Undir körfunni Nemanja Sovic hjá Fjölni reynir að stöðva Igor Beljanski hjá Njarðvík í leiknum í gærkvöld.
Undir körfunni Nemanja Sovic hjá Fjölni reynir að stöðva Igor Beljanski hjá Njarðvík í leiknum í gærkvöld. — Ljósmynd/Víkurfréttir
NEÐSTA liðið í úrvalsdeildinni í körfuknattleik, Hamar/Selfoss, gerði sér lítið fyrir og sigraði toppliðið, KR, á sannfærandi hátt, 83:69, í Hveragerði í gærkvöld.

NEÐSTA liðið í úrvalsdeildinni í körfuknattleik, Hamar/Selfoss, gerði sér lítið fyrir og sigraði toppliðið, KR, á sannfærandi hátt, 83:69, í Hveragerði í gærkvöld. Austanmenn höfðu aðeins unnið einn af fyrstu átta leikjum sínum í deildinni en KR-ingar hins vegar unnið sjö af fyrstu átta og úrslitin því sannarlega óvænt.

Eftir Víði Sigurðsson, Björn Björnsson og Davíð Pál Viðarsson

Lið Hamars/Selfoss hefur þó verið að sækja í sig veðrið að undanförnu og sýndi það gegn Snæfelli á dögunum þar sem það var óheppið að bíða lægri hlut.

"Ég hef verið að segja við strákana að við séum með besta botnliðið á Íslandi í dag og ætli við höfum bara ekki sannað það í kvöld. Við erum á uppleið, reyndar að hluta til vegna þess hve illa við byrjuðum, en við þurftum að skipta um erlendan leikmann í byrjun móts og þar með breyta öllu okkar leikskipulagi. Snæfellingar stálu sigrinum á móti okkur um daginn en við gáfum KR ekki möguleika á því í kvöld. Eflaust hafa þeir ekki búist við okkur svona öflugum en ætli þetta sé ekki okkar besti leikur í vetur, bæði í sókn og vörn," sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars/Selfoss, við Morgunblaðið eftir leikinn.

Með þessum úrslitum er komin sú ótrúlega staða að sex neðri liðin í deildinni eru öll jöfn, með fjögur stig hvert. "Já, ef einhvern tíma er hægt að tala um tvískipta deild, þá er það núna. Enda sagði ég við strákana fyrir leik að þó við værum neðstir þyrftum við bara tvo sigurleiki til að vera á leið í úrslitakeppnina. En öll liðin í neðri hlutanum eru vel mönnuð og allir ætla sér meira, en við höldum ótrauðir áfram," sagði Pétur Ingvarsson.

Hallgrímur Brynjólfsson skoraði mest fyrir Hamar/Selfoss, 17 stig, og George Byrd skoraði 15 stig og tók 14 fráköst. Tyson Patterson skoraði 18 stig fyrir KR-inga og Fannar Ólafsson tók 12 fráköst.

Keflavík stakk af í fjórða leikhluta á Sauðárkróki

Áhorfendur fengu að sjá þrjá skemmtilega leikhluta í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki í gærkvöldi, þegar Tindastólsmenn fengu Keflvíkinga í heimsókn. Að þeim loknum var Tindastóll yfir, 70:68, en Keflavík gerði út um leikinn í fjórða leikhluta og vann fimmtán stiga sigur, 98:83.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta hluta leiksins, en áður en kom að hálfleik höfðu gestirnir náð undirtökunum og leiddu með níu stigum. Heimamenn komu mjög grimmir til leiks og á skömmum tíma náðu þeir að saxa niður forskotið, og komust mest sjö stigum yfir, en með góðri vörn náðu Keflvíkingar að minnka muninn í tvö stig fyrir síðasta hluta. En í síðasta hluta leiks, eftir að hafa unnið þriðja hlutann með níu stigum, virtust heimamenn hreinlega búnir, og nú kom líka til langbesti maður vallarins Sverrir Þór Sverrisson, sem var allt í öllu og stjórnaði leik sinna manna, náði að loka vörninni og fá menn til að tala saman, auk þess að skora sjálfur níu stig, og var þá ekki að sökum að spyrja að gestirnir innbyrtu góðan fimmtán stiga sigur.

