Fundahöld Erlendur Ísfeld, þjálfari ÍR, hvatti sína menn af krafti, svo miklum að Hafsteinn Ingibergsson dómari varð að róa hann með brottvísun í tvær mínútur. ÍR-ingarnir Ragnar Helgason (4), Brynjar Steinarsson og Jón Heiðar Gunnarsson fylgjast með gangi mála.
Fundahöld Erlendur Ísfeld, þjálfari ÍR, hvatti sína menn af krafti, svo miklum að Hafsteinn Ingibergsson dómari varð að róa hann með brottvísun í tvær mínútur. ÍR-ingarnir Ragnar Helgason (4), Brynjar Steinarsson og Jón Heiðar Gunnarsson fylgjast með gangi mála. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VILJINN er allt sem þarf segir máltækið og það hentu ÍR-ingar á lofti í gærkvöldi, hættu aldrei að berjast og náðu loks að brjóta baráttu Akureyringa á bak aftur og sigra 34:28.

VILJINN er allt sem þarf segir máltækið og það hentu ÍR-ingar á lofti í gærkvöldi, hættu aldrei að berjast og náðu loks að brjóta baráttu Akureyringa á bak aftur og sigra 34:28. Þar með lauk 7 leikja taplotu en þeir eru eftir sem áður á botni úrvalsdeildarinnar. Norðanmenn geta sjálfum sér um kennt, mættu suður eins og þeir væru að fara í labbitúr og rönkuðu ekki við sér fyrr en á síðustu mínútu, sem var of seint og í stað þess að hanga í efstu liðum styttist í botnbaráttuna, sem býður þeirra með slíkum leik.

Eftir Stefán Stefánsson ste@mbl.is

Breiðhyltingar sýndu strax að þeir ætluðu að standa vörnina enda stóð fyrsta sókn gestanna yfir í tæpar tvær mínútur og heimamenn fengu tvö gul spjöld. Það dugði hinsvegar ekki til, því þó að Akureyringar væru ekki mjög líflegir tókst þeim samt að ná naumri forystu en þegar tvö hraðaupphlaup fóru í súginn sáu ÍR-ingar að þeir ættu möguleika og tókst að halda jöfnu. Þeir gleymdu sér hins vegar síðustu mínúturnar, klúðruðu sóknum sínum og leyfðu gestunum að skora auðveld mörk svo að þremur munaði í hálfleik, 18:15 fyrir Akureyri.

ÍR-ingar létu ekki slakan nokkurra mínútna kafla slá sig útaf laginu, skerptu enn meira á baráttunni, jafnvel þó að Akureyringar næðu aftur þriggja marka forystu þegar dómar voru ÍR óhagstæðir. Loks skilaði baráttan sér og fimm mörk í röð með ærnu erfiði dugðu til að ná 24:22 forystu um miðjan síðari hálfleik. Eitthvað reyndu Akureyringar að bæta sig en það dugði skammt því ÍR-ingar voru komnir á bragðið og sáu möguleika á sigri með baráttu. Forskot ÍR-inga varð mest 7 mörk þrátt fyrir að þeir væru mestan hluta leikmanni færri.

Þrautseigjan skilaði sér

Breiðhyltingar fundu sig ekki fyrir hlé, vissulega var barist en það dugir ekki eitt og sér heldur þarf að fara alla leið í sókn og vörn. Það gekk eftir hlé og þá fóru margir á kostum. Ólafur Sigurjónsson var öflugur og tæplega hægt að sjá að hann sé enn að ná sér eftir krossbandaaðgerð. Ragnar Helgason vaknaði í horninu auk þess að hann náði að halda niðri mótherja sínum í vörninni. Brynjar Steinarsson, Björgvin Hólmgeirsson og Davíð Georgsson áttu góða spretti. Sigurður Sigurðsson lokaði markinu á lokasprettinum og Hjörleifur Þórðarson var fastur fyrir í vörninni.

"Loksins er hægt að taka upp rakvélina," sagði Erlendur Ísfeld þjálfari ÍR eftir leikinn. "Það vex nú ekki skegg á nema þriðjungi liðsins og það var sett á okkur rakstursbann eftir tapið gegn Haukum og við höfðum þrjá möguleika á að komast undan því, annars hefðum við ekki mátt raka okkur fyrr en í febrúar. Ég er svo stoltur af strákunum, er ekki viss um að maður hefði sjálfur getað þetta í gamla daga því hausinn hefði verið farinn eftir sjö tapleiki."

Áhugaleysi

Það var ekki hægt að merkja að Akureyringar hefðu neitt gaman af handbolta en væru eingöngu mættir í Breiðholtið af því að þeir þyrftu að mæta. Eini leikmaðurinn sem eitthvað gerði var Andri Snær Stefánsson. Hann sýndi góð tilþrif fyrir hlé en síðan féll hann í meðalmennsku hjá félögum sínum.