Þórdís Þormóðsdóttir
Þórdís Þormóðsdóttir
Þórdís Þormóðsdóttir skrifar opið bréf til landbúnaðarráðherra, með sérstakri kveðju til félagsmálaráðherra: "Það væri ekki amalegt að eiga að ráðamann sem þyldi jafn mikla önn fyrir fatlaða og þú fyrir iðkendur hestaíþrótta."

ÁGÆTI Guðni!

Til hamingju með reiðhallirnar sem nú stendur til að byggja "í hverju héraði". Allir vita að þú elskar íslensku dýrin og því eru áherslur þínar skiljanlegar og ljós umhyggjan fyrir hestum og hestamönnum. Svo heppilega vildi líka til að einhvers staðar leyndist sjóður og þessir fjármunir lágu og biðu þess að verða notaðir. Það er nú gott að hægt er að koma þeim í lóg svo þeir eyðist ekki upp í verðbólgunni. Hestaíþróttir eru frábærar og nýtast t.d. vel til forvarna fyrir æskuna auk þess veit ég að hugsunin er að fatlaðir geti nýtt þær til þjálfunar.

Óskandi væri að annar málaflokkur, sem ég ber mjög fyrir brjósti eftir 30 ára starf að honum, ætti sér slíkan talsmann. Að annar sjóður geymdi fjármuni sem biðu eftir að verða notaðir. Þar á ég við málefni fatlaðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra. Það væri ekki amalegt að eiga að ráðamann sem þyldi jafn mikla önn fyrir fatlaða og þú fyrir iðkendur hestaíþrótta. Þá væri heldur ekki þetta endalausa tómahljóð í Framkvæmdasjóðnum og ekki jafn mikil örvænting ríkjandi hjá fjölskyldum sem margar eru löngu búnar með allt sitt þrek og langþreyttar á úrræðaleysinu.

Ástandið á Suðurnesjum

Á Reykjanesi sunnan Straums, þar sem ég þekki best til, ríkir neyðarástand í búsetumálum fatlaðra og biðlisti er í skammtímavistun. Verið er að byggja nýtt hús fyrir skammtímavistunina.Takk fyrir það. Þar mun þó ekki fjölga úrræðum því núverandi húsnæði verður lagt niður um leið og það nýja verður tekið í notkun. Langur biðlisti er eftir búsetuúrræðum og ekkert í sjónmáli þrátt fyrir sára neyð. Fjármunir til úrræða eins og stuðningsfjölskyldu hafa oftast verið uppurnir um mitt ár, þ.e. fyrir nýjar umsóknir.

Hreppaflutningar

Fjórum fötluðum ungmennum af Suðurnesjum hefur verið komið fyrir í öðrum sveitarfélögum á síðustu árum, jafnvel í fjarlægum landsfjórðungi. Mér er kunnugt um að þeim líður öllum vel og búa við góðan aðbúnað hjá góðu fólki. En mér er jafn kunnugt um að fjölskyldur þeirra samþykktu þessar ráðstafanir nauðugar. Bæði vegna fjarlægðar frá fjölskyldunni og þess að það eru mannréttindi að fá að búa í heimabyggð og vera áfram hluti af samfélaginu sem alist var upp í. Þú verður að virða mér það til vorkunnar að kalla þessar ráðstafanir nútíma hreppaflutninga!

Dýrt velferðarsamfélag

Oft er talað um að málefni fatlaðra séu dýr málaflokkur. Það má finna því góð rök. En dýrt miðað við hvað? Ég vil leyfa mér að benda á að þroskaheftir eru ekki í þeim hópi sem notar háskólana, tekur námslán og þarf að láta byggja yfir sig námsmannaíbúðir. Þeir eru heldur ekki líklegir til að nota meðferðarstofnanir eða fangelsin o.s.frv. Allt dýr úrræði sem sparast. Það er líka dýrt að lækna ýmsa sjúkdóma en sem betur fer er þjóðarsátt um að veita þá meðferð sem helst er talin duga án þess að spurt sé um kostnaðinn.

Þrjátíu ára stríð

Fyrir rúmum 30 árum varð vakning meðal foreldra fatlaðra barna. Þeir hlýddu samvisku sinni og tilfinningum og neituðu að afsala sér börnum sínum til að láta þau alast upp á stórum ópersónulegum stofnunum. Þessir foreldrar lögðu nótt við dag allan ársins hring og spöruðu samfélaginu ómælda fjármuni með því að hafa börn sín heima við sem líkastar aðstæður og önnur börn. Þetta gera foreldrar að sjálfsögðu ennþá en enginn sá fyrir að lögum landsins yrði ekki framfylgt betur, þ.e. að fjármunir myndu ekki fylgja með í ríkara mæli en raun varð á. Margir foreldrar geta aldrei um frjálst höfuð strokið og sjá ekki fyrir sér að "geta dinglað sér í ellinni" svo vitnað sé í orð móður. Hvað þá að þeir geti "leyft sér að deyja" því hvað gerist ef foreldrar eru ekki lengur til staðar? Ætlast velferðarsamfélagið til að systkin, ef þau eru þá til staðar, taki þau til sín og eyði sinni elli í að annast þau þegar þeirra eigin börn eru flogin úr hreiðrinu? Er þetta það velferðarsamfélag sem við viljum sjá?

Ekki má skilja orð mín svo að ég telji ekkert hafa áunnist í málefnum fatlaðra þessi 30 ár. Það gengur bara svo sorglega hægt og hefur hvergi við þörfinni. Nýjustu fjárlög gefa enga von um breyttar áherslur.

Viðfangsefni en ekki vandamál

Fatlaðir eru ekki "vandamál". Vandamálið er að málefnum þeirra er ekki nægilega sinnt. Þeir eiga rétt á að á málum þeirra sé tekið sem "viðfangsefni" er beri að leysa. Ekki á grundvelli manngæsku, ölmusu, aumingjagæsku eða annarra slíkra viðhorfa. Heldur sem eðlilegra og sjálfsagðra mannréttinda í þjóðfélagi með hátt menningarstig og háar þjóðartekjur.

Þessi skrif mín eru ekki árás á hestamenn eða hestaíþróttir eða öfund vegna áherslna þinna. Þetta snýst um gildismat, forgang og áherslur þeirra sem ráða fjárframlögum til hinna ýmsu málaflokka. Þú mátt því gjarnan gera mér þann greiða að gerast nú talsmaður fatlaðra og skila um leið sérstakri kveðju til félagsmálaráðherra. Segja honum frá þeim vanda sem við búum við hér á Suðurnesjum og hvetja hann til að leggja sams konar umhyggju og áherslu á málefni fatlaðra og þú hefur sýnt í málum hestamanna. Við hér á Suðurnesjum erum tilbúin að upplýsa hann frekar ef hann hefur ekki frétt af ástandinu hér.

Baráttukveðjur.

Höfundur er félagsráðgjafi og starfar sem foreldraráðgjafi hjá Þroskahjálp á Suðurnesjum.