Ólafur Oddsson
Ólafur Oddsson
Ólafur Oddsson fjallar um málefni skógræktar ríkisins: "Rísið upp og vinnið með okkur. Hefjum Skógræktina til vegs og virðingar með því að veita henni nægt fjármagn til að hún geti sinnt starfi sínu"

ENN og aftur er sorfið að fjárhagsstöðu Skógræktar ríkisins samkvæmt fjárlögum ársins 2007. Hvers vegna skyldi það blasa við eitt árið enn? Tillögur yfirstjórnar stofnunarinnar eru skornar niður og viðbætt flötum niðurskurði samtals að upphæð 24 m kr. og 30 milljónir þegar vísitalan er tekin með.

Eftir að nýskógrækt færðist til landshlutabundnu skógræktarverkefna bænda virðist stofnun eins og Skógræktin ekki hafa lengur það vægi og áður var þegar starfsemin var meiri með rekstri gróðrastöðva og gróðursetningu með fjölda manns í vinnu. Landshlutabundnu skógræktarverkefnin sjá þó aðeins um einn afmarkaðan þátt í skógrækt, þ.e. að veita framlög til nýræktunar skóga á bújörðum. Með þessu er ég ekki að segja að landshlutaverkefnin séu ekki vel að fjárveitingum komin, heldur hitt að þau koma ekki í staðin fyrir starfsemi Skógræktarinnar. Skógrækt ríkisins þarf að eflast í takt við aukið skógræktarstarf í landinu.

Á undanförnum árum hefur Skógrækt ríkisins mætt hverri hagræðingarkröfu á fætur annarri, fækkað starfsmönnum, lokað vinnustöðum og sleppt nauðsynlegum verkefnum. Eftir standa fámennir vinnustaðir í landshlutunum en stórir skógar, þjóðskógarnir sem eru skólastofur skógræktarmanna, perlur almennings til útivistar og yndis, sameign þjóðarinnar sem er hluti af hjartastöðinni, þjóðarsálinni. Þetta eru Hallormsstaðaskógur, Vaglaskógur, Hreðavatn, Þjórsárdalur, Ásbyrgi, Þórsmörk og 50 aðrir skógar og skógræktarsvæði. Þessa skóga þarf að vernda, rækta og hirða. Þar þarf að byggja upp aðstöðu til útivistar fyrir almenning og skólafólk sem vill dvelja þar við nám.

Skógur sem ekki er vel hirtur er engum til yndis.

Stöðugt meiri kröfur eru gerðar til góðrar aðstöðu til útivistar og dvalar í þjóðskógunum. Fleiri og fleiri gestir sækja þá heim og íslendingar ferðast í auknu mæli innanlands og vilja kynnast landi og þjóð. Það fólk á ekki að þurfa að fussa og sveia yfir lélegri aðstöðu og þjónustu í þjóðskógunum.

Kæru þingmenn, ráðherrar og embættismenn í landbúnaðarráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu, endurskoðið ykkar afstöðu. Hvernig haldið þið að það sé að vinna fyrir ykkur á stofnun sem ekki hefur efni á að sinna því hlutverki sem henni er ætlað: Rannsóknum, fræðslu, ráðgjöf og margs konar þróunarstarfi ásamt aðstoð við ýmsa hópa innlenda og erlenda. Ef til vill finnst ykkur eins og svo mörgum að það sé í lagi að svelta ríkisstofnun, það sé hvort sem er ekkert gert af viti þar og hana ætti að einkavæða. Hluti af lágkúru landans er sú mikla þörf fyrir að velta sér með neikvæmum hætti upp úr ríkisstofnunum jafnvel þó þær standi sig prýðilega. Rísið upp og vinnið með okkur. Hefjum Skógræktina til vegs og virðingar með því að veita henni nægt fjármagn til að hún geti sinnt starfi sínu vel. Við hljótum að hafa efni á því í þessari miklu velferð. Fórnum ekki minni hagsmunum fyrir meiri. Stór hluti af því er að hafa fjármagn til að geta gert góða hluti og styrkt þannig menningarímynd þjóðarinnar. Skógrækt ríkisins er hluti af henni.

Höfundur er starfsmaður Skógræktar ríkisins og verkefnisstjóri Lesið í skóginn.