Bókverk Unnur Guðrún Óttarsdóttir sýnir um þessar mundir bókverk á myndlistarsýningunni Bókalíf í Reykjavíkur Akademíunni.
Bókverk Unnur Guðrún Óttarsdóttir sýnir um þessar mundir bókverk á myndlistarsýningunni Bókalíf í Reykjavíkur Akademíunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hoffmannsgallerí er alls ekkert gallerí heldur bara gangurinn þar sem skrifstofur Reykjavíkurakademíunnar er að finna, í húsnæði hennar við Hringbraut.

Hoffmannsgallerí er alls ekkert gallerí heldur bara gangurinn þar sem skrifstofur Reykjavíkurakademíunnar er að finna, í húsnæði hennar við Hringbraut. Þarna eru reglulega haldnar myndlistarsýningar og þegar þær eru skoðaðar skapar það alveg sérstakt andrúmsloft að sjá og heyra út undan sér fræðimenn við störf og spjall.

En hver var hann þessi Hoffmann sem gangurinn í Reykjavíkurakademíunni kennir sig við? Í grein sem Ólafur J. Engilbertsson skrifar í veftímaritið Kistuna árið 2005 kemur fram að Pétur Hoffmann Salómonsson hafi reist sér skúr í Selsvörinni, rétt hjá þar sem Reykjavíkurakademían er til húsa, og búið þar 1948–60. Í Selsvörinni voru einnig ruslahaugar borgarinnar. Hoffmann gerði út á hrognkelsi og ruslið á haugunum og kallaði ströndina Gullströndina því þar fann hann bæði mynt og heiðurspeninga. Sú nafngift gekk ennfremur aftur í sýningunni Gullströndin andar, lifandi listsýningu sem haldin var í JL-húsinu við Hringbraut 1982. Þeir sem hafa áhuga á ævi Hoffmanns geta leitað uppi ævisögu hans, ritaða af Stefáni Jónssyni, sem gefin var út af Ægisútgáfunni árið 1963.

Nú hefur verið sett upp sýning á ganginum sem byggist á tengslum orða og mynda. Sýningarstjórar eru þeir Davíð Stefánsson og Kristinn G. Harðarson og bæði myndlistarmenn og ljóðskáld eiga þar verk, m.a. nokkrir myndlistarmenn sem markvisst hafa notað texta í verkum sínum, eins og Þorvaldur Þorsteinsson, Ásta Ólafsdóttir og Hlynur Hallsson sem öll nálgast viðfangsefnið á ólíkan máta. Þorvaldur veltir fyrir sér ímynd Akureyrar, Ásta tengingu íslensks samfélags og einstaklingsins innan þess við hinn stóra heim og Hlynur setur fram hugmyndir sínar um tengsl lífs og listar. Hreinn Friðfinnsson sýnir fallegt verk sem speglar viðfangsefnið skemmtilega og eftirminnilega. Ljóðmyndir Óskars Árna Óskarssonar eru bæði húmorískar og óræðar, til dæmis átti ég erfitt með að lesa úr myndinni Þórbergur Þórðarson skoðar Síríus þó að aðrar væru augljósar eins og Jarðarför í rigningu. Sýnd eru ljóð úr bókum Gyrðis Elíassonar frá 1984 og '85 sem endurspegla áhuga hans á myndlist og á þeim tíma á eins konar konkretljóðum. Eftirminnilegt er þar ljóð hans byggt á málverki eftir Scheving. Davíð Stefánsson sýnir verk í anda Hoffmanns, fundið umferðarskilti undir titlinum Hið fundna vill líka.

Sýningin segir ekki mikið um tengsl orða og mynda í íslenskum listheimi svona almennt eða í gegnum tíðina og það fer ekki mikið fyrir henni, en hún gefur engu að síður örlitla innsýn í það hvernig íslenskir listamenn og ljóðskáld hafa nálgast viðfangsefnið og óhætt er að mæla með innliti á hana.

Í Reykjavíkurakademíunni má einnig sjá sýninguna Bókalíf, bókverk eftir Unni Guðrúnu Óttarsdóttur.

Ragna Sigurðardóttir (ragnahoh@simnet.is)