10. mars 2007 | Íþróttir | 199 orð

"Finnbjörn var frábær"

FINNBJÖRN Þorvaldsson var einn af afreksmönnum ÍR í frjálsíþróttum á eftirstríðsárunum. Hann varð í sjötta sæti í 100 m hlaupi á Evrópumeistaramótinu í Ósló 1946 á 10,9 sekúndum eftir að hafa sett Íslandsmet í milliriðlum, 10,8 sekúndur.
FINNBJÖRN Þorvaldsson var einn af afreksmönnum ÍR í frjálsíþróttum á eftirstríðsárunum. Hann varð í sjötta sæti í 100 m hlaupi á Evrópumeistaramótinu í Ósló 1946 á 10,9 sekúndum eftir að hafa sett Íslandsmet í milliriðlum, 10,8 sekúndur. Hann var yngstur keppenda í greininni á mótinu. Þá reyndi hann sig einnig í 200 m hlaupi en heltist úr lestinni í undanúrslitum. Finnbjörn varð Norðurlandameistari í 100 og 200 m hlaupi árið 1949 í Stokkhólmi eftir að hafa keppt á Ólympíuleikunum í London árið á undan þegar Íslendingar sendu fjölmenna sveit til keppni. Finnbjörn var einnig á meðal keppenda á EM í Brussel 1950 og komst í milliriðla í 100 m hlaupi.

"Finnbjörn var frábær íþróttamaður sem ekki einungis var góður í spretthlaupum heldur átti hann einnig um tíma Íslandsmetið í langstökki," segir Jón Þ. Ólafsson, spurður um Finnbjörn.

Finnbjörn setti Íslandsmet í langstökki 1947, 7,14 metra, og bætti það síðan um 2 sentimetra árið eftir. Honum var fleira til lista lagt og var m.a. í Íslandsmeistaraliði ÍR í handknattleik árið 1948.

"Finnbjörn var ásamt Clausenbræðrum helsta stjarna ÍR-inga í frjálsíþróttum á árunum í kringum 1950, stórskemmtilegur íþróttamaður," segir Jón Þ. Ólafsson, en hann þekkir frjálsíþróttasögu ÍR betur en flestir aðrir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.