Guðrún Elsa Kristjánsdóttir fæddist í Alviðru í Dýrafirði hinn 8. mars 1937. Hún andaðist á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi laugardaginn 25. nóvember síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Blönduósskirkju 2. desember.

Elsku amma, það er með söknuði sem ég skrifa þessa minningargrein. En ég veit að þér líður vel í dag. Ég var að tala við afa í símann í gær og við vorum að ræða málin og þá var ég einmitt að segja honum hversu mikið þið hafið kennt mér. Í öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur þá hef ég horft til ykkar. Elsku amma, ég man hversu stoltur ég var í hvert skipti sem einhver sagði við mig hversu fallega ömmu ég ætti. Fyrir mér varstu allra glæsilegasta kona sem ég hafði augum litið. Hugsaðir alltaf svo vel um þig, varst dugleg að hreyfa þig, rækta sálina og borðaðir alltaf svo hollan mat. Það var enginn sem sauð betri ýsu og kartöflur en þú, svo ekki sé nú minnst á jólamatinn. Að vera hjá þér og afa um jólin var það allra skemmtilegasta sem ég gerði. Ég man að ég grét í hvert skipti sem ég fór aftur heim. Það verður skrítið að fara norður á Húnabrautina og engin amma til að taka á móti okkur. Þú munt þó alltaf verða við hlið afa. Þið voruð alltaf svo sæt og samrýnd og þið voruð svo mikið skotin hvort í öðru. Það var hreint yndislegt að sjá hversu mikið þið nutuð samvistanna. Eins og afi sagði við mig: Við ætluðum að eiga svo mörg ár saman í viðbót, ferðast og njóta okkar. En við ráðum ekki við lífsins gang og veikindi geta herjað á okkur öll. Þú varst búin að berjast við krabbameinið lengi og baráttan var mjög svo erfið síðustu mánuðina en þú varst alltaf sterk og miklu sterkari en við sem fylgdumst með þér.

Elsku fallega amma, sendum þér kossa og faðmlög úr Mosó.

Elsku afi, megi Guð senda þér styrk á þessum erfiðu tímum. Við vitum að amma er með okkur og það styrkir okkur í sorginni.

Arnaldur Birgir, Linda og fjölskyldan í Mosfellsbænum.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Kæra vinkona og amma, takk fyrir allar góðu minningarnar.

Grímur og Ronja María.

Það er komið að kveðjustund og margs er að minnast hjá starfsfólki Barnabæjar sem vann með Gurru öll þessi ár. Gurra vann í leikskólanum Barnabæ á Blönduósi frá árinu 1992 til ársins 2004. Til að byrja með vann hún með börnunum, tók síðan við eldhúsinu í nokkur ár, var frá vegna veikinda um tíma en kom svo aftur til vinnu með börnunum og hætti í mars 2004.

Hún var elst í starfshópnum, amma okkar allra, bæði barna og starfsfólks. Okkur fannst skemmtilegt þegar Hallbjörn kom að sækja hana í vinnuna og börnin kölluðu til hennar: "Gurra, Gurra, pabbi þinn er kominn að sækja þig!" Henni fannst það heldur ekki leiðinlegt!

Gurra var glæsileg kona og við sem störfuðum með henni dáðumst alltaf að því hvað hún var snyrtileg og fín, hvort sem það var í málningarvinnu með börnunum eða í eldhúsinu yfir pottunum. Við fengum stundum að heyra það í góðlátlegu gríni að tími væri til kominn að henda kvennahlaupsbolunum og flíspeysunum!

Maturinn var alltaf góður og snyrtilega fram borinn og teljum við víst að mörg börn á Blönduósi muni eftir Gurru og góða matnum hennar þótt þau séu löngu hætt í leikskólanum.

Hún hugsaði einnig vel um okkur starfsfólkið. Hún var sífellt að gefa okkur góð húsráð enda fyrirmyndarhúsmóðir. Gurra var kjarnyrt kona að vestan og kom hingað á Blönduós í Kvennaskólann löngu áður en við kynntumst henni.

