Víkverji var frá sér numinn yfir fræknum sigri íslenska handboltalandsliðsins á Evrópumeisturum Frakka í fyrradag. Landsliðið þrífst á að mála sig út í horn og brjótast síðan fram af fítonskrafti þegar allar bjargir virðast bannaðar.
Víkverji var frá sér numinn yfir fræknum sigri íslenska handboltalandsliðsins á Evrópumeisturum Frakka í fyrradag. Landsliðið þrífst á að mála sig út í horn og brjótast síðan fram af fítonskrafti þegar allar bjargir virðast bannaðar. Þótt af og til örlaði á hvaða burði franska liðið hefur var það yfirspilað.
Sigurinn jafngildir ekki heimsmeistaratitli og ástæðulaust að ofmetnast, fremur en að gefast upp eftir vonbrigðin gegn Úkraínu, en ekki ber heldur að gera lítið úr því sem vel er gert.
Íslenska landsliðið spilaði vel í heild gegn Frökkum, en nokkrir leikmenn stóðu upp úr. Ólafur Stefánsson er ekki jafn áberandi í liðinu og áður og hefur oft leikið betur. En er lykilmaður, þótt ekki sjáist það í markaskoruninni. Hann dregur til sín hálft lið andstæðinganna þegar hann er með boltann og er síðan ótrúlega naskur á að finna lausan mann í dauðafæri. Ólafur kemst oft skemmtilega að orði og er blessunarlega laus við hefðbundna og útjaskaða íþróttafrasa. "Nú lét ég mig flæða um völlinn og treysti á liðið mitt og um leið kemur í ljós hversu sterkt það getur verið," sagði Ólafur eftir leikinn. "Ég óskaði eftir kraftaverki og sú ósk rættist." Það er engu logið um það að Ólafur Stefánsson lét sig flæða um völlinn. Það sást best í leikskilningi hans og yfirsýn.