Varist Rakel Dögg Bragadóttir og Hrafnhildur Skúladóttir og félagar þeirra í íslenska landsliðinu eiga mikið verk fyrir höndum að komast í fremstu röð, að sögn Júlíusar Jónassonar landsliðsþjálfara. Íslenska landsliðið í handknattleik hafnaði í 3. sæti í Rúmeníu, vann tvo leiki en tapaði tveimur.
Varist Rakel Dögg Bragadóttir og Hrafnhildur Skúladóttir og félagar þeirra í íslenska landsliðinu eiga mikið verk fyrir höndum að komast í fremstu röð, að sögn Júlíusar Jónassonar landsliðsþjálfara. Íslenska landsliðið í handknattleik hafnaði í 3. sæti í Rúmeníu, vann tvo leiki en tapaði tveimur. — Morgunblaðið/Sverrir
ÍSLENSKA landsliðið í handknattleik kvenna hafnaði í 3. sæti í sínum riðli í undankeppni heimsmeistaramótsins sem lauk í Rúmeníu í gær og er þar með úr leik.

ÍSLENSKA landsliðið í handknattleik kvenna hafnaði í 3. sæti í sínum riðli í undankeppni heimsmeistaramótsins sem lauk í Rúmeníu í gær og er þar með úr leik. Ísland vann Ítalíu í lokaleiknum, 30:25, en tapaði fyrir Rúmeníu í fyrradag, 39:28, og þar með var draumurinn um sæti í næstu umferð undankeppninnar alveg úr sögunni. Lið heimakvenna stóð uppi sem sigurvegari en Rúmenar eiga afar sterkt kvennalandslið í handknattleik um þessar mundir sem m.a. tapaði naumlega í úrslitum heimsbikarkeppni landsliða fyrir hálfum mánuði.

Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is

Júlíus Jónasson landsliðsþjálfari sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að vitað hefði verið fyrir fram að við ramman reip yrði að draga þar sem rúmenska liðið væri sterkt. "Við áttum okkar spretti gegn Rúmenum en það er alveg ljóst að til þess að eiga möguleika gegn svo sterku liði verður einbeitingin að vera í lagi allan leiktímann. Sú var ekki raunin að þessu sinni," sagði Júlíus.

Portúgal hafnaði í öðru sæti í riðlinum eftir að hafa tapað fyrir Rúmeníu, 33:25, í úrslitaleik um efsta sætið. "Ef við hefðum unnið Portúgal og náð öðru sæti í riðlinum þá væri ég mun sáttari við niðurstöðuna af þessum fjórum leikjum," sagði Júlíus.

Fyrri hálfleikur arfaslakur

Fyrir leikinn í gær hafði ítalska liðið tapað öllum leikjum sínum í riðlinum og því snerist leikurinn fyrst og fremst um að leika fyrir stoltið. Íslenska liðið hafði unnið einn leik en tapað tveimur.

"Fyrri hálfleikur gegn Ítalíu var arfaslakur af okkar hálfu og að honum loknum vorum við tveimur mörkum undir, 12:14. Liðið var bara algjörlega andlaust. Leikin var 6/0 vörn og 3/2/1 og því miður gekk hvorugt varnarafbrigðið upp auk þess sem mörg dauðafæri fóru forgörðum," sagði Júlíus landsliðsþjálfari. "Síðari hálfleikur var mun betri. Við skoruðum þrjú fyrstu mörkin, komumst yfir og vorum yfir allt til leiksloka," sagði hann og bætti við að alveg hefði verið með ólíkindum sú þolinmæði sem ítalska liðið fékk hjá dómurunum til þess að spila. "Ég reikna með að íslenska liðið hafi staðið í vörn 80% af leiktímanum í síðari hálfleik. Af okkar hálfu var síðari hálfleikur mun betri en sá fyrri."

Júlíus sagðist vera óhress með framgöngu íslenska landsliðsins í síðasta leiknum. Þótt viðureignin hefði engu breytt um þá staðreynd að íslenska liðið var úr leik í undankeppninni þá væri mikilvægt að fara í alla leiki með það að markmiðið að vinna. "Því miður var þetta dæmigerður leikur íslenskra liða þegar ekki er mikið í húfi. Ég tók sjálfur þátt í nokkrum svona leikjum á sínum tíma sem leikmaður. Hér er um að ræða lokaleik í keppni gegn slökum andstæðingi sem átti að vinna með hangandi hendi. Ég hafði varað við þessu fyrir leikinn en samt féll liðið í þessa gryfju. Hvort þetta er séríslenskt fyrirbæri, að mæta til leiks með þessu hugarfari, veit ég ekki. Eftir þessa framgöngu líður mér ekki eins og sigurvegara," sagði Júlíus.

"Fyrst og fremst varð ég fyrir vonbrigðum með tapið á móti Portúgal. Þá lék íslenska liðið illa. Það lék mun betur á köflum gegn Rúmenum þótt þar væri um að ræða sterkara lið en það portúgalska.

Það er talsvert bil á milli okkar liðs og þeirra bestu," segir Júlíus sem stýrði nú íslenska landsliðinu í fyrsta sinn í keppni sem skiptir einhverju mála á alþjóðlegum vettvangi eftir að hafa tekið við starfi landsliðsþjálfara í haust.

Mikil vinna fram undan

"Við þurfum fyrst og fremst lengri tíma til þess að æfa saman og þann tíma vonast ég til að við fáum á næstu mánuðum. Stefnt er á að landsliðið komi saman á ný í febrúar og leiki þá leiki, annaðhvort heima eða heiman. Í vor ætla ég að kalla saman stóran hóp til æfinga í fimm eða sex vikur þar sem æft verður af fullum krafti og hópurinn byggður upp um leið og reynt verður að færa varnar- og sóknarleikinn til betri vegar en nú er," segir Júlíus Jónasson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.