Miroslav Klose
Miroslav Klose
WERDER Bremen komst um helgina í toppsætið í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu, á besta tíma fyrir leikinn mikilvæga gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í vikunni.

WERDER Bremen komst um helgina í toppsætið í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu, á besta tíma fyrir leikinn mikilvæga gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu í vikunni. Bremen vann góðan sigur á Herthu Berlín, 3:1, en Schalke, sem var efst fyrir helgina varð að sætta sig við markalaust jafntefli í Nürnberg í gær. Sama er að segja af Stuttgart sem náði einungis markalausu jafntefli gegn botnliðinu Mainz og er tveimur stigum á eftir hinum tveimur.

Miroslav Klose var í aðalhlutverki hjá Bremen, einu sinni sem oftar, en hann skoraði tvö marka liðsins gegn Herthu.

Bayern München átti möguleika á að komast uppfyrir Stuttgart og í þriðja sætið en varð að gera sér að góðu jafntefli á heimavelli, 1:1, gegn Borussia Mönchengladbach. Martin Demichelis kom Bayern yfir en Michael Delura jafnaði metin fyrir Gladbach.

Enn gengur allt á afturfótunum hjá Hamburger SV sem nú tapaði fyrir Bochum í botnslag, 2:1, og situr eftir í næstneðsta sæti deildarinnar.