UMSÖGN um nýjustu skáldsögu bandaríska rithöfundarins Normans Mailer, The Castle in the Forest , birtist á dögunum í dagblaðinu International Herald Tribune en bókin kemur formlega út í dag, 24. janúar.

UMSÖGN um nýjustu skáldsögu bandaríska rithöfundarins Normans Mailer, The Castle in the Forest , birtist á dögunum í dagblaðinu International Herald Tribune en bókin kemur formlega út í dag, 24. janúar. Mailer sem verður 84 ára í lok þessa mánaðar hefur um langt skeið verið á meðal vinsælustu skáldsagnahöfunda Bandaríkjanna og ásamt Truman Capote og Tom Wolfe ruddi hann veginn fyrir þá tegund skáldsagnagerðar sem nefnist "creative nonfiction" (skáldsaga byggð á raunverulegum atburðum) en sú bókmenntagrein hefur einnig verið nefnd "ný-blaðamennska" og er líklegast þekktust í meðförum blaðamannsins og rithöfundarins Hunters S. Thompson.

The Castle in the Forest

er fyrsta skáldsagan sem Mailer sendir frá sér í tíu ár og viðfangsefnið er umfangsmikið: æska og uppvöxtur nasistaleiðtogans Adolfs Hitler og sögumaðurinn er enginn annar en djöfullinn sjálfur í gervi SS-hermanns að nafni Dieter. Heiti bókarinnar, sem útleggst á íslensku Kastalinn í skóginum, vísar síðan til þeirrar öfugmæla-nafngiftar sem gyðingar gáfu útrýmingarbúðum nasista undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Baráttan við sjálfið

Í umsögn gagnrýnanda segir að Mailer sé í bókinni nokkuð trúr raunverulegum atburðum í lífi Hitlers þó hann taki sér nokkur skáldaleyfi; svo sem eins og það að Hitler hafi fæðst með aðeins eitt eista og að hann hafi verið sonur föður síns og systur sem Mailer gerir þroskahefta en orðrómur um sifjaspellin komst í raun og veru á kreik í kjölfar sjálfsmorðs Hitlers. Greinarhöfundur tekur fram að líkt og í svo mörgum skáldsögum Mailers sé það baráttan við sjálfið sem sé til umfjöllunar og að hvaða leyti manneskjan er fórnarlamb eigin blekkinga, sem óhjákvæmilega endi með ósköpum.

Í greininni kemur einnig fram áhugaverð kenning um tengslin á milli heitis bókarinnar og þeirra andstæðu póla sem kallist á í rithöfundinum Norman Mailer. Skógurinn tákni í þeim skilningi óhefta sköpun, kynhvöt og hvatvísi en um leið einlægni hins saklausa gagnvart guði. Á hinn bóginn sé Mailer agaður maður sem líti á starf sitt sem iðn líkt og smiður eða múrari sem byggir glæsilegan kastala þar sem fólk getur spókað sig í ró og næði og villst jafnvel um stund án þess þó að því fallist hendur.

Goðsagnakenndur höfundur

Eins og áður sagði þykir útgáfa The Castle in the Forest stórviðburður í bókmenntaheiminum þar sem heil tíu ár eru frá því að síðasta skáldsaga Mailers The Gospel According To The Son kom út. (Það skal þó tekið fram að hann kom að ritun bókarinnar The Big Empty , ásamt syni sínum John Buffalo Mailer. Hún kom út árið 2005.) En þess utan hefur ákveðinn goðsagnarblær verið yfir rithöfundinum, sem hefur lifað stormasömu lífi svo ekki sé meira sagt. Frægust er líklega sagan þegar hann stakk eiginkonu sína, Adele Morales, í gleðskap. Morales lifði hnífstunguna af og skráði síðar minningar sínar um hjónaband þeirra í bókina The Last Party .

Mailer hefur sex sinnum gengið í hjónaband og á alls níu börn. Hann var einn af stofnendum vikublaðsins Village Voice sem kemur út í New York.