Bryndís Guðmundsdóttir fæddist á Ísafirði 1943. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1963, kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1964 og lauk árið 1993 námi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands.

Bryndís Guðmundsdóttir fæddist á Ísafirði 1943. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1963, kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1964 og lauk árið 1993 námi í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Bryndís starfaði um langt skeið við kennslu og sem námsráðgjafi. Hún hefur starfað sem kennsluráðgjafi hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2002. Bryndís á tvo syni og fjögur barnabörn.

Næstkomandi fimmtudag, 25. janúar, kl. 16.30 verður haldin kynning á niðurstöðum könnunarinnar Krakkarnir í hverfinu með sérstakri áherslu á Vesturbæ. Þjónustumiðstöð Vesturbæjar stendur fyrir kynningarfundinum sem fer fram í safnaðarheimili Neskirkju.

Bryndís Guðmundsdóttir er kennsluráðgjafi í Vesturgarði og verkefnisstjóri þekkingarverkefnis um börn og samfélag: "Krakkarnir í hverfinu er heiti könnunar sem gerð hefur verið árlega undanfarin 9 ár, og er ætlað að varpa ljósi á hagi og líðan nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla," segir Bryndís. "Könnunin fer fram á landsvísu, en við úrvinnslu könnunarinnar eru niðurstöður flokkaðar m.a. eftir borgarhlutum og bæjum, og munum við á fundinum á fimmtudag rýna í niðurstöður er varða Vesturbæ m.a. í þeim tilgangi að sjá hvar nauðsynlegt er að bregðast við, og þá með hvaða hætti."

Áhrif íþrótta og fjölskyldu

Könnunin var framkvæmd af fyrirtækinu Rannsóknum og greiningu, og mun Álfgeir Logi Kristjánsson aðferðafræðingur kynna helstu niðurstöður: "Sjónum er sértaklega beint að rótum vanlíðunar sem getur birst í misnotkun vímuefna, geðrænum erfiðleikum, brottfalli úr skóla og brotinni sjálfsmynd, en jafnframt er horft til atriða í félagslegu umhverfi ungmenna," segir Bryndís. "Í lok ársins 2005 var samþykkt forvarnarstefna Reykjavíkur þar sem sérstök áhersla er lögð á styrkingu sjálfsmyndar og félagsfærni. Rannsóknir hafa sýnt að þættir á borð við reglulega íþróttaiðkun og góð tengsl við foreldra hafa mikil áhrif, og tengjast m.a. minni líkum á vímuefnanotkun unglinga, betri líðan í skóla og bættum námsárangri."

Bryndís segir kynninguna eiga að gagnast bæði foreldrum, starfsmönnum skóla, og öllum þeim sem koma að starfi með börnum og unglingum. "Rannsóknin veitir mikilvægar upplýsingar um stöðu mála í hverfinu, og er góður grunnur fyrir okkur sem vinnum að málefnum barna og ungmenna," segir Bryndís.

Stöðugt á verði

"Vesturbærinn kemur þokkalega út úr könnuninni að þessu sinni, en við verðum að gæta þess að sofna ekki á verðinum. Merki um að neysla vímuefna sé að aukast er áhyggjuefni, og að svo virðist sem aðhaldi og eftirliti foreldra sé ábótavant. Gott forvarnarstarf felst í því að styrkja einstaklinginn frá blautu barnsbeini, og efla félagsfærni með virkum hætti."

Nálgast má heildarskýrslur rannsóknarinnar Krakkarnir í hverfinu á heimasíðu Rannsókna og greiningar, www.rannsoknir.is. Upplýsingar um forvarnastefnu Reykjavíkurborgar má finna á www.reykjavik.is.

Fundurinn í safnaðarheimili Neskirkju er öllum opinn og aðgangur ókeypis.