Farsíminn er orðinn eins og hvert annað viðhengi Víkverja dagsins eins og þorra þjóðarinnar og má vafalaust deila um hvort það sé heppileg þróun. En nýlega fór Víkverji í nokkurra vikna ferð til Alsír og Túnis.

Farsíminn er orðinn eins og hvert annað viðhengi Víkverja dagsins eins og þorra þjóðarinnar og má vafalaust deila um hvort það sé heppileg þróun. En nýlega fór Víkverji í nokkurra vikna ferð til Alsír og Túnis. Til vonar og vara hafði hann áður samband við Símann til að fá það á hreint hvort fyrirtækið væri með reikisamninga við samsvarandi fyrirtæki í þessum löndum. Honum var svarað að svo væri og létti nokkuð.

En reyndin var önnur. Ítrekaðar tilraunir Víkverja til að hringja úr símanum í Alsír reyndust allar árangurslausar. Af sérstökum ástæðum, sem ekki verða raktar hér, olli þetta Víkverja miklum óþægindum en hvimleiðast var að hafa ekki fengið réttar upplýsingar hér heima, að fara út í góðri trú.

Þess ber að geta að Víkverji notaði símann vandræðalaust í Túnis, þar var greinilega virkur reikisamningur. Reyndar var afar notalegt að vera staddur í fjöllum Túnis og fá þar upphringingu frá kosningaskrifstofu frambjóðanda í prófkjöri í Reykjavík!

En Síminn þarf greinilega að fara betur yfir þessi mál.

Víkverji þarf oft að aka upp eða niður Nóatún í Reykjavík og kemur þá, rétt fyrir neðan Laugaveginn, að einhverju sérkennilegasta hringtorgi sem hann hefur rekist á nokkurs staðar í heiminum. Nýlega var torgið sjálft, sem er örlítið, hækkað til að koma í veg fyrir það sem margir höfðu lengi horft á í forundran: að ökumenn ækju rakleitt yfir sjálft torgið eins og um venjuleg gatnamót væri að ræða. Víkverji hefur oft verið mjög nálægt því að fá bíl inn í hliðina á sínum fararskjóta og horft á skelfingarsvipinn á þeim sem áttuðu sig of seint á aðstæðum - en sluppu með skrekkinn.

Sennilega er skýringin á þessu gersamlega óþarfa torgi að ætlunin sé að þvinga ökumenn til að draga úr hraðanum. En er þetta góð aðferð til þess, að flækja einfaldlega vegakerfið svo mikið að menn verði að stoppa til að klóra sér í höfðinu?