Nanna Þórisdóttir
Nanna Þórisdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auður Axelsdóttir og Nanna Þórisdóttir skrifa um stuðning við geðsjúka: "Við í Hugarafli viljum þakka Sparisjóðunum fyrir framtakið sem hvetur menn til dáða, heldur umræðunni gangandi og minnkar fordóma."

SPARISJÓÐURINN hefur að undanförnu beint sjónum sínum og okkar landsmanna að mikilvægi góðrar geðheilsu. Átak Sparisjóðsins felur í sér að landsmenn þeirra velja sér félag til að styrkja sem hafa þótt framsækin í nálgun sinni í tengslum við geðheilbrigði. Allir geta tekið þátt en viðskiptavinur Sparisjóðsins þarf ekki að greiða neitt, eingöngu að velja félag og mun Sparisjóðurinn leggja fram 1.000 krónur fyrir hvern viðskiptavin.

Auglýsingaherferð átaksins hefur minnt okkur á að geðheilsa varði okkur öll. Hver fjölskylda á einhvern sem þarfnast stuðnings og hvatningar til að takast á við lífið og tilveruna og að í hverri fjölskyldu eru englar sem aldrei missa trúna á að betri tímar séu í vændum. Sparisjóðurinn bendir einnig á að við séum ein stór fjölskylda sem eigi að láta sig geðheilbrigði varða og hvert og eitt okkar velur sér sína leið til að taka þátt. Hugarafl er eitt af þeim félögum sem hlotnaðist sá heiður að vera með í átaki Sparisjóðsins.

Við í Hugarafli viljum þakka Sparisjóðnum fyrir framtakið sem hvetur menn til dáða, heldur umræðunni gangandi og minnkar fordóma. Við óskum þeim félögum sem leitað var til í átakinu góðs gengis, en þau eru auk Hugarafls, Spegilinn, Forma, Geðhjálp, Rauði krossinn, Ný leið, Geysir og ADHD-samtökin. Ef viðskiptavinur Sparisjóðsins eða aðrir velunnarar góðrar geðheilsu velja Hugarafl munu skapast a.m.k. tvö störf fyrir einstaklinga sem eiga sér þann draum að geta farið af örorku og hafið almenn störf.

Hugarafl hefur starfað í þrjú ár og hefur m.a. gefið út fræðsluefni í tengslum við bataferli geðsjúkra og valdeflingu. Á haustdögum gaf Hugarafl út Vegvísi sem er upplýsingabæklingur um þá þjónustu sem er að finna ef leita þarf aðstoðar vegna geðraskana. Einnig hefur verið haldin ráðstefna og námskeið sem miða að því að varpa ljósi á bataferli og batahvetjandi leiðir úr frá reynslu geðsjúkra. Hugaraflsmenn hafa verið virkir í umræðunni um geðheilbrigðismál, skrifað greinar, farið í viðtöl í ljósvakamiðlum, tekið þátt í kennslu heilbrigðisnema og halda erindi um reynslu sína. Starfsemi margra grasrótahreyfinga hafa gert það að verkum að geðsjúkir eru sýnilegri í umræðunni, rödd þeirra verður sterkari og áhrifamenn hvattir að auka val og áhrif geðsjúkra um eigin málaflokk. Fyrirmyndir hafa stigið fram sem gefa ungu fólki von um betri tíð og bata. Þær hafa jafnframt sýnt fram á að bati sé einstaklingsbundið ferli og mismunandi leiðir eru færar í bataferlinu.

Stofnun Hlutverkaseturs er ein af þeim leiðum sem Hugarafl hefur stefnt að undanfarin ár. Geðsjúkir í bata og iðjuþjálfar hafa í samvinnu mótað hugmyndir um atvinnuendurhæfingu sem byggist m.a. á reynslu geðsjúkra á hvað virki í bataferlinu. Hlutverkasetrið setur á oddinn að auka hlutverk, áhrif og þátttöku fólks með geðræn vandamál til aukinnar verðmætasköpunar í samfélaginu. Hlutverkasetrið verður dæmi um á hvern hátt geðsjúkir geta mótað þjónustu, tekið þátt í nýsköpun og skapað störf sem þeirra sérþekking verður nýtt. Hlutverkasetrið verður vinnustaður þar sem geðsjúkir og iðjuþjálfar vinna á jafningjagrundvelli þar sem sérþekking beggja fær að njóta sín. Vinnustaðurinn mun þjónusta almenning s.s. kaffihúsarekstur, en einnig verða gerðar úttektir fyrir heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld í tengslum við gæðaþróunarverkefni, námskeið verða haldin sem og útgáfustarfsemi og jafningja- og ráðgjafarstarf.

Meginmarkmiðið með rekstri Hlutverkaseturs er að efla virkni og þátttöku fólks. Náin samvinna verður við fyrirtæki á almennum vinnumarkaði sem vilja skapa einstaklingum með skerta starfshæfni brautargengi út í atvinnulífið.

Kæru landsmenn, við hvetjum ykkur til að taka þátt í átaki Sparisjóðsins, annaðhvort sem viðskiptavinir eða með því að velja félag með eigin fjárframlögum.

Gleðileg jól.

Höfundar starfa í Hugarafli.