KRISTJÁNI Halldórssyni, þjálfara Stjörnunnar, var augljóslega mjög létt eftir sigurinn á HK í Digranesi í gær. "Við byrjuðum mjög vel en svo fórum við að hnoðast of mikið í sóknarleiknum.

KRISTJÁNI Halldórssyni, þjálfara Stjörnunnar, var augljóslega mjög létt eftir sigurinn á HK í Digranesi í gær. "Við byrjuðum mjög vel en svo fórum við að hnoðast of mikið í sóknarleiknum. Við reyndum að fara vel yfir það í hálfleik og sóknarleikurinn gekk betur á lokakaflanum þegar Elías Halldórsson fór í skyttustöðuna. Það verður þó að geta þess að HK saknaði hins rússneska línumanns síns, sem er að mínu mati besti línumaður í deildinni og lykilmaður í varnarleik liðs þeirra.

Mér tókst að telja mínum leikmönnum trú um að við gætum unnið HK þegar hans nyti ekki við. Brendan Þorvaldssyni tókst þó að fylla skarð hans vel," sagði Kristján en í hans raðir vantaði þá Patrek Jóhannsson og Ólaf Víði Ólafsson, fyrrverandi HK-mann, auk þess sem Tite Kalandadze glímir við meiðsli eins og svo oft áður.

Spurður um varnarleikinn svaraði Kristján því til að Roland Eradze ætti þar stóran hlut að máli: "Roland heldur varnarmönnum á tánum því hann er grimmur að tuða í þeim þegar þeir standa sig ekki. Ég hef leyft honum að koma að varnarvinnunni með mér og samvinnan á milli hans og varnarinnar er góð," sagði Kristján Halldórsson sem neitaði því ekki að hafa lagst vel yfir leik HK-liðsins fyrir þennan leik.