[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tveir leikmanna ítalska knattspyrnuliðsins AC Milan , þeir Alessandro Nesta og Serginho , þurfa að gangast undir aðgerðir vegna meiðsla. Nesta á öxl og Serginho á baki.

Tveir leikmanna ítalska knattspyrnuliðsins AC Milan , þeir Alessandro Nesta og Serginho , þurfa að gangast undir aðgerðir vegna meiðsla. Nesta á öxl og Serginho á baki. Nesta verður frá keppni í þrjá mánuði en útlit er fyrir að Serginho leiki ekki meira á þessu tímabili. Þetta er mikið áfall fyrir Carlo Ancelotti þjálfara og félagið en AC Milan hefur átt í miklum vandræðum vegna meiðsla lykilmanna í vetur. Leikmenn á borð við Gennaro Gattuso, Alessandro Costacurta og Cafu hafa misst úr af þeim sökum.

AC Milan, sem gerði jafntefli við Cagliari um helgina, 2:2, hefur aðeins fagnað fimm sigrum í fjórtán leikjum. Átta mínusstigin sem liðið hóf keppni með í haust bæta ekki úr skák og þýða að liðið hangir rétt fyrir ofan fallsvæði deildarinnar.

Fiorentina , sem hóf keppni með 15 stig í mínus, lagði Lazio , 1:0, með marki frá Luca Toni . Þar með vantar Flórensbúana aðeins eitt stig til að komast úr fallsæti en ef refsistigin hefðu ekki komið til sætu þeir nú í fjórða sæti A-deildarinnar.

Inter Mílanó vann á laugardagskvöldið sinn ellefta sigur í röð í deild og bikar í ítölsku knattspyrnunni, 2:0 gegn Siena . Inter er með fjögurra stiga forskot á Roma sem vann Atalanta , 2:1. Það voru Argentínumennirnir Nicolas Burdisso og Hernan Crespo sem skoruðu mörkin fyrir Inter. Í Róm var það hinsvegar Francesco Totti sem tryggði sínu liði sigur með tveimur mörkum úr vítaspyrnum.

Falkirk vann óvæntan og allsögulegan sigur á Rangers , 1:0, í skosku úrvalsdeildinni í gær. Síðast þegar Falkirk lagði Rangers að velli, árið 1971, voru Alex Ferguson, núverandi knattspyrnustjóri Manchester United , og Andy Roxburgh , fyrrum landsliðsþjálfari Skota, í fremstu víglínu hjá liðinu. Þeir eru nú báðir á sjötugsaldri. Þessi úrslit þýða að Celtic er komið með sextán stiga forystu í deildinni og á skoska meistaratitilinn næsta vísan þó langt sé til vorsins.

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Sylvinho hefur framlengt samning sinn við Barcelona til næstu tveggja ára. Sylvinho er 32 ára gamall og lék með Arsenal um tveggja ára skeið, frá 1999 til 2001, en síðan með Celta Vigo í þrjú ár áður en hann gekk til liðs við Katalóníuliðið.

Gilberto , sem er fyrirliði Arsenal í fjarveru Thierry Henry, segir að leikur liðsins gegn Porto í Meistaradeild Evrópu í Portúgal á miðvikudaginn, sé þýðingarmesti leikur Arsenal á keppnistímabilinu. "Við eigum erfitt verkefni fyrir höndum og tap gegn Porto þýðir að við erum úr leik í meistaradeildinni. Það reynir því mikið á leikmenn Arsenal. Sigurinn gegn Tottenham á laugardaginn hjálpar okkur mikið og sjálfstraustið er meira í hópnum eftir hann," sagði Gilberto .