Sjálfboðaliðar Verkamennirnir gengu vaskir til verks um helgina. VA verktakar og Byko lögðu jafnframt sitt af mörkum.
Sjálfboðaliðar Verkamennirnir gengu vaskir til verks um helgina. VA verktakar og Byko lögðu jafnframt sitt af mörkum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Friðrik Ársælsson fridrik@mbl.is UNGMENNUM á meðferðarheimili Götusmiðjunnar að Akurhóli á Rangárvöllum barst á dögunum hjálp úr óvæntri átt.
Eftir Friðrik Ársælsson

fridrik@mbl.is

UNGMENNUM á meðferðarheimili Götusmiðjunnar að Akurhóli á Rangárvöllum barst á dögunum hjálp úr óvæntri átt. Þannig er mál með vexti að reykingar eru bannaðar innanhúss á öllum meðferðarheimilum landsins og hafa ungmennin í Götusmiðjunni því þurft að reykja utan dyra í öllum veðrum. Fiann Pawel, pólskur arkitekt sem starfar við ljósmyndun, frétti af aðstöðuleysinu og hélt austur á Rangárvelli ásamt fríðu föruneyti sjö samlanda sinna sem hér starfa tímabundið sem verkamenn. Unnu þeir baki brotnu um síðustu helgi að smíði athvarfs fyrir þá vistmenn Götusmiðjunnar sem reykja. Vinnu sína gáfu þeir allir en verktakafyrirtækið VA verktakar, sem verkamennirnir vinna hjá, gaf allt efni sem þurfti til verksins. Þá veitti Byko hópnum veglegan afslátt af efni. Ætlunin er að halda aftur austur um helgina og ljúka við verkið, setja gólf í skálann og gera veggi vatnshelda.

Móttökurnar frábærar

"Ég hef lengi unnið við hvers kyns sjálfboðastarf í þágu ungs fólks og eftir sjö mánaða dvöl hér á landi langaði mig að láta eitthvað gott af mér leiða," segir Fiann og bætir við að því starfi sem hann hafi unnið á árum áður svipi mjög til þess sem Gummi í Götusmiðjunni vinni. "Ég leitaði til barnaverndaryfirvalda til þess að komast að því hvar neyðin væri mest og Bragi [Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu] benti okkur á Götusmiðjuna. Ég sótti Götusmiðjuna heim ásamt eiganda verktakafyrirtækisins og við athuguðum hvað við gætum gert fyrir krakkana. Niðurstaðan varð sú að reisa þar kofa fyrir reykingafólk og skjóta þar með skjólshúsi yfir þau ungmenni sem þar reykja." Móttökurnar voru frábærar og unglingarnir hrósuðu hópnum í hástert fyrir framtakið. "Þau notuðu mikið slangur og ég þurfti að þýða hvert einasta orð fyrir verkamennina, þar sem þeir skilja hvorki íslensku né ensku," segir Fiann. "En þakklætið skein í gegn og ég held að það hafi verið gott fyrir samlanda mína að finna fyrir því að verk þeirra væru mikils metin þar sem pólskir verkamenn sem koma til Íslands upplifa sig oft á tíðum sem minnihlutahóp."

Enn stærra verkefni í burðarliðnum

Fiann heldur af landi brott í byrjun mars til þess að sinna starfi sínu sem ljósmyndari í Bandaríkjunum. Hann snýr þó aftur til landsins í sumar þar sem hann mun annast framkvæmd stuðningsverkefnis fyrir íslensk börn. Ætlunin er að birta stærðar andlitsmyndir af íslenskum börnum við Hverfisgötu. "Allur ágóði verkefnisins mun renna til verðugs málefnis í þágu barna og ég mun ráðfæra mig við Braga á ný um það hvert best sé að beina fjármununum," segir hinn pólski hugsjónamaður að lokum.

Í hnotskurn
» Reykingafólk á meðferðarheimili Götusmiðjunnar hefur hingað til þurft að fara út í öll veður til að reykja.
» Pólskur arkitekt og samlandar hans brugðust við vandanum með því að reisa athvarf fyrir þau ungmenni sem reykja við mikinn fögnuð vistmanna Götusmiðjunnar.