Bjarni Bernharður
Bjarni Bernharður
Eftir Bjarna Bernharð Bjarnason. Deus - 2006. Endurskoðuð útgáfa - 45 bls.

TVENNT einkennir ljóðabók Bjarna Bernharðs, Ljósbogann. Annars vegar eru örstutt ljóð um lífið, tilveruna og kannski allra helst óskina um fegurra mannlíf en hins vegar prósaljóð eða örsögur sem eru eins konar svipleiftur úr lífi persóna.

Óskin er sterk í þessari bók, óskin um að draumi sé bylt í veruleik og í henni er einnig heit ósk um friðþægingu. Stuttu ljóðin einkennast einna helst af einföldu myndmáli. Sannast sagna náði ég ekki alltaf sambandi við myndheim skáldsins, eitthvert sambandsleysi milli skálds og lesara. Sum ljóðin eru í mínum huga eins og hálfkveðnar vísur bæði í yfirfærðri merkingu en einnig í reyndinni. Það er eins og það vanti eitthvað í þau. Á milli eru þó góð ljóð þar sem myndmálið gengur upp. Ég nefni ljóðið Fortíðin sem er eins einfalt og verið getur en miðlar jafnframt hafsjó af tilfinningum:

Fortíðin er lind

sem ég staldra við

þar er greypt í mynd

tál æskumannsins.

Ég óska þess einlægt

að mega dýfa hendinni

og gára vatnið.

Ætli þeir séu ekki margir sem beri þá ósk í brjósti.

Prósaljóðin eða örsögurnar eru nokkuð góðar. Þær hverfast um persónu eða atburð, maður nær drukknun sér land, stúlka af týndri kynslóð lifir án þurftagirni og tilætlunarsemi svo að eitthvað sé nefnt og svo eru sum hver vangaveltur um tilveruna.

Þó að varla verði gerð sú krafa til ljóðabóka að þær myndi heild hvað varðar byggingu og efni finnst mér samt eitthvað þurfa til að binda slíkar bækur saman. Þótt ljóðakverið beri nafnið Ljósboginn og eitthvað sé um ljósið fjallað í bókinni finnst mér hún, eins og skáldskapurinn, dálítið sundurlaus. Þetta er engan veginn besta bók Bjarna til þessa en þó er að finna í henni einstök góð ljóð.

Skafti Þ. Halldórsson