Sigurhróp Wayne Rooney fagnar Darren Fletcher eftir að hann skoraði sigurmarkið gegn Middlesbrough, 2:1.
Sigurhróp Wayne Rooney fagnar Darren Fletcher eftir að hann skoraði sigurmarkið gegn Middlesbrough, 2:1. — Reuters
MANCHESTER United náði sex stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn með því að sigra Middlesbrough, 2:1, á útivelli. Leik Chelsea og Newcastle var frestað til 13.

MANCHESTER United náði sex stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardaginn með því að sigra Middlesbrough, 2:1, á útivelli. Leik Chelsea og Newcastle var frestað til 13. desember þannig að Englandsmeistarar Chelsea eiga leik til góða á United, sem nú er sextán stigum á undan liðunum í þriðja til sjötta sæti. Þar eru nú Arsenal og Liverpool eftir góða sigra á laugardaginn, ásamt nýliðum Reading og liði Portsmouth.

Louis Saha og Darren Fletcher skoruðu mörk United í Middlesbrough, Saha úr umdeildri vítaspyrnu. Fletcher skoraði sigurmarkið með skalla eftir sendingu frá Ryan Giggs, aðeins tveimur mínútum eftir að James Morrison hafði jafnað fyrir Middlesbrough.

"Þetta var einn erfiðasti leikur okkar í vetur og við þurftum að leggja mjög hart að okkur til að knýja fram sigur en ég tel að við höfum verðskuldað sigurinn. Við spilum vel um þessar mundir og ef við höldum okkar striki verðum við áfram á toppnum á endasprettinum í vor," sagði Wayne Rooney, sóknarmaður Manchester United.

Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, var ánægðastur með seigluna í sínum mönnum. "Það sýndi sig best þegar Middlesbrough jafnaði, þá gáfum við í og skoruðum strax aftur. Sigurviljinn var mikill og það réð úrslitum. Við höfum staðið okkur frábærlega í útileikjunum og höfum virkilega þurft á því að halda þar sem baráttan við Chelsea er afar tvísýn," sagði Ferguson.

Bellamy fór á kostum í Wigan

Liverpool hafði ekki unnið leik á útivelli og aðeins skorað eitt mark, úr vítaspyrnu í fyrstu umferð, fyrir heimsóknina til Wigan á laugardag. Stuðningsmenn liðsins trúðu ekki sínum eigin augum þegar þeirra menn fóru hamförum í fyrri hálfleik og skoruðu fjögur mörk - og þannig lauk leiknum, 4:0. Craig Bellamy var með á ný, laus úr réttarhöldum í Cardiff, og hann skoraði tvö fyrstu mörkin og lagði það þriðja upp.

"Leikurinn hefði getað endað 6:2 sem hefði verið betra fyrir alla aðila, nema markverðina. Við gáfum Wigan nokkur opin færi en fengum mörg færi sjálfir úr snöggum sóknum og þetta var skemmtilegt fyrir stuðningsmenn okkar. Við höfum skapað okkur færi í leikjum okkar en þurftum á því að halda að skora snemma, eins og okkur tókst að þessu sinni. Það var líka mikilvægt hve vel Alonso og Gerrard spiluðu á miðjunni og þeir Bellamy og Kuyt voru ótrúlegir í framlínunni, lögðu gífurlega hart að sér," sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool.

Töpuðum ekki út af vítaspyrnunum

Arsenal vann granna sína í Tottenham, 3:0, á Emirates-leikvanginum en þetta var fyrsti nágrannaslagur liðanna á hinum nýja heimavelli Arsenal. Emmanuel Adebayor kom Arsenal yfir og Gilberto Silva bætti við tveimur mörkum úr vítaspyrnu, sem báðar þóttu umdeildar.

Martin Jol, knattspyrnustjóri Tottenham, vildi samt ekki kenna Graham Poll dómara um hvernig fór. "Það má tala lengi um þessa vítaspyrnudóma og sennilega urðu þeir til þess að sigur Arsenal varð svona stór. En mér finnst varla við hæfi að ræða mikið um þá vegna þess að þeir orsökuðu ekki ósigur okkar því við spiluðum mjög illa," sagði Jol.

"Við sýndum réttan anda, styrk, ákveðni og gott skipulag gegn góðu liði Tottenham. Okkar menn voru svekktir vegna úrslita í síðustu leikjum og vissu að þeir þyrftu að leggja enn harðar að sér. Vítaspyrnurnar virtust réttmætar frá mínu sjónarhorni," sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal.

Í hnotskurn
» Manchester United vann Middlesbrough 2:1 og er með sex stiga forskot á Chelsea, sem lék ekki gegn Newcastle og á þann leik til góða.
» Liverpool vann sinn fyrsta sigur á útivelli í vetur og burstaði Wigan, 4.0, þar sem Craig Bellamy fór á kostum.
» Arsenal vann Tottenham 3:0 í slag nágrannanna í Norður-London og komst í þriðja sætið en Liverpool, Portsmouth og Reading eru með jafnmörg stig.