Stofnaðilar Skinnaiðnaðar 16 og hlutafé 55 millj. SKINNAIÐNAÐUR hf. nýtt fyrirtæki um rekstur þrotabús Íslensks skinnaiðnaðar var stofnað í gær. Stofnhluthafar voru 16 talsins og hlutafé um 55 milljónir króna.

Stofnaðilar Skinnaiðnaðar 16 og hlutafé 55 millj.

SKINNAIÐNAÐUR hf. nýtt fyrirtæki um rekstur þrotabús Íslensks skinnaiðnaðar var stofnað í gær. Stofnhluthafar voru 16 talsins og hlutafé um 55 milljónir króna.

Stærstu hluthafar Skinnaiðnaðar eru Akureyrarbær, Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, Samvinnulífeyrissjóðurinn, starfsmenn fyrirtækisins, Útgerðarfélag Akureyringa, Kaupfélag Eyfirðinga, Stéttarsamband bænda, Búnaðarfélag Íslands, Eyjafjarðarsveit, Glæsibæjarhreppur og Svalbarðsstrandarhreppur.

Stefnt var að því að safna hlutafé að upphæð 45 milljónir króna, en þegar upp var staðið og gengið til stofnfundar höfðu safnast um 55 milljónir króna og sagði Ásgeir Magnússon framkvæmdastjóri Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar að fleiri aðilar hefðu skrifað sig fyrir hlutafé.

120 í vinnu

Um 120 manns fá atvinnu hjá fyrirtækinu, en það tekur við rekstrinum af Rekstrarfélagi Landsbanka Íslands sem hefur haft reksturinn á leigu síðustu mánuði.

Í stjórn Skinnaiðnaðar eru þeir Ásgeir Magnússon, Kristján E. Jóhannesson, Þórarinn E. Sveinsson, Reynir Eiríksson og Gunnar Birgisson.

Morgunblaðið/Rúnar Þór

STOFNFUNDUR Skinnaiðnaðar var í gær, en fyrirtækið tekur við rekstri þrotabús Íslensks skinnaiðnaðar og tryggir um 120 manns atvinnu.