Leiðari Ísland er skotspónn leiðarahöfundar Washington Post í gær.
Leiðari Ísland er skotspónn leiðarahöfundar Washington Post í gær.
BANDARÍSKA dagblaðið The Washington Post gagnrýndi í gær Íslendinga harkalega í leiðara fyrir að beita sér gegn banni við botnvörpuveiðum á úthöfunum. Fyrirsögn leiðarans er Blame Iceland (Varpið sökinni á Ísland).

BANDARÍSKA dagblaðið The Washington Post gagnrýndi í gær Íslendinga harkalega í leiðara fyrir að beita sér gegn banni við botnvörpuveiðum á úthöfunum. Fyrirsögn leiðarans er Blame Iceland (Varpið sökinni á Ísland). Sagt er að þar sem krafist sé algerrar einingar á slíkum fundum geti smáríki með "færri íbúa en Washington" komið í veg fyrir samþykkt tillagna sem byggist á heilbrigðri skynsemi og miði að verndun lífríkis á hafsbotni.

Leiðarinn rekur fyrst deilurnar um botnvörpuveiðar og meint tjón sem þær valdi, vörpurnar eyðileggi kóralla og nánast allt sem á vegi þeirra verði á botninum. "Í lögsögu Bandaríkjanna eru settar strangar takmarkanir við slíkum aðferðum - og þær bannaðar á afmörkuðum svæðum þar sem umhverfið er sérstaklega viðkvæmt. Hins vegar er gefið veiðileyfi á hvað sem er á botni mikils hluta úthafanna. Viðkvæmum lífríkjum er sundrað án þess að nokkur veiti því athygli. Stjórn Bush hefur, ásamt allmörgum öðrum ríkisstjórnum, þrýst á um að sett verði bann við eftirlitslausum botnvörpuveiðum á úthöfunum. Það mistókst í síðastliðnum mánuði, að hluta til vegna aðgerða Íslendinga."

Íslendingar beri ekki alla sökina, segir blaðið, Rússar, Japanar, Kínverjar og Suður-Kóreumenn hafi stutt þá. Sendiráð Íslands hafi sent frá sér yfirlýsingu þar sem harkalega sé andmælt fullyrðingum umhverfissamtaka um að Ísland hafi verið í fararbroddi þeirra sem vildu ekki banna botnvörpuveiðarnar. The Washington Post segir að þau mótmæli séu borin fram gegn betri vitund. "Á fundum bak við luktar dyr voru það Íslendingar, ásamt Rússum, sem beittu sér ákafast og af mestri hörku gegn róttækum aðgerðum [gegn veiðunum]," segir blaðið.

"Þar sem yfirleitt er krafist samhljóða niðurstöðu um hin fornaldarlegu lög um veiðar á úthöfunum geta jafnvel smáþjóðir sem taka algerlega siðlausa afstöðu gagnvart almenningsálitinu í heiminum þegar kemur að málefnum úthafanna komið í veg fyrir samkomulag. Niðurstaðan varð að þessu sinni loðin ályktun sem gekk mun skemmra en það sem ríkisstjórnin og samtök umhverfissinna vildu og er þetta uggvænlegt fyrir þá sem vilja vernda sjávarlíf á alþjóðlegum hafsvæðum."

Samferða stórum ríkjum

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir skrif blaðsins byggð á misskilningi. "Það sem er sérkennilegt við þennan leiðara er þessi tilraun til að reyna að stilla okkur Íslendingum upp sem málsvörum einstrengingslegra sjónarmiða þegar það blasir við að við vorum samferða stórum ríkjum og ríkjasamböndum, eins og Evrópusambandinu, í meginatriðum, þ.e. að allsherjar botnvörpubann á heilum hafsvæðum kæmi ekki til greina."