Í upphafi Landsspítali– með tveimur s-um – á gamla sjúkrahúsinu við Hringbraut.
Í upphafi Landsspítali– með tveimur s-um – á gamla sjúkrahúsinu við Hringbraut. — Morgunblaðið/Ásdís
Eftir Sunnu Ósk Logadóttur sunna@mbl.is HVERS vegna heitir sjúkrahús allra landsmanna Landspítali en ekki Landsspítali?

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

HVERS vegna heitir sjúkrahús allra landsmanna Landspítali en ekki Landsspítali?

Samkvæmt frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu, sem nú liggur fyrir Alþingi, mun Landspítali – háskólasjúkrahús heita Landspítalinn, verði frumvarpið að lögum. Viðskeytið "háskólasjúkrahús" var sett í nafn hins sameinaða spítala árið 2000 til að leggja áherslu á hlutverk spítalans sem kennslu- og rannsóknarstofnunar. Hins vegar hefur það allar götur síðan verið skoðun margra að ekki fari vel á því að kalla stofnunina "sjúkrahús" og "spítala" í einu og sama nafninu.

"Landsspítali" reistur fyrir söfnunarfé kvenna

En hvað varð um s-ið í nafni spítalans? Voru þau kannski aldrei tvö? Jú, reyndar, en aðeins stundum. Mjög var á reiki á síðustu öld hvort var notað eitt s eða tvö í nafni sjúkrahússins, sínu algengari virðist þó vera að hafa aðeins eitt s.

Í hornsteini sjúkrahússins, sem lagður var 15. júní árið 1926 af Alexandrínu drottningu, eiginkonu Kristjáns tíunda Danakonungs, segir m.a.: "Hús þetta – Landsspítalinn – var reistur fyrir fje sem íslenskar konur höfðu safnað og Alþingi veitt á fjárlögum til þess að: Líkna og lækna." Yfir suðurdyrum sjúkrahússins má sjá áletrunina "Landsspítalinn".

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru bæði orðin, Landsspítali og Landspítali, málfræðilega rétt.

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að í orðinu Landspítali sé um stofnsamsetningu að ræða en í Landsspítali sé um eignarfallssamsetningu að ræða.

Báðar samsetningarnar eru góðar og gildar.

Í grein eftir Jóhann Heiðar Jóhannsson, sem birtist í Læknablaðinu árið 2000, kemur fram að í ritmálaskrá Orðabókar Háskólans megi finna bæði orðin: landsspítali (heimild frá 1863) og landspítali (frá 1896). Samkvæmt þessu er Landsspítali því upprunalegri orðmynd en ljóst að snemma hefur það gerst að annað s-ið hefi stundum fallið brott. Jóhann rifjar einnig upp í grein sinni að Vilmundur Jónsson landlæknir hafi fjallað ítarlega um stofnun Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 1866 og rekið margt úr þeirri umræðu sem fram fór á næstu áratugum um stofnun kennsluspítala. Í þeirri umfjöllun er alltaf notað heitið "landsspítali".

Gunnar M. Magnús segir frá því í bók sinni (Ríkisspítalar 1981) að á fyrsta almenna læknafundinum í Reykjavík árið 1896, hafi eitt af dagskrármálunum verið "Landsspítali" og að rúmum þrjátíu árum seinna, þegar spítalinn hafi verið reistur, hafi verið sett lágmynd á burst hans sem bar áletrunina "Landsspítali Íslands."

Hús andanna eða Báknið?

Jóhann segir í grein sinni frá tillögum að nafni sameinaðs sjúkrahúss í Reykjavík árið 2000, en leitað var til starfsfólks spítalans og fleiri aðila um tillögur að nafni á hina nýju stofnun.

84 tillögur bárust. Segir Jóhann að spaugfuglar hafi lagt til nöfn á borð við Báknið, Hús andanna, Landskotaspítalinn og Selskapssjúkrahúsið á meðan aðrir slepptu hugmyndafluginu lausu og stungu upp á að stofnunin fengi nafn á borð við Björg, Ból, Fjöl, Hörn, Tögg, Vermir, Vör, Þor, Þöll eða Öflga. Ljóst má vera að einhver þessara nafna hefðu vakið annars konar umræðu en hér er verið að fjalla um.

Úrskurðarnefnd var skipuð og niðurstaða fékkst: Í reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sem gefin var út 2. mars árið 2000, kemur fram að sameinaða sjúkrahúsið skuli bera nafnið Landspítali – háskólasjúkrahús.