÍAV og Fasteignasölunni Byr í Hveragerði.