Kári Marísson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, sagðist vera ánægður með þrjá leikhluta. "Svo fór einbeitingin og þá töpuðum við leiknum. Það var eins og leikmennirnir þekktu ekki hver annan, og þetta er ekki í fyrsta skiptið sem andstæðingarnir skella á okkur stífri svæðisvörn og við eigum ekkert svar við henni. Það er ekki ásættanlegt að vera búnir að spila mjög góðan leik, því að það getum við vissulega, en missa svona algerlega tökin og láta alla baráttu lönd og leið," sagði Kári.

Besti maður vallarins, Keflvíkingurinn Sverrir Þór Sverrisson, var að vonum ánægður í leikslok. "Við spiluðum vel, en náðum ekki að skapa okkur nægilegt forskot, svo misstum við einbeitinguna í vörninni í þriðja hlutanum og þeir komust inn í leikinn og yfir. Í seinasta hlutanum gáfum við í, við spiluðum mjög grimma vörn, létum boltann ganga vel og fengum auðveldar körfur. Þessi sigur var okkur mjög mikilvægur, okkur hefur ekkert gengið alltof vel í deildinni til þessa svo að hér náðum við okkur í dýrmæt stig," sagði Sverrir Þór Sverrisson.

Loks unnu Njarðvíkingar á ný

Njarðvík sigraði lið Fjölnis, 96:82, og þar með lauk sjö leikja taphrinu Njarðvíkinga. Jóhann Árni Ólafsson átti góðan leik á lokamínútunum og bjargaði Njarðvíkingum fyrir horn því leikurinn var búinn að vera í járnum nær allan tímann.

Njarðvíkingar byrjuðu af miklum krafti og náðu 11:2 forystu. Þeir spiluðu pressuvörn og var mikill kraftur og áræði í þeirra leik. Það virðist alltaf vera þannig að þegar Halldór Karlsson og Jóhann Ólafsson, leikmenn Njarðvíkur, eru með þá myndast meiri læti og barátta í leik liðsins. Fjölnismenn voru þó aldrei langt undan. Árni Ragnarsson og Nemjana Sovic, leikmenn Fjölnis, léku mjög vel og héldu sínu liði inni í leiknum.

Þegar Fjölnismenn náðu að komast betur inn í leikinn virtist koma smávegis hikst í leik Njarðvíkinga og fóru þeir að vera ragir í sókninni.

Fjölnismenn náðu þó aldrei að komast yfir, mest náðu þeir að minnka muninn í eitt stig en lengra komust þeir ekki.

Jóhann Árni Ólafsson spilaði mjög vel fyrir Njarðvík á lokamínútunum en hann skoraði sex stig og gaf þrjár stoðsendingar og komust þá Njarðvíkingar í vænlega stöðu, 88:77. Þeir hleyptu Fjölnismönnum ekki aftur í takt við leikinn og sigruðu, 96:82.

Bestu menn vallarins voru þeir Nemjana Sovic hjá Fjölni sem skoraði 31 stig og tók 7 fráköst og Jeb Ivey hjá Njarðvík sem skoraði 22 stig og tók 5 fráköst og gaf 8 stoðsendingar gegn sínum gömlu félögum í Fjölni.

"Það er gott að vera loksins búnir landa sigri. Við höfðum ekki spilað á heimavelli í mánuð. Fjölnismenn voru frískir og hittu vel og þá sérstaklega Nemjana Sovic. Það var viss þreyta í okkur eftir erfiðan leik á föstudag. Mér fannst samt sigur okkar aldrei vera í hættu, þrátt fyrir hikst á köflum í þessum leik," sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, við Morgunblaðið.

Skallagrímur á toppinn

Skallagrímur úr Borgarnesi komst í toppsæti úrvalsdeildarinnar í gærkvöld með því að vinna öruggan sigur á nýliðum Þórs í Þorlákshöfn, 98:80.

Borgnesingar voru með yfirhöndina allan tímann. Þeir voru yfir í hálfleik, 46:37, og gerðu út um leikinn í þriðja leikhluta en að honum loknum skildu 25 stig liðin.

Pétur Már Sigurðsson skoraði grimmt fyrir Borgnesinga, 26 stig, þó hann spilaði aðeins í 20 mínútur. Darrel Flake skoraði 19 stig og tók 16 fráköst. Damon Bailey skoraði 23 stig fyrir Þórsara og Robert Hodgson 15.