Þar sem uppeldismál voru oft til umræðu innan leikskólans var gaman að því þegar hún tók til máls og hafði sínar skoðanir. Hennar skoðun var sú að þetta væri allt í genunum og ekkert öðruvísi, hvort sem það var ættarskapið eða ættarsvipmótið. "Hann eða hún er nú með skapið hans afa síns," heyrðist stundum sagt og nefndi hún þá einhverja ákveðna ætt sem við þekktum kannski ekki. Hún hafði margt til síns máls.

Far þú í friði.

Við vottum Hallbirni, börnum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Samstarfskonur á Barnabæ.

Kveðjustundir eru alltaf erfiðar, og að kveðja hana Gurru vinkonu okkar er afar erfitt og eitthvað svo óraunverulegt að hún skuli farin héðan úr þessu lífi. Ég man þegar við hittumst fyrst, það var vorið 1962. Fróðaliðið hafði farið á Húnavökuball saman eins og svo oft, og Gurra og Hallbjörn buðu okkur Ara heim á eftir í kaffisopa og spjall. Þegar við svo komum á Húnabrautina biðu þar þrír litlir glaðvakandi englar, þriggja, fjögurra og fimm ára, eftir mömmu og pabba svo kaffispjallið fór í að gantast við börnin og koma þeim í svefn. Þetta voru okkar fyrstu kynni sem þróuðust svo í vináttu sem staðið hefur síðan.

Fyrstu tvö árin okkar Ara saman bjuggum við á heimili þeirra og kynntumst vel þeim hjónum og börnunum sem þá voru fædd. Oft sátum við Gurra og spjölluðum þegar karlarnir okkar voru að vinna á kvöldin, hún að lagfæra einhverjar flíkur af fjölskyldunni og ég með handavinnu. Þá var nú margt rætt. Þannig voru þessi fyrstu ár okkar kynna stúss í kringum börnin og heimilin. Alltaf var jafn fínt hjá henni, oft var það mikil vinna með líflega krakka og mikinn gestagang að halda öllu alltaf svona hreinu og fínu, en þetta var henni algjörlega eðlislægt og hefði aldrei komið til að hún léti heimilið ekki ganga fyrir öllu öðru. Þá var ekki hægt að fara út í búð og kaupa alla hluti eins og t.d. föt á börnin og sjálfa sig heldur var saumað heima nánast allt sem þurfti og þar kom snilligáfa Gurru best fram. Hún var algjör snillingur að sauma, hvort sem voru fínustu jólakjólar eða jakkaföt á strákana. Allt lék þetta í höndunum á henni. Ég naut þeirra forréttinda að fá hjálp frá Gurru þegar kom að mér að fara að sauma á börnin mín, hún sagði mér hvað ég ætti að kaupa mikið efni og þegar það var komið hjálpaði hún mér að sníða og síðan ótal ferðir á meðan á saumaskapnum stóð til að láta hana yfirlíta. Oft sá ég sjálf að ekki fór flíkin nógu vel en hvað var að gat ég ekki séð. Þá þurfti ekki annað en sýna Gurru og vandamálið var leyst því hún sá strax hvað var að.

Við gættum barna hvor annarrar þegar á þurfti að halda; ég gætti hennar barna og þegar dóttir hennar stækkaði svolítið passaði hún fyrir mig og þegar svo mín dóttir óx svolítið passaði hún barnabörnin hennar Gurru. Þannig höfum við alltaf verið mikið samvistum hvor við aðra.

Eftir að þau eignuðust bíl buðu þau hjónin okkur stundum með í bíltúra. Út á Skaga eða fram í Vatnsdal o.s.frv. Það voru skemmtilegar ferðir, oft stoppað til að skoða sig um, slappa af og leyfa krökkunum að hlaupa.

Þetta voru góðir dagar, sem við minntumst oft þegar við hittumst. Gurra talaði oft um æskustöðvarnar kæru í Dýrafirði og lýsti öllu þar, lýsti því svo vel að þegar við fórum þangað ekki alls fyrir löngu lá við að ég þekkti umhverfið.

Við Ari kveðjum Gurru með virðingu og þökk fyrir áratuga góða vináttu og biðjum guð að styðja og styrkja fjölskyldu hennar á þessum erfiðu sorgarstundum. Megi minningarnar lýsa þeim veginn til framtíðar.

Halla.