Jóhannes Geir Sigurgeirsson
Jóhannes Geir Sigurgeirsson
NÝ STJÓRN Landsvirkjunar var skipuð í gær, en hún tekur við stjórn fyrirtækisins um áramót, þegar ríkið tekur yfir eignarhlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.

NÝ STJÓRN Landsvirkjunar var skipuð í gær, en hún tekur við stjórn fyrirtækisins um áramót, þegar ríkið tekur yfir eignarhlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Þá flyst forræði ríkisins yfir Landsvirkjun einnig frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti til fjármálaráðuneytisins, en fyrirtækið verður sameignarfélag í eigu ríkisins og Eignarhluta ehf.

Nýja stjórnin var skipuð tímabundið fram til næsta reglulegs aðalfundar, í apríl nk., á sérstökum aukafundi í gær og verður hún skipuð fimm mönnum í stað sjö áður.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson verður stjórnarformaður áfram í nýrri stjórn, en auk hans skipa stjórnina þau Ágúst Einarsson prófessor, Margrét Sanders, löggiltur endurskoðandi, Valur Valsson, fyrrverandi bankastjóri, og Jóna Jónsdóttir viðskiptafræðingur.

Fulltrúar Reykjavíkur og Akureyrar úr stjórn

Varamenn í stjórn verða þau Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir, Sveinn Agnarsson, Valdimar Hafsteinsson, Þórður Sverrisson og Ágústa Björnsdóttir.

Úr stjórninni ganga Álfheiður Ingadóttir, Illugi Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.